Bruschetta með ofnbökuðu grænmeti
Ég borða yfirleitt ein á kvöldin tvisvar sinnum í viku. Elmar sækir kvöldfyrirlestra reglulega og á þeim dögum þarf ég að finna mér eitthvað að borða. Það er fátt sem mér finnst leiðinlegra heldur en að eldra fyrir mig eina og því enda þessi kvöld oft í því að ég fæ mér popp í kvöldmat og súkkulaði í eftirmat. Það er allt í lagi á meðan því stendur en yfirleitt fer maginn að láta í sér heyra þegar á líður. Ég er því farin að leita leiða til að búa til eitthvað einstaklega einfalt, gómsætt og létt. Og þessi bruschetta er einmitt það sem ég var að leita að.
Bruschetta með ofnbökuðu grænmeti
(Uppskrift frá Jamie Oliver: Jamie’s Italy)
- 1/2 fennikka
- 1/2 gul paprika, fræ sköfuð úr
- 1 rauð paprika, skorin í tvennt og fræ sköfuð úr
- 1/2 zucchini, skorið í helminga og fræin sköfuð úr
- 1 tsk þurrkað oreganó
- 1 handfylli fersk myntulauf, söxuð
- ólívuolía
- sjávarsalt og ferskmalaður svartur pipar
- safi úr 1/2 sítrónu
- 1/2 súrdeigshleifur (eða annað brauð), skorinn í sneiðar
- edik
Aðferð:
Hitið ofninn í 220°C / 425°F.
Skerið fennikku og paprikur í 2 sm stóra bita og skerið zucchini í sneiðar. Veltið grænmetinu upp úr oreganó, myntu og ólívuolíu. Saltið og piprið og flytjið síðan yfir í eldfast mót og bakið í ofninum í ca. hálftíma eða þar til grænmetið hefur skroppið svolítið saman og fennikkan hefur tekið á sig gylltan lit.
Takið úr ofninum og leyfið að kólna og fínsaxið síðan grænmetið. Smakkið og saltið pg piprið eftir smekk, bætið við smá ólívuolíu, sítrónusafa og nokkrum dropum af ediki.
Ristið brauðneiðarnar á pönnu eða í ristavél og smyrjið síðan glóðuðu grænmetinu yfir. Berið fram með góðri jómfrúarolíu og salti.
Mmmm elska bruschettu. Þarf að prófa þessa uppskrift!