Skip to content

Posts from the ‘Ofnréttur’ Category

Hunangskjúklingur með lofnarblómum og sítrónu

Ég er lengi búin að vera vandræðalega skotin í Rachel Khoo, þáttastjórnanda The Little Paris Kitchen. Hún útskrifaðist frá hinum virta listaháskóla, Central Saint Martin í London, og eftir nokkur ár í tískubransanum lét hún gamlan draum rætast. Hún fluttist til Parísar, gerðist au pair og innritaði sig í Le Cordon Bleu matreiðsluskólann. Ég hrífst af sögum þar sem fólk skiptir algjörlega um starfsvettvang. Kannski vegna þess að ég er í doktorsnámi í fagi sem ég elska (heimspeki) en veit ekki hvort ég geti hugsað mér að vinna við það í framtíðinni. Allt nám er þó gott veganesti og ég er sannfærð um að heimspekin sé jafnvel besta veganestið.

Talandi um nesti. Þetta er fyrsta uppskriftin sem ég prófaði úr nýju matreiðslubókinni hennar Khoo. Ég á fullt af þurrkuðum lofnarblómum (lavender) upp í skáp en ég hafði keypt risapoka þegar ég bjó til kornasápu um árið. Ég var hálfefins á meðan kjúklingurinn eldaðist því mér fannst blómalyktin svo sterk. En kjúklingurinn var dásamlegur! Hunangið gerði það að verkum að ysta lag kjúklingsins varð dökkt og stökkt og lofnarblómsbragðið var milt og ljúft. Þetta er einfaldur en öðruvísi kjúklingaréttur.

SJÁ UPPSKRIFT

Kjúklingur með kardemommuhrísgrjónum og ferskum kryddjurtum

Vetrarstormurinn Nemó (er hægt að taka storm með því nafni alvarlega?) fikrar sig upp austurströndina og við megum eiga von á ofankomu, slyddu, roki og öllu mögulegu um helgina. Mér er ekki skemmt. Það góða við svona veður er hvað það er einstaklega notalegt að húka heima, búa til eitthvað hægeldað eða jafnvel baka skonsur.

Ég er búin að elda þennan rétt þrisvar sinnum núna. Hann er úr nýju uppáldsbókinni minni, Jerusalem, sem ég get ekki hætt að skoða og elda upp úr. Í fyrsta skiptið sem ég eldaði hann fór allt úrskeiðis. Svona næstum því. Ottolenghi segir manni að elda réttinn í lokaðri pönnu yfir lágum hita á eldavélinni. Eftir tilgreindan tíma var kjúklingurinn þó ennþá hrár en hrísgrjónin voru elduð í gegn. Eftir tæpan klukkutíma í viðbót var kjúklingurinn eldaður í gegn en hrísgrjónin voru ofelduð og klesst. Við vissum þó að rétturinn yrði góður gætum við bara eldað hann rétt.

Ég ákvað því að taka fram trygga steypujárnpottinn minn (sem hefur aldrei brugðist mér) og elda réttinn inni í ofni frekar en á eldavélinni. Það var með betri hugmyndum sem ég hef fengið. Kjúklingurinn var alveg rétt eldaður, hrísgrjónin bragðmikil og með örlitlu biti og kryddin gáfu réttinum skemmtilegt og ríkt miðausturlenskt bragð. Þetta er frábær vetrarmatur – seðjandi, kryddaður og heitur. Ég mæli með því að bera hann fram með smá grískri jógurt með ólívuolíu og jafnvel einhverju góðu brauði.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskir kjúklingaleggir + asískt hrásalat með mangói og myntu

Ég er, svona almennt séð, frekar viðutan manneskja en undanfarið hefur jarðtenging mín fjarlægst um nokkur ljósár. Stundum ranka ég við mér inni á baði og hef ekki hugmynd um af hverju í ósköpunum ég fór þangað inn, ég les efni fyrir doktorsritgerðina mína og fatta klukkutíma seinna að ég hef ekki meðtekið eitt einasta orð og um daginn labbaði ég út að ruslatunnu og fattaði ekki að ég hafði gleymt að taka ruslapokann með mér út fyrr en ég opnaði lokið. Við Elmar áttum þriggja ára brúðkaupsafmæli á mánudaginn og höfðum ákveðið, með ágætum fyrirvara, að prófa loksins einn eftirsóttasta matsölustaðinn í hverfinu. Ég hlakkaði mikið til, skoðaði matseðilinn á netinu og var búin að ákveða allt það góðgæti sem ég ætlaði að smakka.

Svo rann mánudagurinn upp og um miðjan dag fattaði ég að ég hafði keypt kjúkling daginn áður, búið til marineringu og ætlað að elda hann um kvöldið. Sama kvöld og við ætluðum út að borða! Ég þurfti að tilkynna manninum mínum að í staðinn fyrir að fara fínt og skemmtilegt út að borða þá yrðum við að borða tælenskan kjúkling og hrásalat. Ég var á þvílíkum bömmer. Það er, þangað til að við smökkuðum kjúklinginn og salatið. Því þessi kjúklingur var svo góður og hrásalatið svo ferskt og fallega litað með brakandi kasjúhnetum að ég hreinlega gat ekki fengið nóg. Ég læddist m.a.s. inn í eldhús rétt fyrir svefninn og skóflaði afgöngunum í mig í miklu græðgiskasti.

SJÁ UPPSKRIFT

Haustleg kjúklingakássa með sveppum í síder

Fyrir nokkrum mánuðum keypti ég mér þungan steypujárnspott sem þolir bæði eldavélina og ofninn. Ég er komin með algjört æði fyrir pottréttum sem byrja á steikingu á eldavélinni og fara svo inn í ofn í örfáa klukkutíma. Kjötréttir sem eldaðir eru þannig skila unaðslega meyru kjöti og rótargrænmetið sem fær að malla með verður mjúkt og bragðmikið. Og þó að það taki langan tíma að elda þessa rétti þá krefjast þeir lítillar fyrirhafnar. Þeir passa vel við þetta kalda veður og veita manni hlýja vellíðunartilfinningu.

Við erum einstaklega ánægð með hvernig rættist úr þessum rétti. Ég keypti heilan kjúkling hjá slátraranum og fékk leiðbeiningar um hvernig best væri að búta hann niður. Mér fannst sérstaklega skemmtilegt að skera kjúklinginn niður sjálf og yfirleitt er hægt að spara sér ágætis pening með því að gera það sjálf frekar en að kaupa kjúklingabita í bakka. Kjötið varð svo meyrt í þessum rétti að það rann af beinunum, rjómasósan var alls ekki of þung og við mælum með því að bera réttinn fram með smjörsteiktum kartöflum.

SJÁ UPPSKRIFT

Gulróta- og lárperusalat


Ég er búin að setja mér markmið. Ég ætla að halda þessum kryddjurtum á lífi í a.m.k. tvo mánuði. Ég er undirbúin. Jurtirnar eru komnar í leirpotta, í nýja mold og hafa fengið vænan skammt af áburði. Ég keypti harðgerar jurtir sem þurfa ekki vatn á hverjum degi og þurfa ekki 16 klukkustundir af birtu á dag. Ef þær deyja, þá gæti ég endað snöktandi úti í horni. Þetta verða gæludýrin mín næstu vikurnar og lifandi skulu þær vera fyrir jól! En ef þið lumið á einhverjum sniðugum ráðum varðandi svona ræktun þá megið þið endilega deila þeim með mér í athugasemdakerfinu. Ég er nefnilega lítið gefin fyrir að bugast og snökta. Dagsljósið er farið að hverfa úr íbúðinni ansi snemma þessa dagana og ég á eftir að sakna þess að taka myndir í náttúrulegri birtu í gluggakistunni okkar. Ég tók fyrst eftir þessu í dag þegar ég ætlaði að labba með afrakstur kvöldeldamennskunnar út í glugga og uppgötvaði að niðadimmt var orðið úti. Ég hafði búið til þennan stórgóða, einfalda, holla og ódýra rétt í kvöldmatinn. Gulræturnar keypti ég á grænmetismarkaðinum um helgina beint frá uppáhaldsbóndanum mínum og ég er svo ánægð með hversu vel þær fengu að njóta sín í þessu salati. Lárperurnar og sítrónusafinn voru ferskt mótvægi við sætuna sem ofnbaksturinn dró fram í gulrótunum og rétturinn var ótrúlega saðsamur. Það er gott að bera réttinn fram með smá sjávarsalti svo að hver og einn geti kryddað eftir sínum eigin smekk, ég vildi hafa frekar mikð salt á gulrótunum mínum.

SJÁ UPPSKRIFT

Heimalöguð pítsa

Við erum komin heim til Íslands í stutt stopp áður en við höldum út í hitann, svitann og íbúðarleitarstressið í New York. Ágústmánuður getur verið þrúgandi í borginni, hitinn er mikill og loftrakinn gerir það að verkum að líkaminn nær ekki að kæla sig sem skyldi. Ég er bæði spennt og afskapleg smeyk við að fara út að leita að íbúð þar sem ég fór næstum því að gráta eitt kvöldið í lestinni þegar við vorum í slíkum tilfæringum síðast. Það er nefnilega enginn skortur á ógeðslegum íbúðum á Manhattan á uppsprengdu verði. Enda erum við staðráðin í að fara yfir East River og setjast að í Brooklyn.

En áður en við förum út þá verðum við á Íslandi í tæpar tvær vikur, bæði norður í Eyjafirði og í höfuðborginni. Ég er einstaklega sátt við að vera komin úr matvörukrísunni í Björgvin og í þéttpakkaðan ísskáp foreldra minna. Við ákváðum að búa til heimalagaðar pítsur í gærkvöldi og fórum beint í að skera niður álegg, hnoða saman deig og sjóða sósu.

Við Elmar höfum verið ansi iðin við að búa til pítsur heima í New York enda eru þær mun betri en þær pítsur sem keyptar eru frá sveittum alþjóðaveitingakeðjum og ég held að við þurfum ekki einu sinni að bera þær saman við djúpfrystar pítsur. Deigið okkar þarf ekki að lyfta sér og má baka strax í heitum ofni til að gera stökkan og þunnan pítsubotn. Hér að neðan er líka uppskrift að uppáhaldspítsusósu okkar og ég gef nokkrar tillögur að ljúffengum áleggsblöndum.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: