Skip to content

Eplaskonsur með osti

Ég held að ég hafi aldrei borðað eins mikið á ævi minni og ég er búin að gera undanfarið. Elmar horfir stundum hissa á mig þegar ég er farin að fá mér þrisvar (ókei, fjórum sinnum) á diskinn eftir að hann er löngu hættur að borða. Því þrátt fyrir að vera gefin fyrir mat þá er ég yfirleitt frekar matgrönn og Elmar er farinn að hafa orð á því að hann hafi aldrei séð mig borða eins mikið og af eins mikilli áfergju. Ég er samt alls ekki ósátt við þennan fylgifisk óléttunnar enda hef ég oft látið fara í taugarnar á mér hversu fljótt ég verð södd þegar góður matur er í boði. Þetta veldur samt smá pirringi  þegar ég vakna um miðjar nætur við garnagaul og þarf að staulast fram í eldhús í myrkrinu til að finna mér eitthvað til að sefa sárasta hungrið.

Gærdagurinn var einn af þessum dögum þar sem allt virðist ganga á afturfótunum alveg frá því að maður fer fram úr rúminu. Þegar dagurinn var næstum því liðinn og engin merki voru um að hann myndi skána þá ákvað ég að baka eitthvað gott og einfalt. Og þessar skonsur björguðu deginum. Þær eru alls ekki of sætar – bökuðu eplabitarnir eru mjúkir og bragðmiklir, osturinn passar vel við brauðið og eplin, og skonsurnar sjálfar eru léttar í sér og smjörmiklar. Þetta er kannski svolítið haustlegt bakkelsi en það kom ekki að sök í kuldanum og rigningunni í gær. Ég ákvað að baka helminginn af skonsunum og frysti hinar til að eiga í ferskan bakstur í dag. Svona er ég nú sniðug stundum.

Eplaskonsur með osti

(Uppskrift frá Smitten Kitchen)

  • 2 græn epli (ca. 450 g)
  • 195 g hveiti
  • 60 g sykur (+1 msk)
  • 1/2 msk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 85 g smjör, kalt og skorið í 2 cm teninga
  • 65 g ostur, rifinn (ég notaði cheddar en það er hægt að nota gouda eða annan hvítan harðan ost)
  • 0.6 dl [1/4 bolli] rjómi
  • 2 stór egg

Aðferð:

Hitið ofninn í 190°C/375°F. Leggið bökunarpappír ofan á ofnplötu og setjið til hliðar.

Skrælið eplin, hreinsið kjarnann frá og skerið hvert epli í 16 bita. Leggið eplabitana á ofnplötuna og bakið í ofni í ca. 20 mínútur, eða þar til þau taka á sig smá lit og eru þurr að snerta. Leyfið að eplunum að kólna alveg (t.d. inni í ísskáp til að flýta fyrir). Ekki slökkva á ofninum.

Sigtið hveiti, sykur, lyftiduft og salt í skál og blandið saman. Setjið til hliðar.

Setjið smjörið, ostinn, eplabitana, rjómann og annað eggið í hrærivélarskál. Dreifið hveitiblöndunni yfir og blandið hægt saman. Passið að hræra deigið ekki of lengi, stoppið strax og hráefnin hafa blandast saman.

Sáldrið hveiti yfir borðflöt og hellið deiginu úr skálinni á flötinn. Sáldrið hveiti yfir deigið og notið kökukefli eða hendurnar til að búa til 3 cm þykkan disk með 15 cm í þvermál. Skerið í 6 bita (ég skar í 8 bita) og leggið bitana á ofnplötu með (hreinum) bökunarpappír. Hafið gott bil á milli bitanna.

Hrærið egg í skál með smá klípu af salti. Burstið skonskurnar með egginu og sáldrið 1 msk af sykri yfir þær.

Setjið skonsurnar inn í miðjan ofn og bakið í ca. 25 – 30 mínútur, eða þar til þær verða stífar og gylltar. Leyfið þeim að kólna á grind í 10 mínútur

[*Skonsurnar eru langbestar samdægurs. Ef þið haldið að þær klárist ekki daginn sem þið bakið þær þá má frysta óbakaða bita og baka þá þegar ykkur langar í nýbakaðar skonsur. Setjið bitana, frosna, inn í ofn og bakið í 2-3 mínútur aukalega.]

Prenta uppskrift

4 athugasemdir Post a comment
  1. Birna #

    Bakaði þessar skonsur en bætti við kanel í sykurinn sem ég drissaði ofan á fyrir baksturinn. Hitinn 190 er of mikill fyrir blástursofna hér á klakanum þannig að það ætti að minnka hitann aðeins. Þetta sló í gegn, takk fyrir að deila með okkur.

    07/05/2012
    • Frábært! Og takk fyrir að benda mér á að hitinn er of hár í blástursofni. Ég hef ekki notað blástursofn í ár og öld og gleymi því stundum að þeir séu til ;)

      07/05/2012
  2. Inga Hrund #

    Vil benda á (ráð frá vinkonu) að það er tilvalið að baka alla uppskriftina og frysta svo það sem er ekki borðað samdægurs. Það er auðvelt að hita bita upp í brauðrist seinna.

    08/03/2013

Trackbacks & Pingbacks

  1. Mjúkir granólabitar | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: