Skip to content

Posts from the ‘Brauð’ Category

Pönnusteikt flatbrauð

Elmar kennir í Brooklyn College á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum. Vinnu- og skólavikunni hans lýkur reyndar á fimmtudögum eftir kennslu og því hef ég komið mér upp þeim sið að búa til eitthvað handa okkur í hádeginu þegar hann kemur heim. Þannig hef ég eitthvað gott til að deila með ykkur áður en helgin gengur í garð og við Elmar  getum átt góða og afslappandi stund saman (ef Þórdís leyfir). Tvær flugur í einu höggi.

Í gær bjó ég til þessi einföldu og hollu flatbrauð og bar þau fram með (óhefðbundnu) tzatziki og reyktum laxi. Það tekur enga stund að henda þessu deigi saman, svo er það látið hefast í klukkutíma, skipt niður í parta og steikt á pönnu í örfáar mínútur. Ég þori næstum því að veðja að þið eigið öll hráefnin í það uppi í skáp. Það má bera brauðin fram með ýmsum mat, ídýfum og jafnvel eggja- eða rækjusalati.

SJÁ UPPSKRIFT

Bruschetta með ofnbökuðu grænmeti

Ég borða yfirleitt ein á kvöldin tvisvar sinnum í viku. Elmar sækir kvöldfyrirlestra reglulega og á þeim dögum þarf ég að finna mér eitthvað að borða. Það er fátt sem mér finnst leiðinlegra heldur en að eldra fyrir mig eina og því enda þessi kvöld oft í því að ég fæ mér popp í kvöldmat og súkkulaði í eftirmat. Það er allt í lagi á meðan því stendur en yfirleitt fer maginn að láta í sér heyra þegar á líður. Ég er því farin að leita leiða til að búa til eitthvað einstaklega einfalt, gómsætt og létt. Og þessi bruschetta er einmitt það sem ég var að leita að.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: