Hádegisverður að vori
Eitt það skemmtilegasta við að búa í New York er að uppgötva ný hverfi. Við Elmar fórum í göngutúr í sólríku veðri um daginn og ákváðum að labba í nýja átt. Eftir smá labb framhjá eilítið niðurníddum húsum og vanræktum görðum þá komum við að götu þar sem sjá mátti kaffihús, bari, veitingastaði og litlar fallegar búðir hvert sem við litum. Ég fann blómasala sem seldi mér stóran vönd af gulum blómum á þrjá dali og trítlaði heim með bros á vör. Þessi litla vin í Crown Heights hverfinu býður upp á mjög margt skemmtilegt og við hlökkum til að kanna það frekar í sumar.
Ég er orðin svo afskaplega leið á brauði með osti og sultu. Það er svo auðvelt að detta í einhverja eilífa endurtekningu á hádegismat og undanfarið höfum við gripið alltof oft í brauðpokann. Ég ákvað þess vegna að fara að finna uppskriftir að hollum, fljótlegum og ódýrum lausnum á þessum hádegisvanda. Ég rakst á útgáfu af þessum rétti hjá Joy, varð mjög spennt, pantaði bókina hennar Sophie Dahl af Amazon og hef síðan eldað hann tvisvar í hádeginu handa okkur.
Gleðilega páska!
Aspas og harðsoðin egg með parmesanosti og svörtum pipar
(Breytt uppskrift frá Sophie Dahl: Very Fond of Food)
- 4 egg, stór
- 400 g ferskur aspas, skerið eða slítið harðnaða enda af
- 3 msk jómfrúarolía
- 1 msk ferskur sítrónusafi
- sjávarsalt og ferskmalaður pipar
- parmesanostur, rifinn
Aðferð:
Setjið eggin í pott með vatni og setjið yfir meðaháan hita. Takið pottinn af hitanum þegar suðan kemur upp, setjið lok á pottinn og leyfið eggjunum að eldast í 9 mínútur (ef þú vilt að eggjarauðan sé eilítið lin) eða 12 mínútur (ef þú vilt að eggjarauðan sé vel elduð).
Takið fram annan pott á meðan með söltuðu vatni og náið upp suðu. Setjið aspasinn út í pottinn þegar suðan er komin upp og sjóðið í 3 mínútur. Hrærið jómfrúarolíu og sítrónusafa saman og kryddið með salti og pipar. Takið aspasinn upp úr pottinum með töngum eða hellið vatninu frá og veltið aspasspjótunum upp úr dressingunni.
Takið skurnina af eggjunum og skerið hvert egg í fjóra báta.
Skiptið aspasnum jafnt á milli tveggja diska, raðið eggjabátunum á diskinn, hellið afgangnum af dressingunni yfir, rífið parmesan yfir, sáldrið smá svörtum pipar yfir og berið fram.
Fyrir 2