Skip to content

Pönnusteikt flatbrauð

Elmar kennir í Brooklyn College á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum. Vinnu- og skólavikunni hans lýkur reyndar á fimmtudögum eftir kennslu og því hef ég komið mér upp þeim sið að búa til eitthvað handa okkur í hádeginu þegar hann kemur heim. Þannig hef ég eitthvað gott til að deila með ykkur áður en helgin gengur í garð og við Elmar  getum átt góða og afslappandi stund saman (ef Þórdís leyfir). Tvær flugur í einu höggi.

Í gær bjó ég til þessi einföldu og hollu flatbrauð og bar þau fram með (óhefðbundnu) tzatziki og reyktum laxi. Það tekur enga stund að henda þessu deigi saman, svo er það látið hefast í klukkutíma, skipt niður í parta og steikt á pönnu í örfáar mínútur. Ég þori næstum því að veðja að þið eigið öll hráefnin í það uppi í skáp. Það má bera brauðin fram með ýmsum mat, ídýfum og jafnvel eggja- eða rækjusalati.

Pönnusteikt flatbrauð

(Uppskrift frá Joy the Baker)

  • 1/4 + 1/2 bolli volgt vatn
  • 1 pakki (7 grömm, 2.5 tsk) þurrger
  • 1/2 tsk sykur
  • 210 g heilhveiti
  • 2 msk tröllahafrar
  • 1 tsk salt
  • 1/2 tsk pipar
  • 1 tsk ólívuolía

Aðferð:

Blandið saman í lítilli skál: 1/4 bolla volgu vatni, þurrgeri og sykri. Setjið til hliðar í 5 mínútur. Gerblandan á að stækka og freyða, þannig veit maður að gerið er lifandi.

Hrærið saman í meðalstórri skál: heilhveiti, höfrum, salti og pipar.

Búið til holu í miðju hveitiblöndunnar og hellið gerblöndunni ofan í. Bætið 1/2 bolla af volgu vatni saman við. Hrærið deigið saman með gaffli.

Setjið deigið á hveitistráðan flöt og hnoðið nokkrum sinnum til að slétta úr deiginu.

Hellið ólívuolíunni í meðalstóra skál og smyrjið skálina með henni. Setjið deigboltann ofan í og leggið hreint viskustykki yfir.

Setjið til hliðar og leyfið að hefast í 1 klukkustund. Deigið á að tvöfaldast að stærð.

Hellið deiginu úr skálinni yfir á hveitistráðan flöt og hnoðið nokkrum sinnum. Skiptið deiginu í tvennt með hnífi og skiptið hvorum helming í 6 jafnstóra hluta.

Hitið pönnu yfir meðalháum hita (ég notaði steypujárnpönnuna mína en það er líka gott að nota non-stick pönnu).

Fletjið hvern deighluta með kökukefli í ca. 10 sm hring. Setjið deigið á þurra pönnuna og steikið á hvorri hlið í 1 – 2 mínútur, eða þar til deigið brúnast að neðan og blæs svolítið út. Flytjið yfir á disk og leggið hreint viskustykki yfir á meðan þið steikið til að halda brauðinu heitu.

Berið fram með ídýfu, laxi, eggjasalati eða hverju sem ykkur dettur í hug.

Brauðin geymast í allt að 3 daga inni í kæli. Það er gott að hita brauðin á aftur á pönnu.

Prenta uppskrift

One Comment Post a comment

Trackbacks & Pingbacks

  1. Tzatziki | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: