Spagettí með kíkertum, chili og myntu
Fyrir tveimur mánuðum fluttum við frá New York og á þessum mánuðum höfum við búið inni á foreldrum okkar, troðið allri búslóðinni okkar inn á mömmu og pabba og beðið í ofvæni eftir fallegustu íbúð sem ég hef nokkurn tímann búið í. Við höfum verið að koma okkur fyrir, sankað að okkur húsgögnum – ýmist að láni eða úr Góða Hirðinum, – hringt í dagmæður í von og óvon upp á að fá pláss og reynt að gera alla þá praktísku hluti sem nýflutt fólk á að gera. Þrátt fyrir allt annríkið erum við ótrúlega afslöppuð og njótum þess í botn að vera flutt í Vesturbæinn, í íbúð sem er þrefalt stærri en litla músarholan sem við bjuggum í síðustu tvö árin í Brooklyn. Mér finnst við eiginlega vera heppnasta fólk á Íslandi.
Ég hef verið að kynnast eldhúsinu – bakað í ofninum, prófað hellurnar á eldavélinni, notið þess að raða í uppþvottavélina og elskað að geta þvegið þvottinn í eldhúsinu í stað þess að fara klyfjuð á gamla þvottahúsið í Brooklyn þar sem þvotturinn kom alltaf úr þurrkaranum lyktandi af núðlusúpu. Og þó ég sakni margra hluta, staða og fólks í New York þá er gott að vera komin heim.
Elmar gaf mér matreiðslubókina Franny’s í afmælisgjöf í sumar. Franny’s var uppáhaldsmatsölustaðurinn okkar en við borðuðum þar einungis þrisvar sökum hás verðlags. Bókin þeirra er gullfalleg og allar uppskriftirnar eru sjúklega girnilegar. Ég byrjaði á því að elda þennan einfalda en ljómandi góða pastarétt úr bókinni og hef núna gert hann tvisvar. Baunirnar og pastað gera hann mjög seðjandi, steinseljan og myntan peppa hann upp og chiliflögurnar gefa góðan hita. Þórdís elskar þennan rétt og við líka.