Skip to content

Eplakanillengja

Þegar ég fór frá Íslandi með Þórdísi Yrju þá hafði ég smá áhyggjur af því að við værum að fara að einangra okkur í Brooklyn. Vinir okkar hérna úti eiga ekki börn, lifa frekar annasömu lífi og við höfðum vanist því að hitta þá í bjór á börum borgarinnar. Ég bjóst því við að Þórdís myndi aðeins sjá andlit foreldra sinna og yrði ef til vill mannfælin (og já, það er greinilega hægt að hafa áhyggjur af öllu þegar maður á barn). En einangrun hefur alls ekki einkennt líf okkar frá því að við komum út, langt því frá. Það er sífelldur gestagangur og við mjög ötul við að bjóða fólki í bröns, hádegismat, kaffi og kvöldmat. Þetta gerir það að verkum að ég reyni eftir fremsta megni að fylla frystinn af heimabökuðu bakkelsi sem má henda inn í ofn þegar við fáum gesti. Og með þannig mat í huga fann ég þessa uppskrift.

Þessi eplakanillengja er stórsniðug, það er ýmist hægt að skera rúlluna niður og búa þannig til eplakanilsnúða eða hafa hana eins og hér að ofan og baka hana eins og rúlluköku. Uppskriftin gefur tvær kanillengjur og það má frysta eða kæla óbakaða lengjuna (eða báðar lengjurnar) og eiga þar til gesti ber að garði. Eplin vega aðeins upp á móti sykrinum og gefa bæði smá bit og ferskleika. Þetta er svolítið tímafrek uppskrift þar sem deigið þarf að hefast tvisvar og skera þarf eplin niður í litla teninga. En afraksturinn er tvær matarmiklar kanillengjur sem geyma má í frysti og auðveldar manni þannig lífið ef von er á gestum í kaffi og með því.

Eplakanillengja

(Uppskrift frá Joy the Baker)

Deigið:

 •  2 ¼ tsk þurrger (einn pakki)
 • ¼ bolli [60 ml] volgt vatn
 • 1 tsk sykur
 • 6 msk sykur
 • 170 g smjör, við stofuhita
 • ½ tsk kardemommuduft
 • ½ tsk salt
 • 3 stór egg
 • 4.5 – 5 bollar [560 – 630 g] hveiti
 • 1 bolli [2.3 dl] volg mjólk

 Fyllingin:

 •  4 stór epli, afhýdd og skorin í litla teninga (ég notaði Fuji epli)
 • 2 tsk ferskur sítrónusafi
 • ¼ bolli [50] púðursykur
 • 1 tsk kanilduft
 • 1 tsk maíssterkja (eða önnur sterkja eða hveiti)
 • ½ tsk múskat
 • smá salt

 Streusel:

 • ½ bolli [63 g] hveiti
 • 1/2 bolli [100 g] púðursykur
 • ½ tsk kanil
 • smá salt
 • smá kardemommuduft
 • 40 g smjör, við stofuhita

Pensla:

 • 1 egg og smá sykur

 Aðferð:

Búið til deigið fyrst: Hrærið geri, volgu vatni og 1 tsk af sykri saman í lítilli skál. Þar til gerið hefur leysts upp. Setjið til hliðar í 10 mínútur. Blandan verður froðukennd og mun þykkna – þannig veistu að gerið er lifandi.

Setjið sykurinn, smjörið, kardemommuduftið og saltið saman í skál á hrærivél. Hrærið saman þar til smjörblandan verður ljós á litinn og mjúk, ca. 3 mínútur.

Stoppið vélina og bætið við eggjunum og 1 bolla [125 g] af hveiti. Hrærið saman á meðalhraða þar til allt hefur blandast vel saman. Stoppið vélina og bætið við 2 bollum [250 g] af hveiti, gerblöndunni og volgri mjólk. Hrærið saman á meðalhraða þar til hveitið hefur blandast alveg við deigið.  Deigið á að vera mjög blautt á þessu stigi.

Bætið 1.5 til 2 bollum [200 – 250 g] af hveiti til viðbótar. Hrærið þar til hveitið er næstum því búið að blandast alveg við deigið. Deigið á núna að vera minna blautt og meðfærilegt til hnoðunar (ekki leyfa því að verða of þurrt þó, betra er að bæta við hveiti eins og við á meðan hnoðað er).

Hellið deiginu úr skálinni yfir á hveitistráðan borðflöt. Hnoðið í 5 til 8 mínútur. Deigið verður gljáandi og svolítið límkennt. Setjið deigið í skál (got er að smyrja skálina með smá olíu), setjið plastfilmu yfir og leggið síðan viskustykki yfir skáoina. Leyfið að hefast á hlýjum stað í tæpa tvo tíma, eða þar til deigið hefur tvöfaldast.

Búið til fyllinguna og streuselið á meðan deigið er að hefast.

Fyllingin: Blandið saman eplunum, sítrónusafanum, sykrinum, kanilduftinu, sterkjunni, múskatinu og saltinu. Geymið við stofuhita.

Streusel: Hrærið saman hveiti, sykri, kanildufti, salti og kardemommudufti. Bætið smjörinu saman við og nuddið því við hveitblönduna þar til smjörið hefur blandast við og blandan er eins og gróft mjöl. Setjið til hliðar.

Setjið bökunarpappír í tvær ofnplötur.

Þegar deigið hefur tvöfaldast skal skipta því í tvennt. Byrjið á öðrum helmingnum og flejtið út þar til það verður ca. 25 cm x 35 cm að stærð. Sáldrið helmingnum af streuselinu yfir og dreifið síðan helmingnum af eplablöndunni yfir það. Sáldrið smá af vökvanum úr eplablöndunni yfir líka.

Rúllið deiginu upp frá lengri hliðinni. Það þarf ekki að rúlla deiginu mjög þétt. Klípið deigið aðeins saman. Lyftið lengjunni upp og flytjið yfir á ofnplötu, látið sauminn snúa niður. Mótið deigið í smá skeifu.

*[Á þessum tímapunkti má setja kanillengjuna inn í ísskáp eða frysti. Þegar baka á kanillengjuna skal leyfa henni að ná stofuhita og hefast síðan í 30 mínútur eftir það. Skerið síðan í hana samkvæmt leiðbeiningum og bakið. Ef lengjan var geymd inni í frysti skal taka hana út kvöldinu áður og leyfa henni að þiðna inni í ísskáp.]*

Skerið í deigið með 2.5 cm millibili en bútið það ekki niður (skiljið eftir smá hluta). Leggið hreint viskustykki yfir og leyfið að hefast í 30 mínútur.

Endurtakið með seinni helmgininn.

Hitið ofninn í 180°C.

Penslið deigið með eggjahrærunni  og sáldrið smá sykri yfir. Bakið í ofni í 30 til 35 mínútur þar til gyllt á litinn og bakað í gegn.

Takið úr ofninum og leyfið að kólna í 15 mínútur áður en hún er borin fram. Kanillengjan geymist í 3 daga við stofuhita vel vafinn inn í plast. En hún er þó auðvitað langbest daginn sem hún er bökuð.

Prenta uppskrift

2 athugasemdir Post a comment
 1. Auður #

  Darn! Þetta lítur vel út. Aftur á móti dreg ég mörkin við eina hefun! :D

  03/01/2013
  • Já, ég skil það reyndar mjög vel :) Óttalegt vesen að búa til þessi gerdeig en afurðin er bara alltaf svo góð að ég stenst ekki freistinguna!

   03/01/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: