Skip to content

Kjúklingasalat með kirsuberjum

Ég hef mjög ákveðnar skoðanir þegar kemur að kjúklingakjöti. Ég er nefnilega voðalega lítið spennt fyrir skinnlausum, beinlausum kjúklingabringum. Ég veit að það er sagt vera ,hollasti’ partur fuglsins og fleira í þeim dúr. En ekki aðeins finnst mér frekar leiðinlegt að matreiða þær heldur finnst mér kjötið yfirleitt of þurrt og lítið spennandi miðað við aðra parta fuglsins. Í mestu uppáhaldi hjá mér eru lærin – með beini og með skinni. Kjötið er meyrara, dekkra, bragðmeira og almennt miklu skemmtilegra að elda. Ég var því mjög spennt þegar ég fletti gömlu eintaki af Bon Appétit og rakst á uppskrift sem notar kjúklingalæri og lætur mann elda skinnið þar til það verður stökkt og skemmtileg viðbót í ferskt salat.

Við Elmar erum mjög hrifin af matarmiklum salötum og eldum t.d. steikarsalatið góða reglulega. Þetta salat er engu síðra og er núna eitt af uppáhaldsréttunum okkar (Elmar setur það m.a.s. í topp tíu af öllu því sem ég hef eldað síðustu árin). Það kom mér á óvart hvað kirsuberin pössuðu vel í salatið og hvað dillið í salatsósunni gaf skemmtilegt bragð. Nú tel ég að kirsuber séu kannski ekkert svo aðgengileg heima en ég held að vel þroskaðir kirsuberjatómatar myndu vera ágætis uppbót. En ef þið finnið kirsuber þá er þetta frábær leið til að borða þau.

Kjúklingasalat með kirsuberjum

(Breytt uppskrift frá Bon Appétit, júní 2011)

  • 4 kjúklingalæri, með skinni og á beini
  • Sjávarsalt og pipar
  • 1 msk grænmetisolía
  • 4 þykkar sneiðar gott sveitabrauð, rifið í bita
  • 300 g kirsuber, skorin í tvennt og steinninn fjarlægður
  • Gott salatkál, t.d. 1 stór haus romaine kál, 1 1/2 pottur lambhagasalat eða annað laufmikið kál, rifið í bita
  • 4 radísur, þunnt sneiddar
  • 1 msk graslaukur, saxaður (má sleppa)

Salatsósa:

  • 1/4 bolli ferskur sítrónusafi
  • 3 msk Dijon sinnep
  • 3 msk ferskt dill, saxað
  • 2 msk hunang
  • 1 lítill hvítlauksgeiri, fínt saxaður
  • 1/4 bolli jómfrúarolía
  • Sjávarsalt og pipar

Aðferð:

Hitið ofninn í 245°C/475°F. Kryddið kjúklinginn með salti og pipar. Hitið olíu í stórri járnpönnu yfir háum hita (eða annarri pönnu sem má fara inn í ofn, ef hvorugt er við höndina má steikja lærin á pönnu og flytja svo yfir í eldfast mót). Setjið kjúklingalærin á pönnuna með skinnið niður, eldið í 2 mínútur. Lækkið hitann niður í meðahlháan hita og haldið áfram að elda án þess að snúa lærunum við í 12 mínútur, eða þar til skinnið á lærunum er orðið gullinbrúnt á litinn. Setjið pönnuna inn í heitan ofninn og eldið í 13 mínútur til viðbótar. Snúið kjúklingabitunum við og eldið þar til bitarnir hafa eldast í gegn og skinnið er orðið stökkt, ca. 5 mínútur. Flytjið kjúklinginn yfir á disk og setjið til hliðar og leyfið að kólna.

Notið fituna í pönnunni til að steikja brauðbitana. Hitið pönnuna yfir meðalháum hita og setjið brauðið á pönnuna. Ristið á pönnunni, snúið bitunum oft þar til þeir hafa sogið í sig kjúklingafituna og eru orðnir gylltir og stökkir. Flytjið brauðið yfir á eldhúspappír og kryddið með salti og pipar.

Búið til salatsósuna með því að hræra fyrstu fimm hráefnunum saman í lítilli skál. Bætið olíunni saman við hægt og rólega og hrærið allan tímann. Kryddið með salti og pipar og setjið til hliðar.

Takið skinnið af kjúklingabringunum og rífið í bita, setjið til hliðar. Togið kjötið af beinunum og rífið kjötið í bita. Setjið kjúklingakjötið í stóra skál ásamt kirsuberjunum, kálinu, radísunum og graslauknum. Hellið salatsósunni yfir og veltið öllu vel saman. Flytjið salatið yfir á stórt fat eða skiptið jafnt á diska, dreifið brauðbitunum og kjúklingaskinninu yfir.

Fyrir 3 – 4

Prenta uppskrift

4 athugasemdir Post a comment
  1. sjúklega girnilegt! Þetta ætla ég að prófa og hlakka til að láta þig vita hvernig var. Þúsund kossar frá borginni okkar til Brooklyn xxx

    09/06/2012
  2. Ég vil bæta því við að ég mæli með einhverju góðu rauðvíni með þessu, það fer sérstaklega vel með kirsuberjunum að drekka vín með léttum berja og ávaxtakeim sem hefur samt góða fyllingu. Ég drakk Sottimano Maté sem passaði frábærlega.

    09/06/2012
  3. Ragnheiður Sigurgeirsdóttir #

    Geggjað salat klárleg eitt það besta sem ég hef gert og dressingin mögnuð. Á öruggleg eftir að gera þetta oft.

    13/06/2012

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: