Hunangskjúklingur með lofnarblómum og sítrónu
Ég er lengi búin að vera vandræðalega skotin í Rachel Khoo, þáttastjórnanda The Little Paris Kitchen. Hún útskrifaðist frá hinum virta listaháskóla, Central Saint Martin í London, og eftir nokkur ár í tískubransanum lét hún gamlan draum rætast. Hún fluttist til Parísar, gerðist au pair og innritaði sig í Le Cordon Bleu matreiðsluskólann. Ég hrífst af sögum þar sem fólk skiptir algjörlega um starfsvettvang. Kannski vegna þess að ég er í doktorsnámi í fagi sem ég elska (heimspeki) en veit ekki hvort ég geti hugsað mér að vinna við það í framtíðinni. Allt nám er þó gott veganesti og ég er sannfærð um að heimspekin sé jafnvel besta veganestið.
Talandi um nesti. Þetta er fyrsta uppskriftin sem ég prófaði úr nýju matreiðslubókinni hennar Khoo. Ég á fullt af þurrkuðum lofnarblómum (lavender) upp í skáp en ég hafði keypt risapoka þegar ég bjó til kornasápu um árið. Ég var hálfefins á meðan kjúklingurinn eldaðist því mér fannst blómalyktin svo sterk. En kjúklingurinn var dásamlegur! Hunangið gerði það að verkum að ysta lag kjúklingsins varð dökkt og stökkt og lofnarblómsbragðið var milt og ljúft. Þetta er einfaldur en öðruvísi kjúklingaréttur.