Skip to content

Posts from the ‘Ítalskt’ Category

Spagettí með kíkertum, chili og myntu

Fyrir tveimur mánuðum fluttum við frá New York og á þessum mánuðum höfum við búið inni á foreldrum okkar, troðið allri búslóðinni okkar inn á mömmu og pabba og beðið í ofvæni eftir fallegustu íbúð sem ég hef nokkurn tímann búið í. Við höfum verið að koma okkur fyrir, sankað að okkur húsgögnum – ýmist að láni eða úr Góða Hirðinum, – hringt í dagmæður í von og óvon upp á að fá pláss og reynt að gera alla þá praktísku hluti sem nýflutt fólk á að gera. Þrátt fyrir allt annríkið erum við ótrúlega afslöppuð og njótum þess í botn að vera flutt í Vesturbæinn, í íbúð sem er þrefalt stærri en litla músarholan sem við bjuggum í síðustu tvö árin í Brooklyn. Mér finnst við eiginlega vera heppnasta fólk á Íslandi.

Ég hef verið að kynnast eldhúsinu – bakað í ofninum, prófað hellurnar á eldavélinni, notið þess að raða í uppþvottavélina og elskað að geta þvegið þvottinn í eldhúsinu í stað þess að fara klyfjuð á gamla þvottahúsið í Brooklyn þar sem þvotturinn kom alltaf úr þurrkaranum lyktandi af núðlusúpu. Og þó ég sakni margra hluta, staða og fólks í New York þá er gott að vera komin heim.

Elmar gaf mér matreiðslubókina Franny’s í afmælisgjöf í sumar. Franny’s var uppáhaldsmatsölustaðurinn okkar en við borðuðum þar einungis þrisvar sökum hás verðlags. Bókin þeirra er gullfalleg og allar uppskriftirnar eru sjúklega girnilegar. Ég byrjaði á því að elda þennan einfalda en ljómandi góða pastarétt úr bókinni og hef núna gert hann tvisvar. Baunirnar og pastað gera hann mjög seðjandi, steinseljan og myntan peppa hann upp og chiliflögurnar gefa góðan hita. Þórdís elskar þennan rétt og við líka.

SJÁ UPPSKRIFT

Spagettí með risarækjum og klettasalati

Gleðilegt sumar!

Uppáhaldsárstíðin mín er handan við hornið og ég er yfir mig hrifin að sjá að laufin eru farin að þekja trjágreinar og fuglasöngurinn stigmagnast frá degi til dags. Ég tek sérstaklega vel eftir hverri einustu breytingu þessa dagana því að þetta verður síðasta vorið og síðasta sumarið okkar í New York í bili. Við höfum ákveðið að flytja heim til Íslands í sumar, ári á undan áætlun. Við tókum þessa ákvörðun fyrir rúmum mánuði síðan en ég hef ekki mannað mig upp í að skrifa það og birta opinberlega á internetinu. Ástæðurnar eru nokkrar og þó við séum fullviss um að þetta sé rétt ákvörðun þá þykir okkur samt svolítið erfitt að kveðja það líf sem við höfum skapað okkur síðastliðin fjögur ár.

Við kvöddum veturinn og buðum sumarið velkomið með þessum fína pastarétti. Rétturinn er einfaldur í matreiðslu með fáum hráefnum en útkoman er ansi ljúffeng. Ég elda sjaldan risarækjur (ég á erfitt með að sætta mig við umhverfisáhrif eldis þeirra) en stóðst ekki mátið þegar ég las mér til um þennan rétt í Ítalíubók Jamie Olivers. Ég var samt svolítið viðutan í eldhúsinu í þetta skiptið og ofeldaði rækjurnar. Ég mæli því með að lesa uppskriftina vel áður en hafist er handa til að koma í veg fyrir slíkt slys.

SJÁ UPPSKRIFT

Ólívuolíukaka

Undanfarna morgna hef ég labbað út á uppáhaldskaffihúsið mitt, Glass Shop, í þeirri veiku von að fá margrómuðu ólívuolíukökuna þeirra með kaffibollanum mínum. En hún er alltaf búin. Étin upp til agna af árrisulu vinnandi fólki. Þar sem mér er meinilla við fýluferðir þá fæ ég mér eitthvað annað – pain au chocolat, croissant eða smjördeigshorn með eplabitum. Núna ákvað ég samt að taka málin í mínar eigin hendur og baka álíka köku sjálf til að eiga með kaffinu.

Uppskriftin að þessari köku er upprunalega frá Abraço á Manhattan og birtist í einhverju gömlu Bon Appétit-blaði. Ég gróf hana síðan upp á fallega blogginu hennar Alice Gao. Hún er mild, létt og fullkomin með kaffinu. Upprunalega á að nota sítrónubörk í deigið en ég notaði rifinn börk af greipi – ég hugsa að börkur af öðrum sítrusávöxtum muni líka passa vel. Þetta er mögulega einfaldasta kaka sem ég hef bakað og mig grunar að hún eigi eftir að vera bökuð margoft í framtíðinni þegar von er á góðum gestum í kaffi.

SJÁ UPPSKRIFT

Negroni

Eftir nokkur kvöld af smakki og sötri hef ég tekið Negroni í sátt. Þetta er svolítið krefjandi drykkur – bitur, margslunginn og skarpur, en mér finnst hann fullkominn eftir stóra máltíð til að fríska upp á bragðlaukana. Fyrir þau okkar sem eru ekki óð í Campari þá rennur hann kannski ekki mjög ljúflega niður fyrst en eitthvað við hann hvetur mann til að taka annan sopa. Það er reyndar sökum einskærrar þrjósku í mér að ég vildi læra að drekka og meta þennan ítalska drykk og ég verð að segja að þetta gæti verið uppáhaldsdrykkurinn minn núna.

Venjulega er hann blandaður í jöfnum hlutföllum – einn partur gin, einn partur Campari og einn partur sætur vermút – en ég hef komist að því að mér finnst hann bestur með aðeins meira af vermút og drukkinn ískaldur. Sumir drekka hann með prosecco (ítölsku freyðivíni) í staðinn fyrir gin eða setja bourbon í staðinn fyrir gin fyrir haustlegri drykk. Nú væri bara gaman að hafa aðgang að svölum og hlýju veðri til að fullkomna hughrifin. Ég set hefðbundnu uppskriftina inn hér að neðan en hvet ykkur til að smakka ykkur áfram og finna þau hlutföll sem henta ykkur.

Tónlist með: My baby just cares for me – Nine Simone

SJÁ UPPSKRIFT

Torta di Pere [Perukaka með dökku súkkulaði]

Ég er greinilega sólgin í ítalskan mat þessa dagana. Í þessari viku hef ég borðað pasta, lasagna, heimalagaða pítsu og ó-svo-margar sneiðar af þessari ljúffengu köku. Ég hef líka verið að sötra ítalska drykkinn Negroni – blanda af gini, sætum vermút og Campari – einstaka kvöld eftir að hafa svæft Þórdísi. Þetta er í fyrsta skipti sem ég reyni að drekka Negroni en ég hef alltaf fúlsað við Campari. Líklega sökum þess að ég stalst einhvern tímann sem unglingur til að taka gúlsopa úr flösku sem foreldrar mínir áttu og fannst það ó-geð-slegt. Ég er enn ekki búin að ákveða hvort mér finnist drykkurinn góður eða bara hræðilega vondur. Þessi kaka hinsvegar er ekkert annað en ljómandi góð.

Inga Þórey vinkona mín hefur oft og mörgum sinnum hvatt mig til að baka þessa köku og þar sem Inga hefur aldrei leitt mig í ranga matarátt þá er í raun skammarlegt hversu lengi ég hef beðið með að baka hana. Kakan inniheldur fá hráefni og það þarf aðeins að nostra við þau. Útkoman er ein albesta kaka sem ég hef bakað. Loftið í þeyttu eggjunum og heil matskeið af lyftidufti gerir það að verkum að kakan er létt í sér og lyftir sér yfir perurnar og súkkulaðið þannig að þau sökkva ekki öll til botns. Ef þið hafið aldrei brúnað smjör áður þá má finna góðar leiðbeiningar hjá Lillie (hún notar reyndar pönnu við að brúna smjör en ég nota alltaf pott). Uppskriftin kemur frá einum af rótgrónustu veitingastöðunum í Brooklyn,  Al di là.

SJÁ UPPSKRIFT

Pasta með ,butternut’graskeri og salvíu

Mér finnst alltaf gaman að prófa nýja pastarétti. Ég er orðin mjög hrifin af þeim réttum sem krefjast fárra hráefna og eru því ódýrir en matarmiklir og einfaldir í framkvæmd. Ég keypti stórt butternut grasker um daginn og eldaði þennan pastarétt úr febrúarheftri Bon Appétit. Afganginn af graskerinu nýtti ég svo í hálfa uppskrift af þessari súpu. Pastað og súpan var nægur matur fyrir okkur í fjóra daga og ég klappaði sjálfri mér á bakið fyrir hagsýnina (það fer ekki alltaf mikið fyrir henni hjá mér þegar kemur að mat).

Við vorum hrifin af þessu pasta með slatta af rifnum parmesanosti, nýmöluðum svörtum pipar og örlitlu sjávarsalti stráð yfir. Upprunalega uppskriftin notar pastategundina fiorentini, ég notaði campanelle en þar sem ég held að úrval á pastategundum sé takmarkað á Íslandi þá er sniðugast að nota skrúfur í staðinn þannig að rifna graskerið loði vel við pastað.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: