Skip to content

Penne með ofnristuðu blómkáli, valhnetum og fetaosti

Eins gaman og mér finnst að stússast í eldhúsinu þá þarf ég að finna einhverjar klókar leiðir til að koma mér þangað þessa dagana. Þegar fer að líða að kvöldmat og við förum að velta fyrir okkur hvað í ósköpunum við eigum að borða þá heyri ég í hjáróma letirödd í hausnum á mér sem langar alveg óskaplega til að komast hjá því að elda. Gallinn er að mig langar samt ekki til að fara út að borða og mig langar sérstaklega ekki til að ná í einhvern sveittan ódýran skyndibitamat (blegh!). Mig langar í góðan og helst hollan heimatilbúinn mat.

Lausn mín hefur verið að finna fyrirhafnarlitla rétti sem ég kann næstum því utanbókar og get framreitt á hálftíma án þess að snúa eldhúsinu á hvolf. En það vill yfirleitt svo til að þegar ég er loksins komin með skurðarbrettið fyrir framan mig og hressa tónlist á fóninn (Of Monsters and Men er í miklu uppáhaldi hjá mér eins og er) að ég fer að finna fyrir eldhúsframtaksgleðinni aftur. Og ég verð að segja að mér fannst sérstaklega skemmtilegt að matreiða þennan tiltekna rétt. Kannski er það af því að ég er að elda eitthvað nýtt í fyrsta skipti í langan tíma en kannski er það líka gleðin við að búa til eitthvað sem er bæði hollt og ljúffengt. Ég meina, ég get ekki endalaust verið að skófla í mig kartöfluflögum og rjómaís.

Kannski hljómar þessi réttur ekkert sérstaklega spennandi svona til að byrja með. Ég rakst á hann hjá Deb á Smitten Kitchen og hefði ekki hugsað tvisvar um hann nema hún lýsti því yfir að þetta væri einn besti hádegismatur sem hún hafði fengið lengi. Og þegar Deb segir að eitthvað sé gott þá er það yfirleitt svo. Þessi réttur er engin undantekning.  Ég var aldrei neitt sérstaklega hrifin af blómkáli fyrr en ég prófaði að rista það á pönnu og núna finnst mér það svo gott þegar það hefur verið matreitt þannig eða fengið að bakast inn í ofni. Sú matreiðsluaðferð laðar fram einhvern hnetukeim í blómkálinu og það mýkist örlítið en helst samt ágætlega stökkt og gefur frá sér ,kröns’ hljóð þegar maður bítur í það. Þessi réttur er mjög seðjandi, hann er einfaldur í matreiðslu og hann er ó-svo-ódýr. Og þar með lýkur tilraun minni til að sannfæra ykkur.

Penne með ristuðu blómkáli, valhnetum og fetaosti

(Breytt uppskrift frá Smitten Kitchen)

  • 2 hausar blómkál, skorin í bita
  • 1 meðalstór laukur, sneiddur
  • 4 hvítlauksrif, söxuð
  • 450 g penne, eða annað pasta
  • jómfrúarolía
  • salt og pipar
  • 1/2 – 1 tsk chiliflögur
  • hvítvínsedik
  • 1/2 sítróna
  • 2 lúkur valhnetur, gróft saxaðar og ristaðar á pönnu
  • 120 g fetaostur

Aðferð:

Hitið ofninn í 220°C/425°F.

Veltið blómkálsbitunum upp úr smá jómfrúarolíu, með klípu af salti og pipar. Dreifið á bökunarplötu og bakið inn í ofni í ca. 15  mínútur. Veltið bitunum reglulega og takið þá úr ofninum þegar þeir hafa tekið á sig gylltan lit og hafa mýkst svolítið. Setjið til hliðar.

Byrjið að sjóða pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakka eða þar til það er al dente.

Takið fram stóra pönnu og hitið slurk af jómfrúarolíu á henni yfir meðalháum hita. Steikið laukinn á pönnunni þar til hann hefur mýkst og er orðinn glær. Bætið þá ristaða blómkálinu út á pönnuna ásamt chiliflögunum. Steikið í 2 – 3 mínútur. Slökkvið undir pönnunni og takið frá hitanum. Bætið hvítlauknum út í og hrærið í pönnunni til að koma í veg fyrir að hvítlaukurinn brenni við. Ef það lítur út fyrir að hann fari að brenna við þá er gott að bæta smá vatni út á pönnuna. Kreistið sítrónuna yfir, sáldrið nokkrum dropum af ediki yfir og stráið ristuðu valhnetunum yfir. Hrærið allt saman og smakkið til.

Þegar pastað er tilbúið er vatninu hellt frá og pastanu bætt við grænmetið. Hellið jómfrúarolíu yfir pastað til að þekja það og hrærið svo öllu saman. Smakkið til, rétturinn gæti þurft meira salt eða meira chili  – allt eftir smekk. Ég stráði smá saxaðri steinselju yfir réttinn til að fá aðeins meiri lit.

Dreifið fetaostinum yfir réttinn og berið fram með jómfrúarolíu og nýmöluðum svörtum pipar.

Fyrir 4 – 5

Prenta uppskrift

No comments yet

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: