Skip to content

Hunangskjúklingur með lofnarblómum og sítrónu

Ég er lengi búin að vera vandræðalega skotin í Rachel Khoo, þáttastjórnanda The Little Paris Kitchen. Hún útskrifaðist frá hinum virta listaháskóla, Central Saint Martin í London, og eftir nokkur ár í tískubransanum lét hún gamlan draum rætast. Hún fluttist til Parísar, gerðist au pair og innritaði sig í Le Cordon Bleu matreiðsluskólann. Ég hrífst af sögum þar sem fólk skiptir algjörlega um starfsvettvang. Kannski vegna þess að ég er í doktorsnámi í fagi sem ég elska (heimspeki) en veit ekki hvort ég geti hugsað mér að vinna við það í framtíðinni. Allt nám er þó gott veganesti og ég er sannfærð um að heimspekin sé jafnvel besta veganestið.

Talandi um nesti. Þetta er fyrsta uppskriftin sem ég prófaði úr nýju matreiðslubókinni hennar Khoo. Ég á fullt af þurrkuðum lofnarblómum (lavender) upp í skáp en ég hafði keypt risapoka þegar ég bjó til kornasápu um árið. Ég var hálfefins á meðan kjúklingurinn eldaðist því mér fannst blómalyktin svo sterk. En kjúklingurinn var dásamlegur! Hunangið gerði það að verkum að ysta lag kjúklingsins varð dökkt og stökkt og lofnarblómsbragðið var milt og ljúft. Þetta er einfaldur en öðruvísi kjúklingaréttur.

Hunangskjúklingur með lofnarblómum og sítrónu

(Uppskrift frá Rachel Khoo: The Little Paris Kitchen)

  • 1 heill kjúlingur skorinn í 6 – 8 bita (eða 1.5 kg læri og leggir)
  • 2 msk þurrkuð lofnarblóm (lavender)
  • 4 msk ólívuolía
  • 4 msk hunang
  • 2 timjanstilkar (ég notaði 5)
  • 1 sítróna – börkurinn rifinn og safinn kreistur úr
  • salt

Aðferð:

Búið til marineringu fyrir kjúklinginn: Merjið lofnarblómin í mortéli. Takið fram stóra skál og setjið lofnarblómin út í ásamt ólívuolíunni, hunanginu, timjaninu og sítrónunni – börkur og safi. Blandið vel saman. Setjið kjúklinginn út í skálina og veltið upp úr marineringunni. Setjið plastfilmu yfir og leyfið að standa í a.m.k. 1 klukkustund (ég setti kjúklinginn inn í ísskáp og leyfið að marinerast í 1 dag).

Hitið ofninn í 200°C/400°F. Setjið kjúklinginn og marineringuna í eldfast mót og sáldrið salti yfir. Eldið í 40 til 45 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Flytjið kjúklinginn yfir á fat og hellið safanum úr mótinu yfir (eða setjið í sósuskál og berið fram). Berið fram með salati eða kartöflum.

Fyrir 4

Prenta uppskrift

2 athugasemdir Post a comment
  1. Rachel Khoo er dásamleg!

    28/05/2013
  2. Ohh Rachel Khoo er líka í miklu uppáhaldi hjá mér.. Þessi kjúklingur lítur líka alveg dásamlega girnilega út! :)

    28/05/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: