Skip to content

Ferskar víetnamskar vorrúllur

Við erum nýkomin úr dásamlegu ferðalagi til vina okkar í Norður-Karólínu. Þau búa í Chapel Hill sem er gróinn og fallegur lítill háskólabær. Ferðalagið var afslappandi og skemmtilegt og Þórdís eignaðist nýja litla vinkonu sem hún lítur afskaplega mikið upp til. Raunveruleikinn tók á móti okkur þegar heim kom enda þurfum við að pakka niður íbúðinni, koma kössunum í flutninga, gefa húsgögnin og skila lyklunum. Það verður því nóg að gera næstu daga. Vinkona okkar ætlar svo að lána okkur íbúðina sína á Manhattan svo við getum eytt síðustu helginni okkar laus við áhyggjur af flutningum og íbúðarskilum.

Áður en við fórum til Chapel Hill bjuggum við Elmar til þessar ljúffengu fersku vorrúllur í bakgarðinum. Þær eru mjög viðeigandi á hlýjum (eða í okkar tilfelli, heitum) sumardögum þar sem mann langar aðallega í eitthvað ferskt og létt í magann. Við bjuggum til vorrúllur með kjúklingakjöti en það má auðvitað búa til rúllur með risarækjum eða steikja portóbellósveppi ef fólk borðar ekki kjöt eða fisk.

Rúllurnar eru bestar strax og þeim er rúllað upp en þó má vefja plastfilmu utan um þær og geyma á köldum stað í einn til tvo tíma. Við vorum með þessar leiðbeiningar til hliðsjónar þegar við vorum að gera fyrstu rúllurnar. Sósan okkar var frekar sterk og það er gott að miða við þolmörk þeirra sem borða réttinn þegar chilipiparnum er bætt út í sósuna. Rosalega ljúffengt og gott og mun einfaldara og fljótlegra en það lítur út fyrir að vera.

Ferskar víetnamskar vorrúllur

(Breytt uppskrift úr Bon Appétit, júní 2011)

Sósan:

  • 1/2 bolli ferskur límónusafi
  • 3 msk fiskisósa
  • 3 msk sykur
  • 1 – 2 chilipipar, skornir í þunnar sneiðar (eða eftir smekk, sósan á að vera heit en miðið við þolmörk þeirra sem eru að fara að borða matinn)
  • 1 msk kóríanderlauf, söxuð

Vorrúllurnar:

  • 115 g þunnar núðlur
  • 12 hringlaga hrísgrjónablöð
  • eldað kjúklingakjöt af ca. 1/2 kjúklingi, skorið í mjóar lengjur eða 20 risarækjur, skornar í tvennt langsum
  • 1 bolli fersk basilíkulauf
  • 1 bolli fersk kóríanderlauf
  • 1 bolli fersk myntulauf
  • 1 agúrka, skorin í litla stilka (eins og eldspýtur í laginu)
  • 2 meðalstórar gulrætur, skornar í stilka (eins og eldspýtur í laginu)
  • 12 lítil kálblöð (t.d. lambhagasalat)

Aðferð:

Hrærið saman öllum hráefnunum í sósuna nema kóríanderlaufunum. Setjið plastfilmu yfir og geymið í kæli í amk 1 klukkustund.

Setjið núðlurnar í stóra skál. Hellið sjóðandi heitu vatni yfir þar til það þekur núðlurnar. Leyfið að standa í ca. 10 mínútur eða þar til núðlurnar hafa mýskt. Hellið heita vatninu frá og setjið núðlurnar í stóra skál af ísköldu vatni. Hellið síðan kalda vatninu frá og setjið til hliðar.

Fyllið stóran djúpan disk með volgu vatni.

Gerið síðan eina rúllu í einu.

Bleytið hrísgrjónapappírinn í nokkrar sekúndur þar til pappírinn verður mjúkur en þó ennþá svolítið stamur. Ef hann mýkist um of þá límist hann bara við borðflötinn og það verður erfitt að rúlla honum. (Pappírinn heldur áfram að drekka í sig vatn þegar hann liggur á borðfletinum.)

Leggið blautan pappírinn á borðflöt. Leggið eitt kálblað ofan á þann þriðjung pappírsins sem liggur næst þér. Raðið þvínæst grænmetinu, núðlunum kryddjurtunum, kjúklingnum (eða risarækjunum) ofan á kálblaðið. Haldið fast við fyllinguna og togið hrísgrjónapappírinn yfir fyllinguna og stingið honum síðan undir hluta af fyllingunni og haldið áfram að rúlla. Brjótið saman hliðarnar og klárið síðan að rúlla alla leið. (Gott er að styðjast við þessar myndir.)

Endurtakið með restina af hráefnunum.

Skerið síðan rúllurnar í tvennt og raðið á disk.

Bætið saxaða kóríanderinu saman við sósuna og hrærið.

Berið strax fram.

Prenta uppskrift

4 athugasemdir Post a comment
  1. Salbjörg #

    Langar mjög að prófa þessar

    06/07/2013
  2. Dagga #

    Það getur verið hræðilega gott líka að setja smá hrísgrjónaedik, sojasósu og sesamolíu út í sósuna. Verður dálítið havarí (margir fíla ekki svona bragðhræring) en ég elska hana!

    08/07/2013
    • Namm! Ég ætla að prófa að gera það næst þegar ég bý þær til :)

      08/07/2013

Trackbacks & Pingbacks

  1. Bláber með basil | svartalfar

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: