Frönsk eplabaka með hunangi
Það er fátt sem mér finnst betra en bökur. Þegar ég þarf að velja á milli þess að fá mér kökusneið eða bökusneið þá vel ég hiklaust síðari kostinn. Ætli það sé ekki smjörmikill botninn sem freistar mín hvað mest og það sakar alls ekki þegar skelin er hlaðin bökuðum ávöxtum.
Bændamarkaðurinn er frekar einsleitur hérna á veturna – rótargrænmeti, einstaka kálafbrigði og harðgerar kryddjurtir. En það sem gerir hann aðeins skemmtilegri eru öll eplin, ferski eplasafinn og heiti eplasíderinn. Ég stóðst ekki mátið um daginn og keypti fjögur ólík epli til að setja í þessa böku. Bakan er afbragðsgóð, hún inniheldur lítinn sykur og eplin eru í aðalhutverki. Ég var sérstaklega hrifin af því að sáldra volgu hunangi yfir bökuna til að vega aðeins á móti sýrunni í eplunum. Við borðuðum hana með litlum kúlum af vanilluís og hún var horfin áður en við vissum af.