Skip to content

Gulrótakaka

Dagarnir eru loksins orðnir lengri, sólríkari og hlýrri í borginni okkar. Tré og blóm keppast við að springa út í grænu, bleiku og hvítu og með því fylgir ógnaralda af ferðamönnum sem þyrpast eins og maurar í kringum helstu söfn og mannvirki. Við hjónin ákváðum að nýta tilefnið og fara í lautarferð í Miðgarð með vinum okkar til að halda upp á sumarkomu og (tada!) tveggja ára brúðkaupsafmælið okkar. Og þar sem við héldum enga veislu og vorum með lítið húllumhæ á brúðkaupsdaginn sjálfan þá er auðvitað tilvalið að vera svolítið grand á afmælinu.

Ég komst að því fyrir mjög stuttu að uppáhaldskakan hans Elmars er gulrótakaka. Ég veit ekki alveg hvernig þetta hefur farið fram hjá mér (enda mjög mikilvæg staðreynd) þannig að gulrótakaka var því bökuð í tilefni dagsins og skreytt með tölunni 2 (stundum má maður vera pínu væmin sko). Ég skoðaði örugglega tíu gulrótakökuuppskriftir en var alveg óviss þar til Inga Þórey vinkona mín benti mér á uppskrift frá móður sinni. Þessi uppskrift notar minna krydd en flestar aðrar uppskriftir sem ég rambaði á og er þétt í sér, svolítið blaut og ótrúlega góð. Ég bætti við örlitlu múskati og setti einnig lyftiduft í kökuna þar sem ég var að baka tveggja hæða köku og vildi fá smá meiri lyftingu. Það er hægt að sleppa lyftiduftinu alfarið og nota í staðinn 2 tsk af matasóda. Kakan er frábær og var borðuð upp til agna í garðinum af mikilli lyst.

Gulrótakaka

(Frá Unni Gunnarsdóttur, með smávægilegum breytingum)

  • 2 bollar/335 g púðursykur
  • 2 bollar/270 g hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 1/2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 3 tsk kanill
  • 1/4 tsk múskat
  • 1 1/2 bolli/350 ml olía
  • 4 egg
  • 3 bollar/340 g gulrætur, rifnar
  • 1 bolli/100 g valhnetur
  • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C.

Blandið þurrefnunum vandlega saman. Hrærið olíuna saman við og bætið síðan eggjunum út í, eitt í einu, og hrærið vel saman eftir hvert egg.

Bætið síðan gulrótum, hnetum og vanilludropum og blandið vel saman.

Skiptið deiginu jafnt í tvö 9 tommu form og bakið í miðjum ofni  í ca. 30 mínútur eða þar til kakan hefur bakast í gegn.

Leyfið kökunum að kólna í forminu í 5 mínútur. Losið kökurnar frá forminu og leyfið að kólna alveg á grind.

Smyrjið kreminu (uppskrift neðar) á annan helminginn og setjið síðan hinn helminginn yfir og smyrjið kreminu yfir alla kökuna og meðfram hliðunum. Skreytið með heilum valhnetum.

Kökukrem

(Joy of baking)

[*Uppfærsla: Ég bjó til þessa köku heima á Íslandi um daginn fyrir þrítugsafmæli frænda míns og grét næstum því þegar ég var orðin of sein í veisluna og kremið harðneitaði að þykkna. Það rann út um allt og hélt sér engan veginn á kökunni sama hvað ég bætti við það. Ég prófaði þess vegna að búa til kremið aftur og notaði bandarískan (Philadelphia) rjómaost í stað hins íslenska og kremið var eins og draumur. Eins mikið og ég vil styðja við innlenda framleiðslu þá verð ég að mæla sterklega með því að þið notið bandarískan rjómaost í þetta skiptið. 30/6/2011]

  • 57 g smjör, við stofuhita
  • 227 g rjómaostur
  • 230 g flórsykur, sigtaður
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1-2 tsk sítrónubörkur, rifinn

Aðferð:

Hrærið saman smjör og ost þar til blandan verður kekkjalaus. Blandið flórsykrinum saman við í skömmtum og hrærið þar til blandan verður kekkjalaus og slétt áferðar. Hrærið loks vanilludropunum og sítrónuberkinum saman við.

7 athugasemdir Post a comment
  1. Ragga #

    Sæl
    Hef ótrúlega gaman að skoða uppskriftirnar þínar er loksins að koma þvi í verk að prófa, en þá vantar eggjafjöldan í gulrótarkökuna sem mér líst ótrúlega vel á.
    Láttu þér batna og takk fyrir skemmtilegt blogg.
    Kv. Ragga

    29/05/2011
  2. Sæl Ragga

    Takk fyrir hrósið og ábendinguna! Í kökuna þarf 4 egg. Ég hef lagfært þetta núna og vona að kakan bragðist vel :)

    29/05/2011
  3. Ragnheiður Sigurgeirsdóttir #

    Kakan er uppáhald allra í fjölskyldunni og verður eftirréttur á nýársdag að ósk afmælisbarnsins.

    30/12/2012
  4. Anna #

    Þetta er alveg ótrúlega góð kaka en hefur komið mér í hálfgert klandur. Ég bý í Þýskalandi og þar er ekki til púðursykur og það veit enginn hvað ég er að meina þegar ég reyni að útskýra hvað það er. Ég bakaði kökuna (með púðursykri sem var fluttur persónulega inn fyrir mig) fyrir leikskólaföndurkvöld sonar míns. Nú eru allir foreldrar og starfsfólk að spyrja mig um uppskrift og ég myndi svo gjarnan vilja gefa þeim hana en veit ekki alveg hvernig ég get útskýrt þetta með púðursykurinn. Er alveg off að nota venjulegan sykur eða eru einhver önnur trikk?

    31/10/2013
    • Sæl Anna. Þetta er mjög áhugaverð spurning og ég er búin að pæla mikið í þessu og leggjast í smá internet rannsóknir.

      Púðursykur er í raun venjulegur hvítur sykur blandaður saman við þykkt sykursíróp (molasses). Ef þú getur nálgast melassa (molasses) þá geturðu auðveldlega búið til þinn eigin púðursykur.

      Ef þú finnur ekki melassa þá geturðu notað venjulegan hvítan sykur – það breytir bragðinu svolítið en kakan verður samt góð. Ég hef lesið að það sé hægt að nota kókossykur í staðinn en ég hef aldrei prófað það sjálf. Mig grunar líka að kókossykur sé frekar dýr enda líklegast seldur í lífrænu deildinni í betri búðum.

      Vonandi hjálpar þetta!

      31/10/2013
      • Anna #

        Vá, takk fyrir thetta!
        Er ad reyna ad snara uppskriftinni yfir á thysku, mun baeta thessum frodleik frá ther vid. Thaer verda alsaelar thaer thysku :)

        01/11/2013

Trackbacks & Pingbacks

  1. Gulrótakleinuhringir með límónukremi og valhnetum | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: