Hvítlaukssúpa með tímíani og parmesanosti
Gleðilegt nýtt ár! Við Elmar erum nýkomin aftur í litlu íbúðina okkar eftir langt og gott frí heima á Íslandi. Ég kem reyndar út afvelta af kjöt- og súkkulaðikonfektsáti og býst við að ég borði lítið annað en grænmeti og fisk næstu vikurnar til að rétta mig af. Göturnar hérna úti er þaktar slabbi og pollum enda eru síðustu snjóskaflarnir að bráðna. Þetta er reyndar afar leiðinlegt ástand þar sem maður á erfitt með að labba út í búð án þess að koma heim með blauta og kalda fætur. Elmar hefur þegar fengið vott af flensu og til að aftra því að ég leggist í rúmið (og til að hjálpa bata eiginmannsins) ákvað ég að búa til hvítlaukssúpu. Hvítlaukur á að vera góður fyrir ónæmiskerfið og því ætti þessi súpa að vera mjög holl því það eru hvorki meira né minna en 44 hvítlauksgeirar í henni. Útkoman var líka mjög ljúffeng. Hvítlaukurinn verður mildur og svolítið sætur við eldun (veldur því ekki andremmu) og rjóminn gerir súpuna flauelsmjúka. Bon appetit.
Hvítlaukssúpa með tímíani og parmesanosti
(Frá Epicurious)
26 hvítlauksgeirar, hýðið á
2 msk ólívuolía
25 g smjör
2 meðalstórir laukar, skornir í sneiðar
1 1/2 tsk fersk tímíanlauf, söxuð
18 hvítlauksgeirar, takið hýðið af
700 ml kjúklingasoð
100 ml rjómi
40 g parmesanostur, rifinn
4 sítrónubátar
Aðferð:
Stillið ofninn í 180 gráður. Setjið 26 hvítlauksgeira í lítið eldfast mót, hellið 2 msk af ólívuolíu yfir og kryddið með salti og pipar. Hyljið mótið með álpappír og bakið í ofninum þangað til hvítlaukurinn verður gylltur og mjúkur, ca. 45 mínútur. Leyfið hvítlauknum að kólna. Kremjið hvítlaukgeirana á milli puttana til að kreista laukinn úr hýðinu. Setjið til hliðar.
Bræðið smjörið í stórum potti yfir meðalháum hita. Setjið laukinn og tímíanið í pottinn og eldið þar til laukurinn verður glær, ca. 6 mínútur. Bætið ofnbakaða hvítlauknum saman við og 18 hráum hvítlauksgeirum og eldið í 3 mínútur. Hellið kjúklingasoðinu í pottinn, hyljið og leyfið að krauma þangað til að hvítlaukurinn verður mjög mjúkur, ca. 20 mínútur. Notið töfrasprota eða matvinnsluvél til að mauka súpuna. Bætið við rjóma og hækkið hitann og náið upp hægri suðu. Kryddið með salti og pipar.
Skiptið rifna ostinum í fernt og setjið í fjórar skálar. Hellið súpunni yfir og notið kreistið safann úr sítrónubátunum yfir hverja skál. Berið fram með grænu salati og brauði.
Fyrir 4
Takk fyrir mig!