Skip to content

Posts from the ‘Ofnréttur’ Category

Kjötbaka með Guinness

Dagur heilags Patreks nálgast óðum.  Við Elmar, eins og margir vinir okkar, erum ákafir aðdáendur Guinness og því fannst mér tilvalið að setja inn nokkrar (já það koma fleiri!) uppskriftir sem innihalda þennan unaðslega drykk. Við byrjum Guinnessþemað á kjötböku með Guinness, borin fram með baunum í einkennislit Patta gamla:

Ég var svo spennt fyrir því að elda þennan rétt að ég vaknaði eldsnemma í morgun og byrjaði að elda áður en ég þurfti að mæta í vinnuna. Ég vissi að ef ég byrjaði að elda þegar ég kæmi þreytt heim úr vinnunni þá yrði ekki matur á boðstólum fyrr en undir  miðnætti þar sem kássan þarf rúma tvo tíma inni í ofni. Ég hitaði svo bara kássuna upp í ofninum þegar ég kom heim, drakk eitt rauðvínsglas, fiktaði í ofninum, brenndi á mér puttana og fór svo að fletja deigið. Elmar vildi samt meina að ég hlyti nú að vera orðin svolítið meira en manísk fyrst ég væri farin að vakna fyrir allar aldir með matreiðslufiðring í fingurgómunum. En útkoman var svo frábær að manían hlýtur að vera kærkomin. Þetta er ekta vetrarmatur, bragðmikil kjötkássa í fíngerðu deigi með smjörsteiktum grænum baunum. Við mælum með þessu!

SJÁ UPPSKRIFT

Ofnbakað rigatoni með eggaldini og furuhnetum

Við erum búin að taka sameiginlega ákvörðun um að við ætlum að hunsa hina amerísku Valentínusardagshefð. Elmar gerði reyndar tilraun til að taka þátt í súkkulaðigjafaæðinu í fyrra og gaf mér (ahemm) Twix. Mér fannst það reyndar alveg fínt því  af einhverjum ,óskiljanlegum’ ástæðum var ég sjúk í þetta súkkulaði á þessum tíma og það gerði kvöldvaktina í litlu hryllingsbókabúðinni mun betri fyrir vikið.

En áður en þið haldið að ég hafi blátt áfram hafnað degi sem býður upp á súkkulaði, blóm og kósýheit, þá var hluti af samkomulaginu að við héldum bónda- og konudag heilagan.  Reyndar bakaði ég bara möffins á bóndadaginn og bjóst því ekki við miklu húllumhæi á konudaginn. En sumir eru heppnari en aðrir og ég er ótrúlega heppin. Ég fékk þesssa fallegu túlípana og nýjasta Bon Appetit sem er troðfullt af uppskriftum af bökuðu pasta – nýjustu ástríðu minni í eldhúsinu.

Það er eitthvað við ofnbakað pasta á veturna. Það er auðvelt að matreiða það, það er sjóðandi heitt og (ef þið eruð eins og ég) troðfullt af osti sem teygist endalaust þegar maður lyftir bita upp úr mótinu. Mér finnst þetta líka skemmtileg tilbreytinging frá lasagna sem krefst þess að maður raði hráefninu í snyrtilegar hæðir í réttri röð því þessu má bara gluða beint í eldfast mót, sulla smá osti og pestói yfir og voilá.

Þessi réttur er mjög góður. Grænmetið ristast í ofninum og verður mjúkt en bragðmikið og basilíkan gefur ferskt og upplífgandi bragð. Ég var reyndar að blaðra svo mikið þegar ég útbjó réttinn að ég steingleymdi að setja tómatana með grænmetinu inn í ofninn og seinkaði því matnum um hálftíma því ég var handviss um að þeir máttu ekki missa sín. Matarskammturinn er mjög stór og ég sé fram á að við munum úða þessu í okkur alla helgina.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: