Linguine með káli, furuhnetum, beikoni og osti
Þessi réttur er mjög oft í kvöldmat (og stundum hádegismat) hjá okkur. Hann er fljótlegur – tekur innan við 30 mínútur – og er virkilega ljúffengur. Ég gæti í raun borðað hann annan hvern dag án þess að fá leið á honum. Það er reyndar skrítið að ég skuli ekki hafa skrifað um hann áður en venjulega er ég í svo miklu letikasti þegar ég bý réttinn til að ég get ekki hugsað mér að dunda við myndtöku einnig. Ég nota yfirleitt blöðrukál í réttinn en nú veit ég ekki hversu fáanlegt það er heima á Íslandi. Blöðrukál er afbrigði af hvítkáli og ég hugsa að það sé líka hægt að nota hvítkál. En það má einnig nota annað grænmeti, t.d. spínat eða klettasalat.
Bónusinn við þennan pastarétt er hversu gaman það er að borða hann. Furuhneturnar og kálið gefa svolítið bit og mozzarella osturinn bráðnar og myndar litla klumpa af osti, beikoni og hnetum. Ég er reyndar alveg veik fyrir öllum réttum sem innihalda beikon eða pancetta og þeir fá sjálfkrafa stjörnu fyrir það eitt að nýta þetta guðdómlega hráefni.
Linguine með blöðrukáli, furuhnetum, beikoni og osti
[Örlítið breytt útgáfa frá sjónvarpsþætti Jamie Oliver: The Naked Chef (1. sería)]
- 400 g linguine (líka hægt að nota spagettí eða farfalle)
- Salt
- 1 msk ólívuolía
- 1/2 dl furuhnetur
- 6-8 sneiðar beikon, skorið í bita
- 1 hvítlauksgeiri, smátt saxaður
- 1/2 haus af blöðrukáli, gróft saxað og stilkurinn skorinn frá
- Klípa af smjöri
- 50 g ferskur parmesanostur, rifinn
- 1 mozzarellaostskúla, skorin í bita
- Svartur pipar
Aðferð:
Setjið vatn í pott og náið upp suðu. Saltið vatnið og sjóðið pastað samkvæmt uppýsingum á pakkningu.
Hitið olíuna í stórum potti og hellið furuhnetunum í pottinn. Bætið beikoninu saman við og leyfið að steikjast í 3 – 4 mínútur eða þangað til að hneturnar taka á sig gylltan lit og beikonið stökknar. Bætið þá hvítlauknum saman við og steikið í 1 – 2 mínútur.
Setjið kálið í pottinn og steikið í 3 mínútur, setjið klípu af smjöri í pottinn og ýtið því á milli kálblaðanna. Setjið lokið á pottinn og leyfið kálinu að gufusjóða þar til það hefur mýkst en hefur samt bit.
Nú ætti pastað að vera tilbúið. Hellið vatninu frá en geymið hluta af pastavatninu. Slökkvið undir pottinum með kálblöndunni og hellið pastanu yfir í pottinn. Bætið parmesanostinum og mozzarellaostinum saman við og blandið öllu vel saman. Bætið við 2 – 3 msk af pastavatninu saman við og blandið öllu vel saman. Osturinn mun bráðna og límast við pastað og kálið.
Berið strax fram með nýmöluðum svörtum pipar.
Fyrir 3 – 4
Like
OK ég get ekki beðið þangað til að ég kem til NYC og éta éta éta!!
Þú getur búið til mataróskalista og ég skal elda það sem þig langar í ;)
Nanna, þetta er frábær réttur! Ég á heilmikið blöðrukál í garðinum mínum og gúgglaði það að gamni til að fá hugmyndir, þá kom þessi dásamlega uppskrift upp í hendurnar á mér. Ég eldaði tvöfalda uppskrift og strákarnir mínir elskuðu þetta, allir átu á sig gat! ;)
Ég geri þetta pottþétt aftur.
Takk fyrir okkur!
En gaman að heyra! Ég held líka mjög mikið upp á þennan rétt og hef hann reglulega og breyti bara um kál. Stundum er ég með blöðrukál, stundum grænkál, stundum spínat.. Og hann bara klikkar ekki og ég verð rosalega glöð að lesa að aðrir hafa notið hans líka :)
Notaði iceberg haus og fékk ekki furuhnetur svo ég sturtaði úr hvítlauksbrauðteningapoka ofan í réttinn í lokin og þetta var glimrandi gott og vakti mikla lukku á heimilinu. Hlakka til að elda þetta rétt!