Nú árið er liðið í aldanna skaut
Gleðilegt nýtt ár kæru matarunnendur og takk fyrir samfylgdina á liðnu ári. Þetta ár er vægast sagt búið að vera viðburðarríkt hjá okkur. Hér er smá yfirlit:
Við hófum nýja árið heima á Íslandi. Við skáluðum fyrir nýju upphafi á Akureyri heima hjá fjölskyldu Elmars. Ég flaug síðan suður strax eftir áramót þar sem foreldrar mínir voru á leið í aðgerð. Mamma mín gaf pabba mínum nýra og ég var heima fram í febrúar þar sem ég ætlaði að búa vel um þau og hjálpa systur minni að reka heimilið á meðan þau voru að jafna sig. Ég þarf örugglega ekki að taka fram hversu óendanlega stolt ég er að mömmu minni og hversu þakklát ég er fyrir að allt gekk vel. Ég á nefnilega heimsins bestu foreldra.
Sama dag og foreldrarnir voru í aðgerð heimtaði Elmar að ég tæki óléttupróf. Ég var full efasemda og fannst það nú vera helst til mikil bjartsýni að halda að ég væri loksins orðin ófrísk. En viti menn, í miðri aðgerð hjá pabba komst ég að því að lítill erfingi væri á leiðinni. Stuttu seinna tók við morgunógleði sem varði allan liðlangan daginn, ég lá hluta dags á baðherbergisgólfinu og fúlsaði við öllu sem var ekki ristað brauð eða vatnsmelóna. Bloggið lá niðri og greyið Embla systir þurfti að sjá um okkur öll (og passa að mamma færi sér ekki að voða við að koma sér sem fyrst á fætur – hún er svolítið óþekk).
Ég flaug aftur út í byrjun febrúar og restin af vetrinum fór í að undirbúa doktorsritgerðina. Ég skipti um skoðun vikulega um hvað ritgerðin ætti í raun að fjalla um og því varð mér lítt ágengt. Það voraði samt sérstaklega snemma í borginni okkar og við eyddum miklum tíma úti fyrir eða á kaffihúsum að lesa og skrifa. Matarlystin helltist aftur yfir mig og ég fór að blogga aftur.
Ég stækkaði ört og með hverri vikunni urðum við rólegri og óléttan varð raunverulegri. Ég át ótrúlega mikið, dró Elmar með mér í ísbúðina við hvert tækifæri og furðaði mig á hversu mikið stúlkukindin sparkaði. Systir mín kom í heimsókn og við flökkuðum um Brooklyn. Sumarið kom til Brooklyn með hita og mikilli sól. Við flúðum norður til Montréal í nokkra daga og löbbuðum svo mikið að ég fór næstum því af stað.
Ég át ógrynni af ferskum nýuppteknum jarðarberjum.
Las matartímarit í garðinum þegar ég átti að læra.
Undir lok júní var ég farin að fá hitaslag í sólinni og reyndi því að halda mig við loftkælda staði. Þar sem ég er ekki með sjúkratryggingu í Bandaríkjunum flugum við heim í byrjun júlí og biðum eftir Þórdísi.
Við flökkuðum á milli landshorna, fórum margoft í sund, önduðum að okkur fersku íslensku fjallalofti.
Í september mætti Þórdís Yrja á svæðið og breytti lífi okkar til muna. Hún er án alls efa það fallegasta og besta sem ég hef bakað og er svo skemmtileg og kraftmikil að við höfum varla undan.
Og nú erum við komin aftur heim til Brooklyn í litlu stúdíóíbúðina okkar og reynum eftir fremsta megni að gera okkar besta við að sinna Þórdísi, vinna að doktorsritgerðum okkar og elda og baka fyrir bloggið.
Ég vona að þið hafið átt gott, skemmtilegt og viðburðarríkt ár og séuð að fagna nýju ári í faðmi vina og fjölskyldu!
Svona í lokin þá reyndi að velja nokkra af uppáhaldsréttum okkar á þessu ári og verð að viðurkenna að ég átti mjög erfitt með það. Ég geri frekar miklar kröfur til þess sem ég birti á þessari síðu og því fannst mér allt einstaklega ljúffengt. En hér er brot af því besta. [Smellið á mynd til að sjá uppskriftina.]
Takk sömuleiðis fyrir árið frænka mín góð
Svo skemmtileg lesning mín kæra. Áramótakveðja á þig og fallegu feðginin! Mússímúss xxx.
Gleðilegt ár Nanna og fjölskylda og takk fyrir fínt og fallegt blogg! Það er alltaf svo gaman að lesa það sem þú skrifar og uppskriftirnar eru frábærar.
Hjartans kveðjur til Brooklyn (þar á ég eina stóra stelpu, hana Ásu Helgu, stjúpdóttur mína)
Rósa Kristín
Salzburg
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla. Við í Chapel Hill erum orðin ofsalega spennt að hitta hana Þórdísi og ykkur líka.
Skemmtileg færsla Nanna mín. Gleðilegt nýtt ár ! Sakn frá Edinborg xx
Án efa uppáhalds íslenska matarbloggið mitt ! Fallegar myndir og uppskriftirnar dásamlegar, greinilega vandað vel til verka. Takk fyrir að deila þessu öllu saman, finnst pínu eins og ég hljóti að þekkja þig.. En þekki þig nú samt alls ekki ;)
Takk kærlega fyrir það Helena! Það gleður mig mjög mikið að heyra það :) Bestu kveðjur til þín.
Takk fyrir bloggið og til hamingju með allt….á líka dásemdar dömu sem fædd er 2 september og vill vaka allan daginn:-)
Fyllist reglulega andagift á síðunni þinni og baka eða elda eitthvað af þessum frábæra mat:o)
Bestu kveðjur til Brooklyn
Til hamingju með stúlkuna þína sömuleiðis :) Það er gott að heyra að Þórdís sé ekki ein um að vera smá svefnþrjóskupúki.
Takk kærlega fyrir kveðjuna, mér þykir mjög vænt um að heyra að þú hafir gaman af síðunni.