Skip to content

Posts from the ‘Kjúklingur’ Category

Haustleg kjúklingakássa með sveppum í síder

Fyrir nokkrum mánuðum keypti ég mér þungan steypujárnspott sem þolir bæði eldavélina og ofninn. Ég er komin með algjört æði fyrir pottréttum sem byrja á steikingu á eldavélinni og fara svo inn í ofn í örfáa klukkutíma. Kjötréttir sem eldaðir eru þannig skila unaðslega meyru kjöti og rótargrænmetið sem fær að malla með verður mjúkt og bragðmikið. Og þó að það taki langan tíma að elda þessa rétti þá krefjast þeir lítillar fyrirhafnar. Þeir passa vel við þetta kalda veður og veita manni hlýja vellíðunartilfinningu.

Við erum einstaklega ánægð með hvernig rættist úr þessum rétti. Ég keypti heilan kjúkling hjá slátraranum og fékk leiðbeiningar um hvernig best væri að búta hann niður. Mér fannst sérstaklega skemmtilegt að skera kjúklinginn niður sjálf og yfirleitt er hægt að spara sér ágætis pening með því að gera það sjálf frekar en að kaupa kjúklingabita í bakka. Kjötið varð svo meyrt í þessum rétti að það rann af beinunum, rjómasósan var alls ekki of þung og við mælum með því að bera réttinn fram með smjörsteiktum kartöflum.

SJÁ UPPSKRIFT

Enfrijoladas með kjúklingi og geitaosti

Ég er svolítið veik fyrir mexíkóskum mat. En þrátt fyrir að búa í Bandaríkjunum, í einni stærstu borg í heimi sem er full af Mexíkóum þá er New York fræg fyrir að vera með lélega mexíkóska veitingastaði. Nú hef  ég kannski ekki mikið til að byggja samanburðinn á (annað en að hafa alltaf bara fengið ,,allt-í-lagi“ mexíkóskan mat hérna) en fólk frá Vesturströndinni segir að þetta sé staðreynd. Ég hef því einsett mér að prófa mig áfram í eldhúsinu í þessari matargerð í vetur og þessar enfrijoladas voru frumfraunin. Enfrijoladas eru tegund af enchilada sem eru tortillur vafðar utan um fyllingu með sósu. Þessar eru kallað enfrijoladas því þær eru bornar fram með baunasósu en ekki chilisósu, frijol þýðir víst baun á spænsku.

Rétturinn kom vel út en ég hefði viljað vera með aðeins margslungnara bragð af sósunni. Þetta getur hafa gerst af því að ég átti ekki ferskan chilipipar, fann hvergi chipotle [reyktur jalapeno] og gluðaði í staðinn einhverri habanerosósu úr ísskápnum í sósuna. Ekki fylgja þeim leik eftir. En rétturinn var ódýr, fljótlegur og auðveldur í matreiðslu. Hann var líka einstaklega seðjandi og mjög bragðgóður.

SJÁ UPPSKRIFT

Kjúklingur í Tikka Masala

Það snjóar og snjóar í New York og ef eitthvað er að marka veðurspár þá heldur það áfram næstu daga. Við förum því seint að sjá fyrir endann á slabbi og klakapollum á göngustígum borgarinnar. Það er bara janúar en ég er strax farin að bíða eftir vorinu og hlakka til dagsins sem ég get pakkað niður vetrarfötunum og skónum og farið að spóka mig í Central Park. Það fer að verða augljóst að ég ætti að eiga heima í þurru og hlýju landi. Af hverju er svona langt til Ástralíu?

Annars fer hversdagslífið að komast í fastar skorður þar sem Elmar byrjar að kenna og sækja tíma í næstu viku og ég er byrjuð að sækja tíma í New York University. Ég fór í minn fyrsta tíma í gær og mér fannst alveg yndislegt að setjast aftur á skólabekk og fá að tala um lestrarefni vikunnar. Það er Whole Foods verslun rétt hjá skólanum og ég nýtti tækifærið, stökk inn og keypti í þennan indverska rétt og greip kippu af ísköldum bjór á tilboði í leiðinni. Rétturinn er mjög góður, kryddaður og sterkur. Ég notaði kjúklingalæri í staðinn fyrir kjúklingabringur og mér fannst það koma mjög vel út – enda eru lærin yfirleitt meyrari heldur en bringurnar. Svo er auðvitað hægt að nota lambakjöt í staðinn fyrir kjúklingakjöt og mig grunar að það komi mjög vel út, sérstaklega ef lambakjötið er grillað.


SJÁ UPPSKRIFT

Sesar salat

Bloggið mitt er búið að vera ansi dautt þennan mánuðinn. Það er nú eiginlega góðs viti (fyrir mig) því það þýðir að það er búið að vera nóg að gera og skemmtilegt að vera til. Ég fór í vikuheimsókn til Íslands og naut mín í fimbulkulda undir norðurljósum og kappklædd íslenskum lopa. Það skemmdi auðvitað ekki fyrir að geta farið aftur í gamla herbergið sitt og fá ljúffengan mat frá pabba og sitja að hvítvínsdrykkju fram á kvöld með múttu. Tíminn leið hratt og áður en ég vissi af var ég komin aftur upp í flugvél á leið vestur um haf. Lestarferðin frá flugvellinum var eiginlega frekar skemmtileg á milli þess sem ég hélt fast utan um allar töskur mínar, dottaði og vonaði að enginn myndi nýta tækifærið og hrifsa af mér allar eigur mínar. Konan við hliðina á mér í virtist samt hafa auga með mér á milli þess sem hún borðaði djúpsteiktan kjúkling og franskar upp úr handtöskunni sinni og þurrkaði sér í gamalt dagblað sem hún fann á lestargólfinu. Ég fékk samt ekki mikla hvíld því strax um morguninn stukkum við upp í rútu til Boston.

Boston var alveg yndisleg. Síðast þegar ég fór þangað (árið 2005) fékk ég svo skelfilega vondan mat (ef hægt er að kalla bragðlausan mat vondan). En, mér til mikillar ánægju, var það ekki tilfellið í þetta sinn. Við hittum mömmu, frænku og ömmu hans Elmars þar og áttum einstaklega skemmtilegar stundir yfir mat og drykk. Við fórum meðal annars á mjög góðan eþíópískan stað (engar myndir samt, því miður) og fengum að borða allskyns rétti með brauði (lesist: með höndunum) og reyndum að skola því niður með dísætu eþíópísku hunangsvíni. Ég held að þetta sé í allra fyrsta sinn sem ég klára ekki vín úr glasinu mínu. Svo fengum við okkur ostaköku á Cheesecake Factory og gæddum okkur á gufusoðnum humar síðasta kvöldið okkar. Ég get því auðveldlega mælt með matarferð til Boston.

En kannski ég fari að útskýra tildrög þessarar færslu. Ég mætti upp á John F. Kennedy flugvöll á leið til Íslands alltof snemma og alveg banhungruð eftir langa og óþægilega ,shuttle’ ferð. Af því tilefni ákvað ég að splæsa í mig einu salati á einni af okurbúllunum á vellinum (hvað er eiginlega málið með að leyfa manni bara að velja á milli McDonalds og einhverjum fáránlega dýrum og fremur mislukkuðum veitingastöðum?!). Ég ákvað að fá mér sesar salatið þeirra og þar sem ég var nú einu sinni svöng þá borgaði ég þó nokkra dollara í viðbót til að fá kjúkling á salatið. Ég átti eiginlega ekki til orð þegar ég fékk heilan romaine kálhaus með þremur risavöxnum brauðtengingum ofan á og grillaðan kjúkling með (a.m.k.) dagsgömlu, eiturþurrkuðu tómatsalsa. Ég gúffaði þetta auðvitað í mig en mér fannst þetta vera ansi langt frá því að vera góð útfærsla. Þannig að ég sór þess eið að ég myndi búa til gott sesar salat þegar ég væri komin aftur heim í eldhúsið mitt.

Ég leitaði vítt og breitt að uppskrift sem mér fannst ég ætti að geta treyst þegar ég mundi að Inga vinkona mín (matargúru með meiru) hafði mælt með uppskrift frá Jamie Oliver. Ég ákvað því að skella mér á hana og fiffaði hana aðeins lítillega til. Það var líka sumt í uppskriftinni sem gekk ekki alveg eins vel upp og Jamie vildi telja mér trú um. Brauðteningarnir urðu eiginlega bara blautir og óspennandi við það að liggja í fitunni af kjúklingnum og beikoninu þannig að ég dreifði þeim á bökunarpappír og skellti þeim aftur inn í ofn og eftir nokkrar mínútur urðu þeir stökkir og fínir. Þetta gæti samt hafa orsakast sökum þess að beikon hérna í Bandaríkjunum er alveg sjúklega feitt, hefði ég notað pancetta (eins og Jamie mælir með) þá hefði botninn á mótinu kannski ekki orðið svona mikill fitupollur. Séu þið (eða þeir sem þið eruð að elda fyrir) eitthvað smeykir við ansjósur þá mæli ég nú bara með að prófa það samt. Þegar ansjósurnar hafa verið marðar og blandaðar saman við créme fraiche, sítrónu og olíu þá hverfur sterka bragðið af þeim og þær gefa dressingunni fyllingu og gott saltbragð. (Sleppið því bara að segja hinum matvöndu frá því).

SJÁ UPPSKRIFT

Ofnsteiktur kjúklingur með sítrónu, kartöflum og beikoni

Það er alveg ótrúlega margt sem hægt er að gera ókeypis, eða að minsta kosti mjög ódýrt, í New York. Eitt af því skemmtilegra er að fara í ferjuna sem siglir á milli Manhattan og Staten Island (ókeypis), kaupa bjór í veitingasölunni (ódýrt), skella sér út á dekk og  verða vitni að fínasta útsýni yfir suðurodd Manhattan og njóta þess að sigla fram hjá Frelsisstyttunni með bauk í annarri og flögupoka í hinni.

Það er orðið hvasst og kalt hjá okkur og þá er alltaf gott að hafa afsökun til að hanga inni í eldhúsi að dedúa við góðan, hægeldaðan kvöldmat. Ég rakst á þessa uppskrift í bók eftir Jamie Oliver og hef bara breytt henni lítillega. Mér finnst mjög gott að nudda smjöri á milli bringukjöts og húðar til að forða því að bringan verði of þurr. Þessi uppskrift er alveg frábær (lofa!). Sítrónubragðið er mjög áberandi í bringukjötinu og beikonið er ó-svo gott með bæði kartöflunum og kjúklingakjötinu. Ég prófaði (í fyrsta sinn) að nota lífrænan hvítlauk sem kemur beint frá bóndabýli rétt fyrir utan borgina og hann var alveg magnaður. Rifin voru mjög stór og í þessum eina lauk voru aðeins fjögur rif. Ef kjúklingurinn ykkar er aðeins minni eða stærri heldur en sá í þessari uppskrift þá er bara gott að miða við að fyrir hvert kíló af kjúklingi þá þarf að elda hann í 40-45 mínútur. Mér fannst eiginlega of mikið magn af kartöflum í réttinum, þannig að ef þið fáið það á tilfinninguna að þetta sé of mikið af kartöflum fyrir ykkar smekk…þá er það líklega rétt. Ég geri mér líka grein fyrir því að myndin hér að neðan er ef til vill ekki sú lystugasta í þessum sarpi en það gerir réttinn ekki verri.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: