Skip to content

Greip- og hunangsskonsur

Það er svo heitt hérna. Að langflestu leyti finnst mér það eiginlega alveg frábært og nýt þess að finna hitann ná mér inn að beini. En mikið óskaplega langar mig líka út úr borginni, langt frá steinsteypunni, eitthvert út í sveit þar sem ég get legið í grasinu, grillað á kolagrilli og jafnvel dýft tánum í sjó eða vatn. Náttúrulífið í borginni er samt ósköp fallegt og við búum vel að því að búa rétt hjá Prospect Park þar sem maður getur komið sér fyrir undir skugga trjánna, horft á fiðrildin og fuglana og ímyndað sér að maður sé langt frá ys og þys borgarinnar.

Það mætti því ætla að ég væri orðin eitthvað verri að ákveða að kveikja á ofninum og baka þegar úti er glaðasólskin og 32 stiga hiti. Kannski er það ekki svo fjarri lagi en ég var bara svo svöng og mig (eða má ég kenna ófæddu barninu um?) langaði bara í skonsur. Ég átti greipávöxt því í einhverju bjarstýniskasti í Whole Foods sannfærði ég mig um að slíkt væri góður morgunmatur (en svo bjó ég til granóla í staðinn). Sem það örugglega er, en hver verður saddur af einu greipi á morgnana? Þannig að greipið lá fyrir skemmdum þegar ég rakst á þessa uppskrift hjá henni Joy og úr því urðu þessar ljómandi góðu og einkennilega frískandi skonsur.

Má ég mæla með þeim nýbökuðum með smjöri ásamt kaffibolla, með þetta lag á fóninum?

Greip- og hunangsskonsur

(Uppskrift frá Joy the Baker)

  • 190 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1/4 tsk salt
  • 60 g sykur
  • 85 g smjör, kalt og skorið í litla teninga
  • 2 msk hunang
  • 120 ml grísk jógúrt
  • 1 greipávöxtur
  • smá mjólk, til að bursta skonsurnar með

Aðferð:

Hitið ofninn í 220°C / 425°F. Leggið bökunarpappír á ofnplötu og setjið til hliðar.

Hrærið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti í meðalstórri skál. Setjið til hliðar.

Rífið börkinn af greipávextinum með fínu rifjárni ofan á bretti. Hellið sykrinum yfir börkinn og notið bakið á skeið til að nudda berkinum saman við sykurinn. Setjið síðan 2 msk af sykrinum ofan í hveitblönduna, hrærið og geymið afganginn af greipsykrinum.

Skerið því næst botnana af greipávextinum þannig að aldinkjötið sést vel. Skerið því næst börkinn og hvíta merginn frá aldinkjötinu með beittum hníf. Skerið síðan meðfram þunna hýðinu, sem skiptir ávextinum í sneiðar, og skerið þannig hverja sneið úr ávextinum fyrir sig.

Bætið köldu smjörinu saman við hveitiblönduna og nuddið smjörinu saman við með hreinum fingrum. Haldið þessu áfram þar til hveitið verður keimlíkt grófri mjölblöndu. Bætið hunanginu, jógúrtinu og greipsneiðunum saman við og notið gaffal til að blanda blautefnunum saman við þurrefnin. Deigið er frekar blautt, það er í lagi.

Stráið hveiti á hreinan borðflöt og mótið deigið í hringlaga disk, ca. 18 cm breiðan og  rúmlega 2 cm þykkan. Skerið í 6 til 8 sneiðar og færið sneiðarnar yfir á bökunarplötuna. Burstið með smá mjólk og sáldrið afganginum af greipsykrinum yfir skonsurnar.

Bakið í 15 – 17 mínútur, eða þar til skonsurnar eru gylltar að ofan og stífar en mjúkar í miðjunni. Leyfið að kólna í 10 mínútur á plötunni áður en þær eru bornar fram.

Berið fram volgar með smjöri og sultu.

Prenta uppskrift

No comments yet

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: