Skip to content

Posts from the ‘Pasta’ Category

Spagettí með kíkertum, chili og myntu

Fyrir tveimur mánuðum fluttum við frá New York og á þessum mánuðum höfum við búið inni á foreldrum okkar, troðið allri búslóðinni okkar inn á mömmu og pabba og beðið í ofvæni eftir fallegustu íbúð sem ég hef nokkurn tímann búið í. Við höfum verið að koma okkur fyrir, sankað að okkur húsgögnum – ýmist að láni eða úr Góða Hirðinum, – hringt í dagmæður í von og óvon upp á að fá pláss og reynt að gera alla þá praktísku hluti sem nýflutt fólk á að gera. Þrátt fyrir allt annríkið erum við ótrúlega afslöppuð og njótum þess í botn að vera flutt í Vesturbæinn, í íbúð sem er þrefalt stærri en litla músarholan sem við bjuggum í síðustu tvö árin í Brooklyn. Mér finnst við eiginlega vera heppnasta fólk á Íslandi.

Ég hef verið að kynnast eldhúsinu – bakað í ofninum, prófað hellurnar á eldavélinni, notið þess að raða í uppþvottavélina og elskað að geta þvegið þvottinn í eldhúsinu í stað þess að fara klyfjuð á gamla þvottahúsið í Brooklyn þar sem þvotturinn kom alltaf úr þurrkaranum lyktandi af núðlusúpu. Og þó ég sakni margra hluta, staða og fólks í New York þá er gott að vera komin heim.

Elmar gaf mér matreiðslubókina Franny’s í afmælisgjöf í sumar. Franny’s var uppáhaldsmatsölustaðurinn okkar en við borðuðum þar einungis þrisvar sökum hás verðlags. Bókin þeirra er gullfalleg og allar uppskriftirnar eru sjúklega girnilegar. Ég byrjaði á því að elda þennan einfalda en ljómandi góða pastarétt úr bókinni og hef núna gert hann tvisvar. Baunirnar og pastað gera hann mjög seðjandi, steinseljan og myntan peppa hann upp og chiliflögurnar gefa góðan hita. Þórdís elskar þennan rétt og við líka.

SJÁ UPPSKRIFT

Pasta með ,butternut’graskeri og salvíu

Mér finnst alltaf gaman að prófa nýja pastarétti. Ég er orðin mjög hrifin af þeim réttum sem krefjast fárra hráefna og eru því ódýrir en matarmiklir og einfaldir í framkvæmd. Ég keypti stórt butternut grasker um daginn og eldaði þennan pastarétt úr febrúarheftri Bon Appétit. Afganginn af graskerinu nýtti ég svo í hálfa uppskrift af þessari súpu. Pastað og súpan var nægur matur fyrir okkur í fjóra daga og ég klappaði sjálfri mér á bakið fyrir hagsýnina (það fer ekki alltaf mikið fyrir henni hjá mér þegar kemur að mat).

Við vorum hrifin af þessu pasta með slatta af rifnum parmesanosti, nýmöluðum svörtum pipar og örlitlu sjávarsalti stráð yfir. Upprunalega uppskriftin notar pastategundina fiorentini, ég notaði campanelle en þar sem ég held að úrval á pastategundum sé takmarkað á Íslandi þá er sniðugast að nota skrúfur í staðinn þannig að rifna graskerið loði vel við pastað.

SJÁ UPPSKRIFT

Orecchiette með grænkáli og stökkum brauðmolum

Ég er mjög spennt fyrir febrúarhefti Bon Appétit og hef flett því fram og aftur á kvöldin. Umfjöllunarefni mánaðarins er pasta og þau hafa þróað sjö afar girnilegar uppskriftir. Ég er sjúk í pasta á veturna og finnst mjög notalegt að malla slíka rétti á köldum kvöldum. Við höfum núna prófað tvær af þessum sjö uppskriftum og mig langaði til að deila annarri þeirra með ykkur.

Orecchiette er tegund af pasta sem finnst aðallega í Puglia-héraði á Ítalíu og fæst í flestum matvörubúðum hérna úti. Það má auðvitað skipta því út fyrir annað lítið pasta – eins og skeljar eða jafnvel skrúfur. Aðalhráefnið er grænkál – sem er víst pakkað af alls kyns hollustu – og svo er chili, ansjósur og góður skammtur af hvítlauk. Punkturinn yfir i-ið er pönnusteikt brauðmylsna sem er brakandi stökk og gefur réttinum mikinn karakter.

SJÁ UPPSKRIFT

Penne með ofnristuðu blómkáli, valhnetum og fetaosti

Eins gaman og mér finnst að stússast í eldhúsinu þá þarf ég að finna einhverjar klókar leiðir til að koma mér þangað þessa dagana. Þegar fer að líða að kvöldmat og við förum að velta fyrir okkur hvað í ósköpunum við eigum að borða þá heyri ég í hjáróma letirödd í hausnum á mér sem langar alveg óskaplega til að komast hjá því að elda. Gallinn er að mig langar samt ekki til að fara út að borða og mig langar sérstaklega ekki til að ná í einhvern sveittan ódýran skyndibitamat (blegh!). Mig langar í góðan og helst hollan heimatilbúinn mat.

Lausn mín hefur verið að finna fyrirhafnarlitla rétti sem ég kann næstum því utanbókar og get framreitt á hálftíma án þess að snúa eldhúsinu á hvolf. En það vill yfirleitt svo til að þegar ég er loksins komin með skurðarbrettið fyrir framan mig og hressa tónlist á fóninn (Of Monsters and Men er í miklu uppáhaldi hjá mér eins og er) að ég fer að finna fyrir eldhúsframtaksgleðinni aftur. Og ég verð að segja að mér fannst sérstaklega skemmtilegt að matreiða þennan tiltekna rétt. Kannski er það af því að ég er að elda eitthvað nýtt í fyrsta skipti í langan tíma en kannski er það líka gleðin við að búa til eitthvað sem er bæði hollt og ljúffengt. Ég meina, ég get ekki endalaust verið að skófla í mig kartöfluflögum og rjómaís.

Kannski hljómar þessi réttur ekkert sérstaklega spennandi svona til að byrja með. Ég rakst á hann hjá Deb á Smitten Kitchen og hefði ekki hugsað tvisvar um hann nema hún lýsti því yfir að þetta væri einn besti hádegismatur sem hún hafði fengið lengi. Og þegar Deb segir að eitthvað sé gott þá er það yfirleitt svo. Þessi réttur er engin undantekning.  Ég var aldrei neitt sérstaklega hrifin af blómkáli fyrr en ég prófaði að rista það á pönnu og núna finnst mér það svo gott þegar það hefur verið matreitt þannig eða fengið að bakast inn í ofni. Sú matreiðsluaðferð laðar fram einhvern hnetukeim í blómkálinu og það mýkist örlítið en helst samt ágætlega stökkt og gefur frá sér ,kröns’ hljóð þegar maður bítur í það. Þessi réttur er mjög seðjandi, hann er einfaldur í matreiðslu og hann er ó-svo-ódýr. Og þar með lýkur tilraun minni til að sannfæra ykkur.

SJÁ UPPSKRIFT

Fusilli með kúrbít og smjöri

Vorfiðringurinn er farinn að grafa alvarlega undan hæfileika mínum til að einbeita mér að námi. Íbúðin okkar verður bjartari með hverjum deginum, sólin skín í gegnum gardínurnar og allt ryk – hvert einasta rykkorn – sést greinilega. Ég tók því ómeðvitaða ákvörðun um að loka bókinni minni í gær og fara að þrífa íbúðina hátt og lágt. Sem betur fer er íbúðin mjög lítil og nett og því tók þetta ekki of langan tíma. Ég gat m.a.s. setið í síðdegissólinni með læmónaði og dáðst að afreki dagsins.

Ég vildi óska að ég væri eins stórtæk í eldhúsinu. Einhver eldamennskuleti hefur hellst yfir mig og ég hef hvorki viljað hugsa of mikið um hvað eigi að vera í kvöldmatinn né hvort ég nenni að elda það. Ég leita því í gamalkunna og einfalda rétti á meðan ég reyni að finna nýja í bókum og á netinu. Þessa uppskrift fann ég eiginlega fyrir algjöra slysni og rétturinn er einfaldur, ódýr og ófeimin við smjörmagn. Hann er líka ansi gómsætur. Kúrbíturinn er eldaður þar til hann verður afar mjúkur og kúrbítsbragðið kemur vel í gegn í sósunni sem verður til við eldunina. Ég hef samt aðeins breytt frá upprunalegri uppskrift – ég minnkaði smjörmagnið og bæti í staðinn við einni matskeið af jómfrúarolíu.

SJÁ UPPSKRIFT

Linguine með ,akarn’graskeri og salvíu

Þó að ég elski að elda þá koma dagar sem ég horfi hálf-stjörfum augum á eldhúsið og get ekki hugsað mér að eyða of löngum tíma þar inni. Þessir dagar virðast skjóta upp sínum letihaus oftar eftir því sem líður á þessa fyrstu önn mína í doktorsnáminu. Samviskupúkinn á öxlinni segir mér að eigi að halda mig við skólabækurnar en ekki pottana. Með síkvartandi maga ákvað ég að elda mér einfaldan og fyrirhafnarlítinn pastarétt í hádeginu í gær. Ég er mjög ánægð með útkomuna og finnst þetta vera frábær og öðruvísi leið til að nýta öll graskerin sem eru tekin upp á þessum tíma. Ég notaði ,akarn’grasker (e. acorn squash) en ég hugsa að það sé hægt sé að hverskyns grasker. Ef þau eru mjög stór þá þarf líklega bara að njóta fjórðung.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: