Skip to content

Posts from the ‘Epli’ Category

Frönsk eplabaka með hunangi

Það er fátt sem mér finnst betra en bökur. Þegar ég þarf að velja á milli þess að fá mér kökusneið eða bökusneið þá vel ég hiklaust síðari kostinn. Ætli það sé ekki smjörmikill botninn sem freistar mín hvað mest og það sakar alls ekki þegar skelin er hlaðin bökuðum ávöxtum.

Bændamarkaðurinn er frekar einsleitur hérna á veturna – rótargrænmeti, einstaka kálafbrigði og harðgerar kryddjurtir. En það sem gerir hann aðeins skemmtilegri eru öll eplin, ferski eplasafinn og heiti eplasíderinn. Ég stóðst ekki mátið um daginn og keypti fjögur ólík epli til að setja í þessa böku. Bakan er afbragðsgóð, hún inniheldur lítinn sykur og eplin eru í aðalhutverki. Ég var sérstaklega hrifin af því að sáldra volgu hunangi yfir bökuna til að vega aðeins á móti sýrunni í eplunum. Við borðuðum hana með litlum kúlum af vanilluís og hún var horfin áður en við vissum af.

SJÁ UPPSKRIFT

Eplakanillengja

Þegar ég fór frá Íslandi með Þórdísi Yrju þá hafði ég smá áhyggjur af því að við værum að fara að einangra okkur í Brooklyn. Vinir okkar hérna úti eiga ekki börn, lifa frekar annasömu lífi og við höfðum vanist því að hitta þá í bjór á börum borgarinnar. Ég bjóst því við að Þórdís myndi aðeins sjá andlit foreldra sinna og yrði ef til vill mannfælin (og já, það er greinilega hægt að hafa áhyggjur af öllu þegar maður á barn). En einangrun hefur alls ekki einkennt líf okkar frá því að við komum út, langt því frá. Það er sífelldur gestagangur og við mjög ötul við að bjóða fólki í bröns, hádegismat, kaffi og kvöldmat. Þetta gerir það að verkum að ég reyni eftir fremsta megni að fylla frystinn af heimabökuðu bakkelsi sem má henda inn í ofn þegar við fáum gesti. Og með þannig mat í huga fann ég þessa uppskrift.

Þessi eplakanillengja er stórsniðug, það er ýmist hægt að skera rúlluna niður og búa þannig til eplakanilsnúða eða hafa hana eins og hér að ofan og baka hana eins og rúlluköku. Uppskriftin gefur tvær kanillengjur og það má frysta eða kæla óbakaða lengjuna (eða báðar lengjurnar) og eiga þar til gesti ber að garði. Eplin vega aðeins upp á móti sykrinum og gefa bæði smá bit og ferskleika. Þetta er svolítið tímafrek uppskrift þar sem deigið þarf að hefast tvisvar og skera þarf eplin niður í litla teninga. En afraksturinn er tvær matarmiklar kanillengjur sem geyma má í frysti og auðveldar manni þannig lífið ef von er á gestum í kaffi og með því.

SJÁ UPPSKRIFT

Rósakálssalat með eplum og heslihnetum

Hérna vetrar aðeins seinna en á Íslandi og það er greinilegt að árstíðaskiptin nálgast. Prospect Park skartaði þó ennþá haustlegri fegurð þegar við litla fjölskyldan fórum í gönguferð á Þakkargjörðardag. Þórdís Yrja vex og dafnar hratt og er farin að sýna mjög sterkan vilja. Þetta gerir það að verkum að ég er ekki búin að skrifa mikið, ekki byrjuð að baka jólasmákökur og þegar ég ætlaði að skreyta íbúðina um daginn náði ég einungis að setja upp eina og hálfa ljósaseríu. En hún gerir dagana svo skemmtilega að ég sýti það ekki hvað tíminn flýgur frá mér.

Í öllum þessum hasar reyni ég að gleyma því ekki að borða. Ég átti afgang af rósakáli frá Þakkargjörðinni sem ég notaði í þetta frískandi salat. Ég er mjög hrifin af því að nota hnetur í salöt og var mjög hrifin af því að nota heslihnetur í þetta skiptið.

SJÁ UPPSKRIFT

Eplaskonsur með osti

Ég held að ég hafi aldrei borðað eins mikið á ævi minni og ég er búin að gera undanfarið. Elmar horfir stundum hissa á mig þegar ég er farin að fá mér þrisvar (ókei, fjórum sinnum) á diskinn eftir að hann er löngu hættur að borða. Því þrátt fyrir að vera gefin fyrir mat þá er ég yfirleitt frekar matgrönn og Elmar er farinn að hafa orð á því að hann hafi aldrei séð mig borða eins mikið og af eins mikilli áfergju. Ég er samt alls ekki ósátt við þennan fylgifisk óléttunnar enda hef ég oft látið fara í taugarnar á mér hversu fljótt ég verð södd þegar góður matur er í boði. Þetta veldur samt smá pirringi  þegar ég vakna um miðjar nætur við garnagaul og þarf að staulast fram í eldhús í myrkrinu til að finna mér eitthvað til að sefa sárasta hungrið.

Gærdagurinn var einn af þessum dögum þar sem allt virðist ganga á afturfótunum alveg frá því að maður fer fram úr rúminu. Þegar dagurinn var næstum því liðinn og engin merki voru um að hann myndi skána þá ákvað ég að baka eitthvað gott og einfalt. Og þessar skonsur björguðu deginum. Þær eru alls ekki of sætar – bökuðu eplabitarnir eru mjúkir og bragðmiklir, osturinn passar vel við brauðið og eplin, og skonsurnar sjálfar eru léttar í sér og smjörmiklar. Þetta er kannski svolítið haustlegt bakkelsi en það kom ekki að sök í kuldanum og rigningunni í gær. Ég ákvað að baka helminginn af skonsunum og frysti hinar til að eiga í ferskan bakstur í dag. Svona er ég nú sniðug stundum.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: