Skip to content

Cappuccino smákökur með súkkulaðibitum

Þið verðið að afsaka þessar endalausu blómamyndir en ég er orðin alveg hugfangin af allri vordýrðinni í hverfinu okkar. Við Elmar fórum í langan göngutúr í góðviðrinu um daginn, fundum æðislegan bístró-bar í Cobble Hill hverfinu þar sem við fengum okkur drykk og snarl, og ég reyndi á þolinmæði eiginmannsins með því að stoppa við hvert einasta blómstrandi tré til að taka myndir. Ég var nálægt því að tilkynna að sumarið væri komið, pakka niður lopapeysum og frökkum og stinga treflum innst inn í fataskápinn okkar. En þessi óvænta marshitabylgja virðist liðin undir lok og framundan er rigning og kaldara veður. Sumarið bíður betri tíma.

Ég er að berjast við eitthvert súkkulaðikexæði þessa dagana. Þetta hefur valdið því að á einhvern undraverðan hátt laumast Chips Ahoy pakki ofan í innkaupakörfuna okkar í hvert skipti sem við förum út í búð. Chips Ahoy er nefnilega alveg ágætlega gott svo lengi sem maður sleppir því að lesa innihaldslýsinguna (ég skil ekki helminginn af því sem er í kexinu eða af hverju það þarf að vera í því). Ég ákvað í stað þess að berjast við kexpúkann í mér að búa mér til heimabakaðar súkkulaðibitakökur úr gæðahráefni með kaffibragði.

Þetta er stór uppskrift. Ég bakaði ca. 40 stórar smákökur úr deiginu. En ég er ekki að gefa í skyn að það sé slæmur hlutur (alls ekki), það er í raun kjörið tækifæri til að gleðja fólkið í kringum ykkur með smákökugjöfum. Því þessar smákökur eru alveg frábærar. Þær eru stökkar á endunum en mjúkar að innan með ríku kaffibragði, smá karamellubragði og miklu magni af súkkulaðibitum. Ég veit að ég ætti að deila þeim með öðrum en mig grunar að þær fari aðallega ofan í magann minn.

Cappuccino smákökur með súkkulaðibitum

(Uppskrift frá Joy the Baker – með smá breytingum)
 • 280 g hveiti
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 3 msk ,instant’ kaffi-/espressóduft
 • 230 g smjör, við stofuhita
 • 150 g púðursykur
 • 165 g sykur
 • 1 egg
 • 1 eggjarauða
 • 2 tsk vanilludropar
 • 200 g súkkulaði (hvítt, mjólkur eða dökkt), gróft saxað

Aðferð:

Sigtið saman hveiti, matarsóda, salt og esspressóduft í meðalstóra skál. Hrærið saman.

Þeytið saman smjöri, púðursykri og sykri í hrærivél þar til blandan er loftkennd og mjúk, ca. 3 – 5 mínútur. Bætið við eggi, eggjarauðu og vanilludropum og þeytið saman á meðalhraða í 1 til 2 mínútur. Stöðvið hrærivélina og bætið öllum þurrefnum saman við smjörblönduna. Þeytið á hægt saman þar til hveitið hefur rétt svo náð að blandast við smjörblönduna.

Takið skálina frá hrærivélinni og blandið súkkulaðibitunum vel saman við. Hyljið með plastfilmu og geymið deigið í kæli í 45 mínútur eða yfir nótt.

Hitið ofninn í 180 C/350 F.

Búið til kúlu úr rúmri matskeið af deigi og leggið á ofnplötu með bökunarpappír. Bakið í ca. 12 mínútur eða þar til kökurnar verða gylltar á endunum. Takið úr ofninum og leyfið að kólna á ofnplötunni í 10 mínútur. Flytjið yfir á grind og leyfið að kólna alveg.

Geymið í loftþéttum umbúðum.

Prenta uppskrift

5 athugasemdir Post a comment
 1. Elfa #

  Ég ætla að prófa þessa, kaffi og súkkulaði í sömu uppskift hljómar vel.
  Er búin að panta bókina Joy the baker á Amazon, hlakka til að fá hana !
  Bestu kveðju til ykkar
  Elfa

  27/03/2012
 2. Kristín #

  Ég ætla að prófa þessar á eftir. Ég elska kökur og krem með kaffi í. Mér finnst t.d. smjörkrem ekki vera almennilegt fyrren ég hef blandað sterku kaffi í það.

  Þegar þú segir að baka við 180, ertu þá að meina á blæstri eða ekki?
  Ég baka nefnilega flest á 175 blæstri af því ég hef aldrei átt heima á stað með ofni sem bakar jafnt á undir og yfirhita, það eru alltaf einhverjir hita og kuldablettir.

  31/03/2012
  • Frábært!

   Ofninn sem ég nota hérna úti er ekki blástursofn þannig að allar ofnhitatölur eru miðaðar við það. Ég er reyndar með svona misheitan ofn og hef oft snúið plötunni þegar helmingur af baksturstíma er liðinn.

   31/03/2012
 3. Anna Kr. #

  Kærar þakkir fyrir frábæra uppskrift;0) Hef bakað í nokkra áratugi og er búin að pikka upp fjöldan allan af góðum ráðum hjá þér því uppskriftirnar eru svo vel uppsettar og útskýrðar. Veit ekki hvað ég er búin að baka þessa oft síðan ég rakst á hana á síðunni þinn, með allskonar útfærslum… karmellukurl, lakkrískurl, sleppa kaffi og setja kakó í staðinn…bara endalausir möguleikar Tær snilld:-)

  20/10/2012
  • Frábært! Það er virkilega skemmtilegt að heyra :) Þetta er einmitt ein uppáhaldssmákökuuppskriftin mín.

   20/10/2012

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: