Skip to content

Posts from the ‘Ódýrt’ Category

Sæt kartöflusúpa með karrí & geitaostsskonsur

Þórdís er tiltölulega nýbyrjuð hjá dagmömmu og er því farin að kynnast alls kyns nýjum veirum og veikindum. Á þeim dögum sem henni líður betur reynum við að nýta fallega haustveðrið í góða göngutúra saman. Við skoðum kisurnar í Vestubænum, löbbum niður að sjó og keyrum rauðu kerruna hennar upp og niður Laugaveginn. Um daginn fórum við á stórskemmtilega barnatónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu þar sem Þórdís fylgdist með undrandi og skeptísk á svipinn.

Í þessu haustlega veðri er mjög viðeigandi að fá sér súpu. Það þarf þó alltaf að ýta svolítið við mér til að fá mig til að elda súpu og í raun er eina skothelda leiðin í þeirri viðreynslu að benda mér á gott brauð sem hægt er að baka eða rista til að hafa með. Það var á köldum degi fyrr í mánuðinum þar sem ég rakst á þessa súpu og þessar skonsur hjá Joy the Baker þegar ég fann mig knúna til að standa yfir mallandi potti.

Súpan er mjög góð – krydduð og seðjandi en kannski eru það geitaostsskonsurnar sem fanga helst athyglina. Þær eru alveg frábærar – mjúkar, volgar og með eilítið stökkri skorpu. Það allra besta við þær er að það tekur örfáar mínutur að búa til deigið og aðeins korter að baka þær inni í ofni.

SJÁ UPPSKRIFT

Pönnusteikt flatbrauð

Elmar kennir í Brooklyn College á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum. Vinnu- og skólavikunni hans lýkur reyndar á fimmtudögum eftir kennslu og því hef ég komið mér upp þeim sið að búa til eitthvað handa okkur í hádeginu þegar hann kemur heim. Þannig hef ég eitthvað gott til að deila með ykkur áður en helgin gengur í garð og við Elmar  getum átt góða og afslappandi stund saman (ef Þórdís leyfir). Tvær flugur í einu höggi.

Í gær bjó ég til þessi einföldu og hollu flatbrauð og bar þau fram með (óhefðbundnu) tzatziki og reyktum laxi. Það tekur enga stund að henda þessu deigi saman, svo er það látið hefast í klukkutíma, skipt niður í parta og steikt á pönnu í örfáar mínútur. Ég þori næstum því að veðja að þið eigið öll hráefnin í það uppi í skáp. Það má bera brauðin fram með ýmsum mat, ídýfum og jafnvel eggja- eða rækjusalati.

SJÁ UPPSKRIFT

Penne með ofnristuðu blómkáli, valhnetum og fetaosti

Eins gaman og mér finnst að stússast í eldhúsinu þá þarf ég að finna einhverjar klókar leiðir til að koma mér þangað þessa dagana. Þegar fer að líða að kvöldmat og við förum að velta fyrir okkur hvað í ósköpunum við eigum að borða þá heyri ég í hjáróma letirödd í hausnum á mér sem langar alveg óskaplega til að komast hjá því að elda. Gallinn er að mig langar samt ekki til að fara út að borða og mig langar sérstaklega ekki til að ná í einhvern sveittan ódýran skyndibitamat (blegh!). Mig langar í góðan og helst hollan heimatilbúinn mat.

Lausn mín hefur verið að finna fyrirhafnarlitla rétti sem ég kann næstum því utanbókar og get framreitt á hálftíma án þess að snúa eldhúsinu á hvolf. En það vill yfirleitt svo til að þegar ég er loksins komin með skurðarbrettið fyrir framan mig og hressa tónlist á fóninn (Of Monsters and Men er í miklu uppáhaldi hjá mér eins og er) að ég fer að finna fyrir eldhúsframtaksgleðinni aftur. Og ég verð að segja að mér fannst sérstaklega skemmtilegt að matreiða þennan tiltekna rétt. Kannski er það af því að ég er að elda eitthvað nýtt í fyrsta skipti í langan tíma en kannski er það líka gleðin við að búa til eitthvað sem er bæði hollt og ljúffengt. Ég meina, ég get ekki endalaust verið að skófla í mig kartöfluflögum og rjómaís.

Kannski hljómar þessi réttur ekkert sérstaklega spennandi svona til að byrja með. Ég rakst á hann hjá Deb á Smitten Kitchen og hefði ekki hugsað tvisvar um hann nema hún lýsti því yfir að þetta væri einn besti hádegismatur sem hún hafði fengið lengi. Og þegar Deb segir að eitthvað sé gott þá er það yfirleitt svo. Þessi réttur er engin undantekning.  Ég var aldrei neitt sérstaklega hrifin af blómkáli fyrr en ég prófaði að rista það á pönnu og núna finnst mér það svo gott þegar það hefur verið matreitt þannig eða fengið að bakast inn í ofni. Sú matreiðsluaðferð laðar fram einhvern hnetukeim í blómkálinu og það mýkist örlítið en helst samt ágætlega stökkt og gefur frá sér ,kröns’ hljóð þegar maður bítur í það. Þessi réttur er mjög seðjandi, hann er einfaldur í matreiðslu og hann er ó-svo-ódýr. Og þar með lýkur tilraun minni til að sannfæra ykkur.

SJÁ UPPSKRIFT

Hádegisverður að vori

Eitt það skemmtilegasta við að búa í New York er að uppgötva ný hverfi. Við Elmar fórum í göngutúr í sólríku veðri um daginn og ákváðum að labba í nýja átt. Eftir smá labb framhjá eilítið niðurníddum húsum og vanræktum görðum þá komum við að götu þar sem sjá mátti kaffihús, bari, veitingastaði og litlar fallegar búðir hvert sem við litum. Ég fann blómasala sem seldi mér stóran vönd af gulum blómum á þrjá dali og trítlaði heim með bros á vör. Þessi litla vin í Crown Heights hverfinu býður upp á mjög margt skemmtilegt og við hlökkum til að kanna það frekar í sumar.

Ég er orðin svo afskaplega leið á brauði með osti og sultu. Það er svo auðvelt að detta í einhverja eilífa endurtekningu á hádegismat og undanfarið höfum við gripið alltof oft í brauðpokann. Ég ákvað þess vegna að fara að finna uppskriftir að hollum, fljótlegum og ódýrum lausnum á þessum hádegisvanda. Ég rakst á útgáfu af þessum rétti hjá Joy, varð mjög spennt, pantaði bókina hennar Sophie Dahl af Amazon og hef síðan eldað hann tvisvar í hádeginu handa okkur.

Gleðilega páska!

SJÁ UPPSKRIFT

Fusilli með kúrbít og smjöri

Vorfiðringurinn er farinn að grafa alvarlega undan hæfileika mínum til að einbeita mér að námi. Íbúðin okkar verður bjartari með hverjum deginum, sólin skín í gegnum gardínurnar og allt ryk – hvert einasta rykkorn – sést greinilega. Ég tók því ómeðvitaða ákvörðun um að loka bókinni minni í gær og fara að þrífa íbúðina hátt og lágt. Sem betur fer er íbúðin mjög lítil og nett og því tók þetta ekki of langan tíma. Ég gat m.a.s. setið í síðdegissólinni með læmónaði og dáðst að afreki dagsins.

Ég vildi óska að ég væri eins stórtæk í eldhúsinu. Einhver eldamennskuleti hefur hellst yfir mig og ég hef hvorki viljað hugsa of mikið um hvað eigi að vera í kvöldmatinn né hvort ég nenni að elda það. Ég leita því í gamalkunna og einfalda rétti á meðan ég reyni að finna nýja í bókum og á netinu. Þessa uppskrift fann ég eiginlega fyrir algjöra slysni og rétturinn er einfaldur, ódýr og ófeimin við smjörmagn. Hann er líka ansi gómsætur. Kúrbíturinn er eldaður þar til hann verður afar mjúkur og kúrbítsbragðið kemur vel í gegn í sósunni sem verður til við eldunina. Ég hef samt aðeins breytt frá upprunalegri uppskrift – ég minnkaði smjörmagnið og bæti í staðinn við einni matskeið af jómfrúarolíu.

SJÁ UPPSKRIFT

Jólagjafahugmynd #7: Súkkulaðihúðaðar saltkringlur

Þá er komið að síðustu jólagjafafærslunni á Eldað í Vesturheimi þetta árið. Þó við séum ekki heima þessi jólin og ætlum bara að vera tvö í litlu Brooklyníbúðinni þá er verkefnalistinn minn orðinn ansi langur og ég hafði vægar áhyggjur að ég myndi ekki geta búið til færslu fyrir ykkur. En þá datt mér þessi snilld í hug. Þetta er einfalt, ódýrt og fljótlegt en samt svo ljúffengt. Salt og súkkulaði passar svo vel saman. Ég veit ekki hvort þetta vandamál háir ykkur en ég get ekki borðað popp án þess að vera með súkkulaði við hendina.

Ég átti poka af litlum saltkringlum en auðvitað er líka prýðilegt að nota gömlu góðu saltstangirnar. Ég notaði blöndu af suðusúkkulaði og 70% súkkulaði en það má auðvitað nota annaðhvort eða mjólkursúkkulaði eða jafnvel hvítt súkkulaði. Brærið súkkulaðið bara yfir vatnsbaði, slökkvið undir pottinum og byrjið svo að dýfa. Leyfið að kólna inn í ísskáp og setjið svo ofan í krukku með fallegum jólaborða. Gæti varla verið einfaldara!

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: