Ferskar víetnamskar vorrúllur
Við erum nýkomin úr dásamlegu ferðalagi til vina okkar í Norður-Karólínu. Þau búa í Chapel Hill sem er gróinn og fallegur lítill háskólabær. Ferðalagið var afslappandi og skemmtilegt og Þórdís eignaðist nýja litla vinkonu sem hún lítur afskaplega mikið upp til. Raunveruleikinn tók á móti okkur þegar heim kom enda þurfum við að pakka niður íbúðinni, koma kössunum í flutninga, gefa húsgögnin og skila lyklunum. Það verður því nóg að gera næstu daga. Vinkona okkar ætlar svo að lána okkur íbúðina sína á Manhattan svo við getum eytt síðustu helginni okkar laus við áhyggjur af flutningum og íbúðarskilum.
Áður en við fórum til Chapel Hill bjuggum við Elmar til þessar ljúffengu fersku vorrúllur í bakgarðinum. Þær eru mjög viðeigandi á hlýjum (eða í okkar tilfelli, heitum) sumardögum þar sem mann langar aðallega í eitthvað ferskt og létt í magann. Við bjuggum til vorrúllur með kjúklingakjöti en það má auðvitað búa til rúllur með risarækjum eða steikja portóbellósveppi ef fólk borðar ekki kjöt eða fisk.
Rúllurnar eru bestar strax og þeim er rúllað upp en þó má vefja plastfilmu utan um þær og geyma á köldum stað í einn til tvo tíma. Við vorum með þessar leiðbeiningar til hliðsjónar þegar við vorum að gera fyrstu rúllurnar. Sósan okkar var frekar sterk og það er gott að miða við þolmörk þeirra sem borða réttinn þegar chilipiparnum er bætt út í sósuna. Rosalega ljúffengt og gott og mun einfaldara og fljótlegra en það lítur út fyrir að vera.