Skip to content

Posts from the ‘Hnetur’ Category

Kókos- og möndluskonsur með súkkulaðibitum

Við erum að fá svo marga skemmtilega gesti á næstu mánuðum að ég hef varla undan að bóka íbúðir á Airbnb fyrir mannskapinn. Það eru því mjög skemmtilegir tímar framundan. Ég reyni því að nýta þann nauma tíma sem ég hef frá Þórdísi í að vinna að doktorsverkefninu. Verkefni sem er orðið að svo ógurlegu skrímsli að ég þori stundum ekki að opna glósurnar mínar.

Ég er almennt mjög hrifin af svona skonsum – þær eru fljótlegar, einfaldar og það er auðvelt að frysta þær hráar til að eiga bakkelsi til að stinga beint inn í ofn þegar löngunin kallar. Svo á ég líka yfirleitt allt nauðsynlegt hráefni í þær og eitthvað auka til að hræra saman við. Við vorum mjög hrifin af þessum skonsum, þær voru fullkomnar nýbakaðar með eftirmiðdagskaffibollanum.

SJÁ UPPSKRIFT

Affogato með karamellugljáðum heslihnetum

Nú er árið senn á enda og ég trúi því vart hvað það hefur liðið ótrúlega hratt. En áður en við fikrum okkur yfir á nýtt ár og nýja tíma þá langaði mig til að deila með ykkur jólaeftirréttinum hjá okkur þetta árið. Mig langaði til að hafa eitthvað  létt og einfalt þar sem aðalrétturinn hjá okkur var bæði þungur og afskaplega fyrirhafnarmikill. Við höfum lengi ætlað okkur að búa til þennan ítalska eftirrétt eftir að hafa fengið hann með sykruðum möndlum á veitingastað hérna í hverfinu. Ég ákvað að búa til karamellugljáðar heslihnetur til að gefa réttinum smá bit og karakter. Þetta var fullkominn eftirréttur eftir allt þunga kjötið. Við mælum því með honum ef þið eruð ekki búin að ákveða hvað þið ætlið að bjóða upp á á gamlárskvöld – kaffið er örugglega sérstaklega hentugt fyrir þá sem vilja halda sér glaðvakandi fram yfir miðnætti.

SJÁ UPPSKRIFT

Rósakálssalat með hlynsírópsgljáðum pekanhnetum

Ég er ennþá að jafna mig á hversu litla afganga við áttum frá Þakkargjörðarboðinu okkar og hversu fljótt þeir kláruðust. Mig langar alveg sjúklega mikið í meiri kalkún, sósu og stöppu. Ætli ég verði ekki að grenja okkur inn í eitthvert matarboð þegar að því kemur en við verðum komin aftur út til Brooklyn þegar hátíðin gengur í garð. Mig kitlar í magann við tilhugsunina um að komast aftur í litlu íbúðina okkar, rölta um fallega hverfið og koma lífinu í fastar skorður. Því þó að það sé alltaf gott að vera heima á Íslandi þá finn ég sterklega að líf okkar og heimili er í Bandaríkjunum.

Ég keypti rósakál í Kosti fyrir þessa uppskrift og það var fallegt og ferskt (svona miðað við að hafa verið flutt in frá Bandaríkjunum). Ég gat líka keypt risapoka af pekanhnetum sem var nóg fyrir bæði þennan rétt og pekanbitana.  Sinnepsdressingin passar vel við þetta allt saman, hún er létt og er ekki eins yfirþyrmandi og margar aðrar sem hafa meira fituinnihald. Ef þið eruð að leita að góðu salati með rósakáli og þetta er ekki alveg að falla í kramið þá bjó ég til salat úr grænkáli og rósakáli í fyrra sem var afskaplega gott og var étið upp til agna í Þakkargjörðarpartýinu.

SJÁ UPPSKRIFT

Pekanbitar með karamellu

Við héldum upp á Þakkargjörðarhátíðina um helgina heima hjá foreldrum mínum. Í rauninni þjófstörtuðum við hátíðinni þar sem hún er haldin síðasta fimmtudaginn í nóvember í Bandaríkjunum og enn er rúmur mánuður í það. En þar sem við fjölskyldan verðum farin aftur vestur um haf eftir örfáar vikur og vorum fjarri góðu gamni í fyrra þá var ákveðið að taka forskot á sæluna. Pabbi matreiddi kalkún, fyllingu og sósu, ég sá um þessa pekanbita og salat, og Embla bjó til bökuð epli í eftirmat (sjá uppskrift hér). Kvöldmaturinn var því með besta móti og sú litla gerði foreldrum sínum þann greiða að sofa í gegnum borðhaldið.

Ég ætla því að nýta tækifærið og setja inn uppskriftir að matnum á næstu dögum ef svo skyldi vera að einhverjir freistast til að halda uppá Þakkargjörðarhátíðina og vantar hugmyndir að matseðli kvöldsins. Ég byrja í raun í vitlausri röð þar sem þessir pekanbitar voru í eftirrétt með kaffinu. Þetta eiga í raun að vera kökubitar en þar sem þeir eru dísætir (og afar hitaeiningaríkir) þá ákvað ég að skera kökuna í litla munnbita og bjóða upp á sem konfekt. Uppskriftina fann ég á Smitten Kitchen en ég  hef minnkað hana og breytt aðeins eftir mínum smekkk. Bitarnir eru einstaklega góðir – botninn er smjörmikill og eilítið mjúkur, söxuðum pekanhnetum er velt upp úr hunangskaramellu og dreift yfir – og útkoman er syndsamleg.

SJÁ UPPSKRIFT

Mjúkir granólabitar

Ég hef ekki undan að reyna að búa til einhvers konar snarl til að hafa við hendina þegar óstöðvandi óléttumatarlyst mín lætur til sín heyra. Eplaskonsurnar kláruðust nánast samstundis, allt smálegt sem ég kaupi í matvörubúðinni hverfur fyrir kvöldmat, afgangar kvöldmatarins eru búnir fyrir svefninn og ísskápurinn virðist alltaf álíka tómur og maginn minn. Og ef það er eitthvað sem mér er virkilega illa við þá er það að vera svöng.

Ég hef gert tilraunir til að kaupa granólastangir í pökkum í matvörubúðinni en ég hef komist að því að stangirnar eru litlar, dýrar, langt frá því að vera seðjandi og yfirleitt alltof sætar. Þegar ég sá að Molly á Orangette (sem er einmitt líka ófrísk og á að eiga á svipuðum tíma og ég) er farin að búa til sína eigin granólabita þá ákvað ég að slá til og skella í einn bakka sjálf. Og þetta er miklu betra en litlu innpökkuðu stangirnar í búðinni. Það er hægt að búa til sína eigin bragðblöndu mjög auðveldlega og bitarnir eru  mjúkir, matarmiklir og seðjandi.

SJÁ UPPSKRIFT

Penne með ofnristuðu blómkáli, valhnetum og fetaosti

Eins gaman og mér finnst að stússast í eldhúsinu þá þarf ég að finna einhverjar klókar leiðir til að koma mér þangað þessa dagana. Þegar fer að líða að kvöldmat og við förum að velta fyrir okkur hvað í ósköpunum við eigum að borða þá heyri ég í hjáróma letirödd í hausnum á mér sem langar alveg óskaplega til að komast hjá því að elda. Gallinn er að mig langar samt ekki til að fara út að borða og mig langar sérstaklega ekki til að ná í einhvern sveittan ódýran skyndibitamat (blegh!). Mig langar í góðan og helst hollan heimatilbúinn mat.

Lausn mín hefur verið að finna fyrirhafnarlitla rétti sem ég kann næstum því utanbókar og get framreitt á hálftíma án þess að snúa eldhúsinu á hvolf. En það vill yfirleitt svo til að þegar ég er loksins komin með skurðarbrettið fyrir framan mig og hressa tónlist á fóninn (Of Monsters and Men er í miklu uppáhaldi hjá mér eins og er) að ég fer að finna fyrir eldhúsframtaksgleðinni aftur. Og ég verð að segja að mér fannst sérstaklega skemmtilegt að matreiða þennan tiltekna rétt. Kannski er það af því að ég er að elda eitthvað nýtt í fyrsta skipti í langan tíma en kannski er það líka gleðin við að búa til eitthvað sem er bæði hollt og ljúffengt. Ég meina, ég get ekki endalaust verið að skófla í mig kartöfluflögum og rjómaís.

Kannski hljómar þessi réttur ekkert sérstaklega spennandi svona til að byrja með. Ég rakst á hann hjá Deb á Smitten Kitchen og hefði ekki hugsað tvisvar um hann nema hún lýsti því yfir að þetta væri einn besti hádegismatur sem hún hafði fengið lengi. Og þegar Deb segir að eitthvað sé gott þá er það yfirleitt svo. Þessi réttur er engin undantekning.  Ég var aldrei neitt sérstaklega hrifin af blómkáli fyrr en ég prófaði að rista það á pönnu og núna finnst mér það svo gott þegar það hefur verið matreitt þannig eða fengið að bakast inn í ofni. Sú matreiðsluaðferð laðar fram einhvern hnetukeim í blómkálinu og það mýkist örlítið en helst samt ágætlega stökkt og gefur frá sér ,kröns’ hljóð þegar maður bítur í það. Þessi réttur er mjög seðjandi, hann er einfaldur í matreiðslu og hann er ó-svo-ódýr. Og þar með lýkur tilraun minni til að sannfæra ykkur.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: