Skip to content

Radísusalat með sætri basilíku og parmesanosti

Í gær kom meindýraeyðirinn aftur og skoðaði íbúðina okkar. Hann staðfesti að engin ummerki væru um mýs og hrósaði okkur í hástert fyrir hversu þrifaleg íbúðin er (svona á meðan hann stóð inni í eldhúsi í grútskítugum skóm – siður sem ég get engan veginn vanist). Ég svaf eins og steinn í fyrsta skipti í margar vikur og vaknaði endurnærð. Það er loksins farið að hægjast aðeins á hjá okkur og við erum smám saman að detta í sumargírinn. Elmar hefur lokið kennslu, hefur varið tillöguna að doktorsverkefninu sínu og öllum námskeiðum er lokið. Hann hefur því hertekið eldhúsið og er farinn að elda kvöldmat öll kvöld. Ég veit ekki alveg hvenær ég endurheimti yfirráð mín í eldhúsinu. En ég ætla ekki að kvarta (mikið) því Elmar er frábær kokkur.

Markaðurinn er yfirfullur af nýuppteknum radísum. Stórt knippi af þeim kostar bara tvo dollara og því er tilvalið að kippa með sér vendi um hverja helgi. Ég er mjög hrifin af þeim og sneiði þær oft þunnt og set þær á nýbakað brauð með smjöri og grófu sjávarsalti. En það er líka tilvalið að nota þær í salat. Ég fékk uppskriftina að þessu salati í bókinni A girl and her pig eftir April Bloomfield, eiganda The Spotted Pig (veitingastaður í West Village sem mig langar mjög mikið til að prófa). Bloomfield er bresk að uppruna og slysaðist inn í matreiðsluheiminn þegar hún missti af inntökuprófi í lögregluskóla. Hún er mjög mikill töffari og á núna þrjá vinsæla veitingastaði í borginni. Radísusalatið er einfalt, fljótlegt og (fyrir okkur) mjög ódýrt. Ég er sérstaklega hrifin af því og ætla að hafa það reglulega í matinn á meðan radísurnar prýða markaðinn.

Radísusalat með sætri basilíku og parmesanosti

(Uppskrift frá April Bloomfield: A girl and her pig)

  • 500 g radísur (ca. 25 stykki), skornar í munnbita og kældar
  • lítið hnefafylli af basilíkulaufum
  • gróf sjávarsalt, t.d. Saltverk eða Maldon
  • 70 g parmesanostur, skorinn í þunnar sneiðar (ég nota skrælarann minn til að skera ostinn)
  • 2 msk ferskur sítrónusafi
  • 3 msk ólívuolía
  • 2 lítil hnefafylli radísukál eða klettasalat

Aðferð:

Setjið radísurnar, basilíkuna og sjávarsaltið í skál. Nuddið allt rösklega saman í ca. 30 sekúndur – þetta leysir basilíkuolíuna úr læðingi og gefur salatinu meira bragð.

Setjið ostinn út í og nuddið allt saman með puttunum þar til osturinn er farinn að þekja radísurnar og sumir ostabitarnir eru orðnir grófkorna.

Bætið sítrónusafanum og ólívuolíunni saman við og veltið öllu saman. Smakkið til og bætið við sítrónusafa eða salti eftir smekk.

Bætið radísukálinu/klettasalatinu lsaman við og veltið öllu saman.

Berið strax fram.

One Comment Post a comment
  1. Vá hvað þetta lítur vel út! Ég finn næstum bragðið þegar ég sé myndirnar :)

    30/05/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: