Skip to content

Chai masala

Ég tek stundum ekkert svo skynsamlegar ákvarðanir í lífinu, svona eins og vera ber. En það eru sumar óneitanlega vitlausar ákvarðanir – meðvitaðar sem og ómeðvitaðar – sem ég virðist endurtaka aftur og aftur og aftur. Eins og að sleppa því að borða morgunmat (sem endar í svimakasti og blóðsykursfalli laust fyrir hádegi) og fá mér nokkur vínglös á fastandi maga (svo mikil vitleysa). En þau reginmistök sem ég geri ár eftir ár er að hætta að klæða mig eftir veðri á vorin. Ég verð svo spennt að ég fer að troða lopapeysum og frakka lengst inn í skáp og dreg í staðinn fram peysur sem blæs auðveldlega í gegnum og léttan jakka. Í einskæru þrjóskukasti held ég út í sólríkt en hrollkalt veðrið alveg ótrúlega illa klædd og leyfi mér að þykjast að  sé komið sumar.

Þetta endar alltaf í því að ég fæ kvefpest og neyðist til að hafa mig hæga upp í sófa undir teppi með tebolla við höndina. Sem er alveg óendanlega leiðinlegt og langt frá því að vera það sem mig langar mest til að gera. Einhvern veginn var miklu ljúfara að vera lasin þegar ég bjó ennþá heima hjá mömmu og pabba og leyfði þeim að stjana við mig. Eitt af því sem mamma gaf mér oft þegar ég var lasin er þetta indverska kryddaða mjólkurte. Og ég er sannfærð um að það sé allra (kvef)meina bót. Þetta er líka mjög einfalt te (þrátt fyrir langan hráefnalista) og er kryddað, mjúkt og róandi. Ég er sannfærð um að þetta te og hvítlaukssúpan sem ég ætla að elda í kvöld muni lækna mig á mettíma.

Chai masala

(Breytt uppskrift frá A Sweet Spoonful)

  • 1 bolli mjólk
  • 1 bolli vatn
  • 6 kardimommubelgir
  • 6 heil svört piparkorn
  • 1/2 tsk fennelfræ (fennikkufræ)
  • 2 kanilstangir
  • 6 sneiðar ferskt engifer
  • 6 negulnaglar
  • 2 tepokar svart te eða 4 tsk telauf – t.d. Ceylon, English Breakfast, Earl Grey
  • Sykur, hunang eða agave

Aðferð:

Setjið vatn og mjólk saman í pott og hitið yfir meðalháum hita.

Bætið kryddinu út í pottinn.

Setjið tepokana út í þegar suðan kemur upp og slökkvið undir pottinum. Leyfið að standa í 2 – 3 mínútur.

Hellið öllu í gegnum síu ofan í einn stóran bolla eða tvo minni bolla.

Setjið sætuefni eftir smekk og drekkið strax.

Prenta uppskrift

4 athugasemdir Post a comment
  1. Inga Þórey #

    Ég hélt þú værir svo naughty Nanna! Ég las fyrstu setninguna í færslunni:
    Ég tek stundum ekkert svo skynsamlegar ákvarðanir í lífinu, svona eins og AÐ vera ber
    …enda hef ég líklega verið farin að giska á ástæður kvefpestarinnar.

    Láttu þér batna mín bera kæra!

    10/04/2012
  2. Mig langar svo mikið í svona í augnablikinu (göngutúrinn með Yuki var ansi kaldur)

    12/04/2012
  3. Salbjörg #

    Er þetta svipað/sama og Chai Latte? Ég smakkaði svoleiðis um daginn í fyrsta sinn og það var bara nokkuð gott. Þarf að prófa þessa uppskrift fljótlega!

    19/04/2012
    • Já, ætli það sé ekki bara nákvæmlega sami drykkurinn. Þeir nota örugglega bara chai telauf og blanda flóaðri mjólk saman við á kaffihúsum. Þetta er alveg ótrúlega gott!

      22/04/2012

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: