Skip to content

Posts from the ‘Bakkelsi’ Category

Vöfflur með brúnuðu smjöri

Eftir að ég byrjaði að vinna úti þá hefur fundist minni tími til að sinna blogginu. Ég labba rösklega heim af strætóstoppistöðinni í lok dags og reyni að eyða góðum tíma með Þórdísi á meðan við græjum kvöldmat og svo tekur við kvöldbað hennar og svæfing. Myndavélin liggur ónotuð uppi í hillu og ég verð að viðurkenna að ég finn ekki fyrir nógu miklum innblæstri við myndatöku þegar allt er orðið dimmt og kvöldrútínan rekur á eftir manni.

Það hefur þó margt skemmtilegt gerst undanfarið. Ég fékk að vera með í kökublaði Gestgjafans og bakaði fjórar ljúffengar kökur í tilefni þess. Ég er stóránægð með hvernig tókst til og blaðið er stútfullt af góðum uppskriftum. Ég hef lesið Gestgjafann í fjöldamörg ár og finnst hálfsúrrealískt að þarna í miðju blaði er stór mynd af mér ásamt viðtali. Sérstaklega með tilliti til þess að fyrir fimm árum síðan þorði ég varla að kveikja á ofninum og þurfti að stunda djúpöndun þegar ég átti að elda fyrir aðra.

Ég landaði líka nýrri vinnu sem ég er afar spennt fyrir og get ekki beðið eftir að byrja í. Elmar keypti handa mér blóm daginn sem ég skrifaði undir ráðningarsamning og við héldum upp á það með vínglasi niður í bæ.

Skammdegið er aðeins farið að bíta mig í afturendann og ég finn að ég þarf að venjast aftur myrkrinu sem skellur á alltof snemma og dregur sig í hlé alltof seint. Ég hef þó sett upp jólaseríur og ætla að fara að skreyta íbúðina til að lífga aðeins upp á tilveruna.

Fyrir nokkrum vikum síðan kvartaði ég sáran undan því að hafa ekki fundið hina einu sönnu vöffluuppskrift. Og þó að ég haldi áfram leit minni að fullkomnun þá hef ég staldrað aðeins við þessar vöfflur og búið þær til nokkrar helgar í röð. Þær eru mjög góðar, eilítið stökkar að utan og með bragði af dökkum púðursykri og brúnuðu smjöri. Svolítið syndsamlegar en kaldar og dimmar vetrarhelgar kalla á smá synd og sælu.

SJÁ UPPSKRIFT

Bakaðir kleinuhringir með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr

Ég ætla að segja ykkur frá þessum kleinuhringjum. En fyrst verð ég að dásama íslenska náttúru á fallegum vetrardögum eins og þeim sem við eyddum upp í sveit í bústaði vina okkar um síðustu helgi. Veðrið var stillt – það var snjór yfir jörðu og frost. Næturhimininn skartaði stjörnuprúð líkt og ég hef ekki séð í áraraðir og dagarnir voru letilegir og snérust um mat og drykk. Ég saknaði þess mikið að geta ekki leitað í kyrrðina og fjallaloftið á Íslandi þegar ég bjó í New York. Stundum þegar ég gekk um götur borgarinnar með sírenuvælið í eyrunum, mannmergðina í kringum mig og eilítið ágengan fnyk í nösunum þá lét ég mig dreyma um sveitakyrrð, spörfuglasöng og útsýni um víðan völl. Þetta var útsýnið mitt þegar ég drakk fyrsta kaffibollann á laugardagsmorgninum og ég naut þess mjög:

En þessi færsla átti víst að fjalla um bakaða kleinuhringi með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr. Getum við öll sammælst um það að brúnað smjör sé mögulega best heimi? Því það gefur bakkelsi svo yndislega mikinn karakter. Það sem væri annars frekar staðlað kökudeig verður að einhverju einstöku með þessu móti – eins og í þessum kleinuhringjum. Ég bjó til einfaldan súkkulaðiglassúr ofan á og sáldraði ristuðu kókosmjöli yfir. Kleinuhringirnir voru svo borðaðir með bestu lyst í brönsboði í Vestubænum.

SJÁ UPPSKRIFT

Ólívuolíukaka

Undanfarna morgna hef ég labbað út á uppáhaldskaffihúsið mitt, Glass Shop, í þeirri veiku von að fá margrómuðu ólívuolíukökuna þeirra með kaffibollanum mínum. En hún er alltaf búin. Étin upp til agna af árrisulu vinnandi fólki. Þar sem mér er meinilla við fýluferðir þá fæ ég mér eitthvað annað – pain au chocolat, croissant eða smjördeigshorn með eplabitum. Núna ákvað ég samt að taka málin í mínar eigin hendur og baka álíka köku sjálf til að eiga með kaffinu.

Uppskriftin að þessari köku er upprunalega frá Abraço á Manhattan og birtist í einhverju gömlu Bon Appétit-blaði. Ég gróf hana síðan upp á fallega blogginu hennar Alice Gao. Hún er mild, létt og fullkomin með kaffinu. Upprunalega á að nota sítrónubörk í deigið en ég notaði rifinn börk af greipi – ég hugsa að börkur af öðrum sítrusávöxtum muni líka passa vel. Þetta er mögulega einfaldasta kaka sem ég hef bakað og mig grunar að hún eigi eftir að vera bökuð margoft í framtíðinni þegar von er á góðum gestum í kaffi.

SJÁ UPPSKRIFT

Bláberjaskonsur

Ég fylgdist með fárviðrinu heima úr þægilegum fjarska. Það er ennþá kalt, grátt og vetrarlegt hjá okkur en ég stend mig að því að píra augun ofan í hvert einasta beð í von um að vorið springi út á einu andartaki. Ég hugsa að það sé sérstaklega auðvelt að verða óþreyjufull í bið eftir hlýrri dögum þegar maður býr í svo litlum og þröngum húsakynnum.

Þessar skonsur gera biðina ögn bærilegri. Ég er með skonsur á heilanum þessa dagana en þar sem þær eru langbestar nýbakaðar þá hef ég setið á mér að kaupa þær úti á kaffihúsi. Joy the Baker setti inn færslu um daginn með uppskrift að einföldum skonsum með bláberjum og hlynsírópi sem ég varð að prófa. Ég keypti því bakka af ferskum bláberjum (með lokuð augu því það er langt í að bláberin þroskist á norðurhveli). Ég bakaði lítinn hluta af skonsunum en frysti restina til að eiga síðar (lesist: til að koma í veg fyrir að ég borðaði þær allar á einum degi). Þær eru fullkomnar – léttar í sér, hæfilega sætar og bláberin fallega fjólublá í ljósu brauðinu. Það má nota frosin ber en þá mun deigið litast af berjunum. En það hefur bara áhrif á ytra útlit, ekki bragð.


SJÁ UPPSKRIFT

Gulrótakleinuhringir með límónukremi og valhnetum

Það fer að líða að því að tíminn breytist hérna úti. Í mars endurstillum við klukkuna og töpum einum klukkutíma. Í fyrstu fannst mér þetta skrítinn siður enda ekki vön slíku. Núna þykir mér þetta alveg frábært þó að tilfinningin um að við séum að ,svindla’ á einhvern hátt situr ennþá eftir. Ég er sérstaklega hrifin af því að græða einn klukkutíma af birtu á kvöldin þegar líða fer að vori.

Ég var minnt á gulrótaköku af lesanda (hæ Lilja!) sem ég bjó til alls fyrir löngu. Kakan er alveg fáránlega góð, ég bakaði hana á tveggja ára brúðkaupsafmæli okkar Elmars þegar við héldum upp á það og vorið í Central Park. Það var almennt álit vina okkar að þarna færi besta gulrótakaka sem þau hefðu smakkað. Og þar sem að ég er búin að búa til sömu kleinuhringina aftur og aftur (og aftur) þá mátti ég til með að baka nýja kleinuhringi með þá uppskrift til hliðsjónar.

Fyrsta tilraunin endaði reyndar í ruslinu. Deigið var alltof blautt, var með alltof lítið af gulrótum og helst til of kryddað. Mig langaði samt í kleinuhringi og var búin að bíta það í mig að búa til mína eigin uppskrift. Ég ákvað því að byrja upp á nýtt. Og ég er mjög ánægð með afraksturinn. Kleinuhringirnir eru eins og litlar kökur með fersku kremi og stökkum valhnetum.

SJÁ UPPSKRIFT

Kókos- og möndluskonsur með súkkulaðibitum

Við erum að fá svo marga skemmtilega gesti á næstu mánuðum að ég hef varla undan að bóka íbúðir á Airbnb fyrir mannskapinn. Það eru því mjög skemmtilegir tímar framundan. Ég reyni því að nýta þann nauma tíma sem ég hef frá Þórdísi í að vinna að doktorsverkefninu. Verkefni sem er orðið að svo ógurlegu skrímsli að ég þori stundum ekki að opna glósurnar mínar.

Ég er almennt mjög hrifin af svona skonsum – þær eru fljótlegar, einfaldar og það er auðvelt að frysta þær hráar til að eiga bakkelsi til að stinga beint inn í ofn þegar löngunin kallar. Svo á ég líka yfirleitt allt nauðsynlegt hráefni í þær og eitthvað auka til að hræra saman við. Við vorum mjög hrifin af þessum skonsum, þær voru fullkomnar nýbakaðar með eftirmiðdagskaffibollanum.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: