Skip to content

Eggjasalat

Í hvert skipti sem ég þarf að kaupa sellerí í einhvern rétt handa okkur þá held ég ræðu yfir Elmari. Hún snýst aðallega um hversu pirrandi mér þykir að þurfa að kaupa risavaxinn vönd með ótalmörgum stilkum þegar flestar uppskriftir þurfa bara einn stilk. Eftir situr sellerívöndurinn og fer strax að mýkjast. Þótt mér þyki sellerí gott þá er ég ekki kona í að kjamsa á því í tíma og ótíma.

Það birti því yfir mér þegar ég sá uppskrift á Smitten Kitchen sem notar pæklað sellerí(!). Svo sniðugt. Svo einfalt. Svo má nýta pæklaða selleríið í meira en eggjasalat, túnfiskssalat og kartöflusalat. Það má til dæmis setja það á grillað brauð eða bara borða það beint upp úr krukkunni. Þetta eggjasalat er það besta sem ég hef fengið – dijonsinnepið gefur því hita, dillið ferskleika og selleríið smá bit og sýru. Eggjasalat í fullkomnu jafnvægi.

Eggjasalat

(Uppskrift frá Smitten Kitchen)

 • 1/4 bolli hvítvínsedik
 • 1/4 bolli vatn
 • 2 tsk salt
 • 1.5 tsk sykur
 • 2 stilkar af sellerí, skornir í litla teninga
 • 4 stór egg
 • 1 matskeið, rúmlega, grófkorna Dijonsinnep
 • 2 tsk skallotlaukur eða rauðlaukur, fínsaxaður (eða meira, eftir smekk)
 • 2 msk majónes eða sýrður rjómi
 • Salt og pipar
 • Ferskt dill, saxað (ég notaði 1 msk og meira til skrauts)

Aðferð:

Hrærið saman í skál (eða hristið saman í krukku) ediki, vatni, sykur og salti þar til sykurinn leysist upp. Setjið selleríbitana ofan í skálina/krukkuna. Lokið með plastfilmu/loki. Geymið í kæli í a.m.k. 30 mínútur og í mesta lagi í viku.

Harðsjóðið eggin og kælið þau alveg. Takið skurnina utan af og skerið eggin í litla bita. Setjið ofan í meðalstóra skál. Setjið rúma 1 msk af selleríinu ofan í skálina ásamt sinnepinu, lauknum, majónesinu, dillinu og smá salti og pipar. Blandið öllu saman. Smakkið salatið til og bætið við því sem ykkur finnst upp á vanta.

Berið fram með ristuðu brauði og fersku dilli.

[Þetta er ekki stór uppskrift. Hún er mjög passleg fyrir þrjá og ég myndi tvöfalda hana ef ég ætti von á gestum.]

Prenta uppskrift

10 athugasemdir Post a comment
 1. Þóra frænka #

  … svo má setja sellerístönglana í vatnsglas í eldhúsglugganum. Þá stinnist hann á ný.

  05/03/2013
  • Ah, en þú sniðug! Ég prófa það næst :)

   05/03/2013
 2. Ó hversu oft hef ég ekki haldið þessa ræðu! Ég þoli ekki þessa risavöxnu sellerívendi, sérstaklega þar sem ég er ekkert sérlega hrifin af selleríi. Mér líkar þó hugmyndin að pækla það og þetta eggjasalat lítur svo æðislega vel út að ég held ég verði að prófa :)

  05/03/2013
  • Þetta er alveg byltingarkennd uppgötvun hjá mér. Ég líka elska pæklað grænmeti :)

   05/03/2013
 3. Hjördís Inga #

  Þetta er mjög spennandi uppskrift sem ég ætla að prófa næst þegar ég kaupi sellerí. Takk fyrir uppskriftina :)

  06/03/2013
 4. Hólmfríður #

  Sæl Nanna, ég fylgist reglulega með blogginu þínu og finnst það frábært! Ég er algjörlega sammála þér með hversu pirrandi það er að þurfa að kaupa risastóran „selleríhlunk“ sem úldnar svo inni í ískáp okkur hagsýnu húsmæðrunum til mikillar armæðu. Eitt gott ráð get ég þó gefið þér sem ég fylgi stundum sjálf þegar þannig liggur á mér (oftar en ekki hlýtur selleríið þó hægt andlát í ísskápnum) en það er að skera afganginn niður í sneiðar og frysta í litlum poka/pokum. Það er mjög fínt að nota það í grænmetiskássur eða súpur og maður finnur eiginlega engan mun miðað við að nota ferskt finnst mér. Nota þetta líka með gulrætur og paprikur og hefur gefist vel. Takk fyrir vel skrifa og skemmtilegt blogg. Bestu kveðjur, Hólmfríður.

  06/03/2013
  • Takk fyrir það Hólmfríður! Ég ætla að reyna að vera aðeins sniðugari með þetta sellerí – frysta það, pækla það og setja það svo í glerkrukku út í glugga :) Takk fyrir gott ráð.

   06/03/2013
 5. Ég ríf alltaf bara af eins marga stilka og ég þarf :) En aldrei hef ég smakkað pæklað sellerí, þarf að prófa!

  06/03/2013
 6. Inga Hlín #

  Takk fyrir frábærar uppskriftir. Ég elska pæklað grænmeti útaf lífinu og er svakalega hrifin af selleríi, svo þetta var e-ð sem ég varð að prófa. Notaði vorlauk í staðin fyrir skallottulauk og ég gæti borðað þetta með skeið!

  06/05/2013
  • Frábært! Þetta salat er alltaf ansi fljótt að klárast hjá okkur (enda borða ég það stundum bara með skeið líka).

   06/05/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: