
Eins gaman og mér finnst að stússast í eldhúsinu þá þarf ég að finna einhverjar klókar leiðir til að koma mér þangað þessa dagana. Þegar fer að líða að kvöldmat og við förum að velta fyrir okkur hvað í ósköpunum við eigum að borða þá heyri ég í hjáróma letirödd í hausnum á mér sem langar alveg óskaplega til að komast hjá því að elda. Gallinn er að mig langar samt ekki til að fara út að borða og mig langar sérstaklega ekki til að ná í einhvern sveittan ódýran skyndibitamat (blegh!). Mig langar í góðan og helst hollan heimatilbúinn mat.

Lausn mín hefur verið að finna fyrirhafnarlitla rétti sem ég kann næstum því utanbókar og get framreitt á hálftíma án þess að snúa eldhúsinu á hvolf. En það vill yfirleitt svo til að þegar ég er loksins komin með skurðarbrettið fyrir framan mig og hressa tónlist á fóninn (Of Monsters and Men er í miklu uppáhaldi hjá mér eins og er) að ég fer að finna fyrir eldhúsframtaksgleðinni aftur. Og ég verð að segja að mér fannst sérstaklega skemmtilegt að matreiða þennan tiltekna rétt. Kannski er það af því að ég er að elda eitthvað nýtt í fyrsta skipti í langan tíma en kannski er það líka gleðin við að búa til eitthvað sem er bæði hollt og ljúffengt. Ég meina, ég get ekki endalaust verið að skófla í mig kartöfluflögum og rjómaís.

Kannski hljómar þessi réttur ekkert sérstaklega spennandi svona til að byrja með. Ég rakst á hann hjá Deb á Smitten Kitchen og hefði ekki hugsað tvisvar um hann nema hún lýsti því yfir að þetta væri einn besti hádegismatur sem hún hafði fengið lengi. Og þegar Deb segir að eitthvað sé gott þá er það yfirleitt svo. Þessi réttur er engin undantekning. Ég var aldrei neitt sérstaklega hrifin af blómkáli fyrr en ég prófaði að rista það á pönnu og núna finnst mér það svo gott þegar það hefur verið matreitt þannig eða fengið að bakast inn í ofni. Sú matreiðsluaðferð laðar fram einhvern hnetukeim í blómkálinu og það mýkist örlítið en helst samt ágætlega stökkt og gefur frá sér ,kröns’ hljóð þegar maður bítur í það. Þessi réttur er mjög seðjandi, hann er einfaldur í matreiðslu og hann er ó-svo-ódýr. Og þar með lýkur tilraun minni til að sannfæra ykkur.

Líkar við:
Líka við Hleð...