Skip to content

Posts from the ‘Kjúklingur’ Category

Ferskar víetnamskar vorrúllur

Við erum nýkomin úr dásamlegu ferðalagi til vina okkar í Norður-Karólínu. Þau búa í Chapel Hill sem er gróinn og fallegur lítill háskólabær. Ferðalagið var afslappandi og skemmtilegt og Þórdís eignaðist nýja litla vinkonu sem hún lítur afskaplega mikið upp til. Raunveruleikinn tók á móti okkur þegar heim kom enda þurfum við að pakka niður íbúðinni, koma kössunum í flutninga, gefa húsgögnin og skila lyklunum. Það verður því nóg að gera næstu daga. Vinkona okkar ætlar svo að lána okkur íbúðina sína á Manhattan svo við getum eytt síðustu helginni okkar laus við áhyggjur af flutningum og íbúðarskilum.

Áður en við fórum til Chapel Hill bjuggum við Elmar til þessar ljúffengu fersku vorrúllur í bakgarðinum. Þær eru mjög viðeigandi á hlýjum (eða í okkar tilfelli, heitum) sumardögum þar sem mann langar aðallega í eitthvað ferskt og létt í magann. Við bjuggum til vorrúllur með kjúklingakjöti en það má auðvitað búa til rúllur með risarækjum eða steikja portóbellósveppi ef fólk borðar ekki kjöt eða fisk.

Rúllurnar eru bestar strax og þeim er rúllað upp en þó má vefja plastfilmu utan um þær og geyma á köldum stað í einn til tvo tíma. Við vorum með þessar leiðbeiningar til hliðsjónar þegar við vorum að gera fyrstu rúllurnar. Sósan okkar var frekar sterk og það er gott að miða við þolmörk þeirra sem borða réttinn þegar chilipiparnum er bætt út í sósuna. Rosalega ljúffengt og gott og mun einfaldara og fljótlegra en það lítur út fyrir að vera.

SJÁ UPPSKRIFT

Tacos með kjúklingi og salsa fresca

Júnímánuður í stórborginni er frekar frábær tími. Hitastigið er alveg mátulegt, stundum leikur ljúf gola við mann og þegar hitinn magnast þá kemur þrumuveður með tilheyrandi rigningu og kælir allt niður aftur. Við erum að njóta síðustu dagana okkar í borginni og reynum að vera dugleg að hitta vini og skoða nýja (og gamalkunna) staði. Í gær fórum við aftur á Brighton Beach (við Coney Island) og leyfðum Þórdísi að horfa út á hafið og leika sér í sandinum. Coney Island er stórkostlega skemmtilegur staður á sumrin. Það er mikið af alls konar fólki, leiktækin í Luna Park ganga langt fram á kvöld og á föstudagskvöldum er vikuleg flugeldasýning. Hafgolan er líka kærkomin á heitum dögum.

En þegar hlýtt er í veðri og mann langar eingöngu til að vera úti þá getur eldamennskan setið á hakanum. Við höfum ekki getað reitt okkur á loftkælinguna til þessa og því hef ég hikað við að standa yfir gaseldavélinni eða kveikja á ofninum. Lausn mín á þessum vanda er að búa til þessar einföldu kjúklingatacos. Ég kaupi tilbúinn kjúkling úti í búð og ríf hann niður. Sneiði síðan radísur og avókadó. Pækla rauðlauk og saxa ost. Svo bý ég til salsa fresca (ferska salsasósu). Úr verður ótrúlega einfaldur en ferskur og ljúffengur mexíkósur matur. Með þessu drekkur Elmar léttan bjór en ég blanda mér margarítuna mína.

Í Bandaríkjunum er mjög auðvelt að kaupa litlar tortillur úr maís sem ég glóða á gaseldavélinni. Áður en ég flutti hingað út hélt ég að tacos væri alltaf borið fram í þessu stökku skeljum sem molna strax og maður bítur í þær. Það má auðvitað nota stærri tortillurnar í þennan rétt.

SJÁ UPPSKRIFT

Hunangskjúklingur með lofnarblómum og sítrónu

Ég er lengi búin að vera vandræðalega skotin í Rachel Khoo, þáttastjórnanda The Little Paris Kitchen. Hún útskrifaðist frá hinum virta listaháskóla, Central Saint Martin í London, og eftir nokkur ár í tískubransanum lét hún gamlan draum rætast. Hún fluttist til Parísar, gerðist au pair og innritaði sig í Le Cordon Bleu matreiðsluskólann. Ég hrífst af sögum þar sem fólk skiptir algjörlega um starfsvettvang. Kannski vegna þess að ég er í doktorsnámi í fagi sem ég elska (heimspeki) en veit ekki hvort ég geti hugsað mér að vinna við það í framtíðinni. Allt nám er þó gott veganesti og ég er sannfærð um að heimspekin sé jafnvel besta veganestið.

Talandi um nesti. Þetta er fyrsta uppskriftin sem ég prófaði úr nýju matreiðslubókinni hennar Khoo. Ég á fullt af þurrkuðum lofnarblómum (lavender) upp í skáp en ég hafði keypt risapoka þegar ég bjó til kornasápu um árið. Ég var hálfefins á meðan kjúklingurinn eldaðist því mér fannst blómalyktin svo sterk. En kjúklingurinn var dásamlegur! Hunangið gerði það að verkum að ysta lag kjúklingsins varð dökkt og stökkt og lofnarblómsbragðið var milt og ljúft. Þetta er einfaldur en öðruvísi kjúklingaréttur.

SJÁ UPPSKRIFT

Kjúklingur með kardemommuhrísgrjónum og ferskum kryddjurtum

Vetrarstormurinn Nemó (er hægt að taka storm með því nafni alvarlega?) fikrar sig upp austurströndina og við megum eiga von á ofankomu, slyddu, roki og öllu mögulegu um helgina. Mér er ekki skemmt. Það góða við svona veður er hvað það er einstaklega notalegt að húka heima, búa til eitthvað hægeldað eða jafnvel baka skonsur.

Ég er búin að elda þennan rétt þrisvar sinnum núna. Hann er úr nýju uppáldsbókinni minni, Jerusalem, sem ég get ekki hætt að skoða og elda upp úr. Í fyrsta skiptið sem ég eldaði hann fór allt úrskeiðis. Svona næstum því. Ottolenghi segir manni að elda réttinn í lokaðri pönnu yfir lágum hita á eldavélinni. Eftir tilgreindan tíma var kjúklingurinn þó ennþá hrár en hrísgrjónin voru elduð í gegn. Eftir tæpan klukkutíma í viðbót var kjúklingurinn eldaður í gegn en hrísgrjónin voru ofelduð og klesst. Við vissum þó að rétturinn yrði góður gætum við bara eldað hann rétt.

Ég ákvað því að taka fram trygga steypujárnpottinn minn (sem hefur aldrei brugðist mér) og elda réttinn inni í ofni frekar en á eldavélinni. Það var með betri hugmyndum sem ég hef fengið. Kjúklingurinn var alveg rétt eldaður, hrísgrjónin bragðmikil og með örlitlu biti og kryddin gáfu réttinum skemmtilegt og ríkt miðausturlenskt bragð. Þetta er frábær vetrarmatur – seðjandi, kryddaður og heitur. Ég mæli með því að bera hann fram með smá grískri jógurt með ólívuolíu og jafnvel einhverju góðu brauði.

SJÁ UPPSKRIFT

Kjúklingasalat með kirsuberjum

Ég hef mjög ákveðnar skoðanir þegar kemur að kjúklingakjöti. Ég er nefnilega voðalega lítið spennt fyrir skinnlausum, beinlausum kjúklingabringum. Ég veit að það er sagt vera ,hollasti’ partur fuglsins og fleira í þeim dúr. En ekki aðeins finnst mér frekar leiðinlegt að matreiða þær heldur finnst mér kjötið yfirleitt of þurrt og lítið spennandi miðað við aðra parta fuglsins. Í mestu uppáhaldi hjá mér eru lærin – með beini og með skinni. Kjötið er meyrara, dekkra, bragðmeira og almennt miklu skemmtilegra að elda. Ég var því mjög spennt þegar ég fletti gömlu eintaki af Bon Appétit og rakst á uppskrift sem notar kjúklingalæri og lætur mann elda skinnið þar til það verður stökkt og skemmtileg viðbót í ferskt salat.

Við Elmar erum mjög hrifin af matarmiklum salötum og eldum t.d. steikarsalatið góða reglulega. Þetta salat er engu síðra og er núna eitt af uppáhaldsréttunum okkar (Elmar setur það m.a.s. í topp tíu af öllu því sem ég hef eldað síðustu árin). Það kom mér á óvart hvað kirsuberin pössuðu vel í salatið og hvað dillið í salatsósunni gaf skemmtilegt bragð. Nú tel ég að kirsuber séu kannski ekkert svo aðgengileg heima en ég held að vel þroskaðir kirsuberjatómatar myndu vera ágætis uppbót. En ef þið finnið kirsuber þá er þetta frábær leið til að borða þau.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskir kjúklingaleggir + asískt hrásalat með mangói og myntu

Ég er, svona almennt séð, frekar viðutan manneskja en undanfarið hefur jarðtenging mín fjarlægst um nokkur ljósár. Stundum ranka ég við mér inni á baði og hef ekki hugmynd um af hverju í ósköpunum ég fór þangað inn, ég les efni fyrir doktorsritgerðina mína og fatta klukkutíma seinna að ég hef ekki meðtekið eitt einasta orð og um daginn labbaði ég út að ruslatunnu og fattaði ekki að ég hafði gleymt að taka ruslapokann með mér út fyrr en ég opnaði lokið. Við Elmar áttum þriggja ára brúðkaupsafmæli á mánudaginn og höfðum ákveðið, með ágætum fyrirvara, að prófa loksins einn eftirsóttasta matsölustaðinn í hverfinu. Ég hlakkaði mikið til, skoðaði matseðilinn á netinu og var búin að ákveða allt það góðgæti sem ég ætlaði að smakka.

Svo rann mánudagurinn upp og um miðjan dag fattaði ég að ég hafði keypt kjúkling daginn áður, búið til marineringu og ætlað að elda hann um kvöldið. Sama kvöld og við ætluðum út að borða! Ég þurfti að tilkynna manninum mínum að í staðinn fyrir að fara fínt og skemmtilegt út að borða þá yrðum við að borða tælenskan kjúkling og hrásalat. Ég var á þvílíkum bömmer. Það er, þangað til að við smökkuðum kjúklinginn og salatið. Því þessi kjúklingur var svo góður og hrásalatið svo ferskt og fallega litað með brakandi kasjúhnetum að ég hreinlega gat ekki fengið nóg. Ég læddist m.a.s. inn í eldhús rétt fyrir svefninn og skóflaði afgöngunum í mig í miklu græðgiskasti.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: