Skip to content

Ofnbakað rigatoni með eggaldini og furuhnetum

Við erum búin að taka sameiginlega ákvörðun um að við ætlum að hunsa hina amerísku Valentínusardagshefð. Elmar gerði reyndar tilraun til að taka þátt í súkkulaðigjafaæðinu í fyrra og gaf mér (ahemm) Twix. Mér fannst það reyndar alveg fínt því  af einhverjum ,óskiljanlegum’ ástæðum var ég sjúk í þetta súkkulaði á þessum tíma og það gerði kvöldvaktina í litlu hryllingsbókabúðinni mun betri fyrir vikið.

En áður en þið haldið að ég hafi blátt áfram hafnað degi sem býður upp á súkkulaði, blóm og kósýheit, þá var hluti af samkomulaginu að við héldum bónda- og konudag heilagan.  Reyndar bakaði ég bara möffins á bóndadaginn og bjóst því ekki við miklu húllumhæi á konudaginn. En sumir eru heppnari en aðrir og ég er ótrúlega heppin. Ég fékk þesssa fallegu túlípana og nýjasta Bon Appetit sem er troðfullt af uppskriftum af bökuðu pasta – nýjustu ástríðu minni í eldhúsinu.

Það er eitthvað við ofnbakað pasta á veturna. Það er auðvelt að matreiða það, það er sjóðandi heitt og (ef þið eruð eins og ég) troðfullt af osti sem teygist endalaust þegar maður lyftir bita upp úr mótinu. Mér finnst þetta líka skemmtileg tilbreytinging frá lasagna sem krefst þess að maður raði hráefninu í snyrtilegar hæðir í réttri röð því þessu má bara gluða beint í eldfast mót, sulla smá osti og pestói yfir og voilá.

Þessi réttur er mjög góður. Grænmetið ristast í ofninum og verður mjúkt en bragðmikið og basilíkan gefur ferskt og upplífgandi bragð. Ég var reyndar að blaðra svo mikið þegar ég útbjó réttinn að ég steingleymdi að setja tómatana með grænmetinu inn í ofninn og seinkaði því matnum um hálftíma því ég var handviss um að þeir máttu ekki missa sín. Matarskammturinn er mjög stór og ég sé fram á að við munum úða þessu í okkur alla helgina.

Ofnbakað rigatoni með eggaldini og furuhnetum

(Bon Appetit, Mars 2011)

  • 1 eggaldin, skorið í 1 cm stóra teninga (ekki afhýða)
  • 2 meðalstórar gular paprikur, skornar í 1 cm stóra ferninga
  • 1 askja kirsuberjatómatar
  • 3 stórir hvítlauksgeirar
  • 1 dl ólívuolía
  • 5 dl (þéttpökkuð) basilíkulauf
  • 250 ml ferskur parmesanostur, rifinn
  • 1/2 – 1 dl furuhnetur
  • 1 790 g dós af niðursoðnum tómötum (ekki hella safanum frá)
  • 250 ml rjómi
  • 500 g rigatonipasta
  • 500 g mozzarellaostur, skorinn í 1 cm stóra teninga
  • Sjávarsalt og malaður ferskur pipar

Aðferð:

Hitið ofninn í 210°C.

Takið fram ofnplötu og nuddið smá olíu yfir hana alla. Leggið eggaldinsbitana ásamt paprikubitunum á plötuna. Skerið tómatana í tvennt og leggið líka á plötuna. Merjið 1 hvítlauksrif yfir grænmetið. Hellið ólívuolíu yfir grænmetið og veltið því með höndunum. Saltið og piprið og ofnbakið grænmetið þangað til það mýkist, hrærið reglulega, í ca. 35 til 40 mínútur.

Setjið helminginn af basilíkulaufunum, helminginn af parmesanostinum og 1 hvítlauksgeira í matvinnsluvél og látið vélina vinna í nokkrar sekúndur, eða þar til þetta lítur út eins og pestó. Saltið eftir smekk og setjið til hliðar.

Blandið nú tómötunum og safanum úr dósinni, rjómanum, restinni af basilíkunni og síðasta hvítlauksgeiranum saman í matvinnsluvélinni þar til sósan verður kekkjalaus. Saltið og piprið eftir smekk.

Sjóðið pastað samkvæmt upplýsingum á pakka í söltu sjóðandi vatni. Hellið vatninu frá. Setjið pastað aftur í pottinn og blandið saman við grænmetið, sósuna og restinni af parmesanostinum.

Hellið öllu í eldfast mót og dreifið pestóinu, furuhnetunum og mozzarellaostinum yfir.

Bakið þar til hitað í gegn, ca. 25 til 35 mínútur (eða þangað til sósan fer að krauma allvel og osturinn hefur bráðnað) og leyfið að standa í 10 mínútur áður en rétturinn er borinn fram.

Fyrir 6

3 athugasemdir Post a comment
  1. Emmi #

    JEI!

    26/02/2011
  2. Embla #

    Þú ert að gera mig svo spennta fyrir maí (og ég er aldrei spennt fyrir sumrinu)!

    26/02/2011

Trackbacks & Pingbacks

  1. Gúrmeti úr Vesturheimi | leeeeuk

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: