Skip to content

Posts from the ‘Forréttur’ Category

Ferskar víetnamskar vorrúllur

Við erum nýkomin úr dásamlegu ferðalagi til vina okkar í Norður-Karólínu. Þau búa í Chapel Hill sem er gróinn og fallegur lítill háskólabær. Ferðalagið var afslappandi og skemmtilegt og Þórdís eignaðist nýja litla vinkonu sem hún lítur afskaplega mikið upp til. Raunveruleikinn tók á móti okkur þegar heim kom enda þurfum við að pakka niður íbúðinni, koma kössunum í flutninga, gefa húsgögnin og skila lyklunum. Það verður því nóg að gera næstu daga. Vinkona okkar ætlar svo að lána okkur íbúðina sína á Manhattan svo við getum eytt síðustu helginni okkar laus við áhyggjur af flutningum og íbúðarskilum.

Áður en við fórum til Chapel Hill bjuggum við Elmar til þessar ljúffengu fersku vorrúllur í bakgarðinum. Þær eru mjög viðeigandi á hlýjum (eða í okkar tilfelli, heitum) sumardögum þar sem mann langar aðallega í eitthvað ferskt og létt í magann. Við bjuggum til vorrúllur með kjúklingakjöti en það má auðvitað búa til rúllur með risarækjum eða steikja portóbellósveppi ef fólk borðar ekki kjöt eða fisk.

Rúllurnar eru bestar strax og þeim er rúllað upp en þó má vefja plastfilmu utan um þær og geyma á köldum stað í einn til tvo tíma. Við vorum með þessar leiðbeiningar til hliðsjónar þegar við vorum að gera fyrstu rúllurnar. Sósan okkar var frekar sterk og það er gott að miða við þolmörk þeirra sem borða réttinn þegar chilipiparnum er bætt út í sósuna. Rosalega ljúffengt og gott og mun einfaldara og fljótlegra en það lítur út fyrir að vera.

SJÁ UPPSKRIFT

Ofnbakað blómkál með heslihnetum og granateplafræjum

Ég sá fyrst matreiðslubók eftir Yotam Ottolenghi heima hjá Cressidu vinkonu minni. Bókin, Plenty, var fallega mynduð með einstaklega girnilegum grænmetisréttum og ég einsetti mér að eignast hana. En svo gleymdi ég henni og það var ekki fyrr en nýlega þegar ótalmargir matarbloggarar misstu sig yfir nýjustu bókinni hans að ég stökk á Amazon og pantaði mér þessa nýju bók. Bókin heitir Jerusalem og ég er yfir mig hrifin. Ég er oft mjög spennt fyrir þeim matreiðslubókum sem ég fæ í hendurnar en þessa hef ég ekki getað lagt frá mér.

Jerusalem er eftir þá Ottolenghi og Sami Tamimi en þeir ólust báðir upp í Jerúsalem áður en þeir fluttu til London. Þeir þekktust ekki þá enda ólst Ottolenghi upp í Gyðingahluta borgarinnar en Tamimi í austurhluta hennar, í Arabahverfinu. Núna reka þeir nokkra mjög vinsæla veitingastaði í Bretlandi og eru þekktir fyrir einfaldan en bragðmikinn mat.

Jerusalem er því bók sem einblínir ekki einungis á matarmenningu Gyðinga eða Araba heldur skírskota uppskriftirnar til flestra þeirra mýmörgu menningarhópa í borginni. Ég á eftir að reyna að nálgast sum hráefni sem eru ekki seld í almennum matarmörkuðum hér en ég hlakka mikið til að kíkja í Arabahverfið í Brooklyn til að finna za’atar, harissa og granateplasýróp.

Fyrsti rétturinn sem ég prófaði að elda upp úr bókinni er einfaldur blómkálsréttur (við erum sjúk í blómkál á þessu heimili) með ristuðum heslihnetum og granateplafræjum. Bragðið er ótrúlega margslungið þrátt fyrir fá hráefni og granateplafræin gefa því mikinn ferskleika. Við vorum svo hrifin af honum í gærkvöldi að ég stóðst ekki mátið og stökk út í búð og keypti annan blómkálshaus til að hafa réttinn aftur í hádegismat. Þetta er hugsað sem forréttur eða meðlæti en var alveg nógu saðsamt fyrir þrjá í kvöldmat með smá brauði og hummus.

SJÁ UPPSKRIFT

Bruschetta með ofnbökuðu grænmeti

Ég borða yfirleitt ein á kvöldin tvisvar sinnum í viku. Elmar sækir kvöldfyrirlestra reglulega og á þeim dögum þarf ég að finna mér eitthvað að borða. Það er fátt sem mér finnst leiðinlegra heldur en að eldra fyrir mig eina og því enda þessi kvöld oft í því að ég fæ mér popp í kvöldmat og súkkulaði í eftirmat. Það er allt í lagi á meðan því stendur en yfirleitt fer maginn að láta í sér heyra þegar á líður. Ég er því farin að leita leiða til að búa til eitthvað einstaklega einfalt, gómsætt og létt. Og þessi bruschetta er einmitt það sem ég var að leita að.

SJÁ UPPSKRIFT

Gulróta- og lárperusalat


Ég er búin að setja mér markmið. Ég ætla að halda þessum kryddjurtum á lífi í a.m.k. tvo mánuði. Ég er undirbúin. Jurtirnar eru komnar í leirpotta, í nýja mold og hafa fengið vænan skammt af áburði. Ég keypti harðgerar jurtir sem þurfa ekki vatn á hverjum degi og þurfa ekki 16 klukkustundir af birtu á dag. Ef þær deyja, þá gæti ég endað snöktandi úti í horni. Þetta verða gæludýrin mín næstu vikurnar og lifandi skulu þær vera fyrir jól! En ef þið lumið á einhverjum sniðugum ráðum varðandi svona ræktun þá megið þið endilega deila þeim með mér í athugasemdakerfinu. Ég er nefnilega lítið gefin fyrir að bugast og snökta. Dagsljósið er farið að hverfa úr íbúðinni ansi snemma þessa dagana og ég á eftir að sakna þess að taka myndir í náttúrulegri birtu í gluggakistunni okkar. Ég tók fyrst eftir þessu í dag þegar ég ætlaði að labba með afrakstur kvöldeldamennskunnar út í glugga og uppgötvaði að niðadimmt var orðið úti. Ég hafði búið til þennan stórgóða, einfalda, holla og ódýra rétt í kvöldmatinn. Gulræturnar keypti ég á grænmetismarkaðinum um helgina beint frá uppáhaldsbóndanum mínum og ég er svo ánægð með hversu vel þær fengu að njóta sín í þessu salati. Lárperurnar og sítrónusafinn voru ferskt mótvægi við sætuna sem ofnbaksturinn dró fram í gulrótunum og rétturinn var ótrúlega saðsamur. Það er gott að bera réttinn fram með smá sjávarsalti svo að hver og einn geti kryddað eftir sínum eigin smekk, ég vildi hafa frekar mikð salt á gulrótunum mínum.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskir sumarréttir

Ég er nýkomin til Íslands í stutt stopp. Þegar ég lenti á Keflavíkurflugvelli var heiðskírt og fallegt en þriggja stiga hiti. Þriggja! Daginn sem ég fór frá New York var 30 stiga hiti og sól. Það var því úfin, ferðaþreytt og úrill ég sem gekk á móti Suðurnesjavindinum úr Leifsstöð.

Við nýttum samt síðustu dagana í hlýjunni í New York vel. Við eyddum tveimur dögum í Brooklyn þar sem við flökkuðum á milli bjórgarða og skoðuðum ný svæði þar sem næsta húsnæði okkar gæti leynst. Við settumst út á kvöldin, fengum okkur vínglas og nutum þess að eiga nokkra frídaga saman – en það hefur ekki farið mikið fyrir þeim þessa önnina.

En þrátt fyrir veður og vind þá er alltaf gott að koma ,heim’. Ég saknaði brauðostsins í risaumbúðunum, kalda ferska vatnsins úr krananum og fiskréttanna úr Fylgifiskum. En ég saknaði þó sérstaklega þagnarinnar, tístsins í fuglunum og gjallið í Tjaldinum í fjörunni fyrir utan gluggann minn heima hjá mömmu og pabba. Kærkomin breyting frá hinum stanslausa niði og hávaða stórborgarinnar.

Ég vildi auðvitað komast í eldhúsið sem fyrst og búa til einhverja dásemd handa fjölskyldunni minni. Að lokum ákvað ég að búa til tvo rétti sem hafa lengi verið á matardagskránni. Ég bjó til tælenskan hrísgrjónarétt með ananas og nautakjöti en í forrétt hafði ég djúpsteiktar risarækjur í bjórdeigi. Ég var reyndar eins og hauslaus hæna í eldhúsinu þeirra til að byrja með. Skipulagið ruglaði mig í ríminu og ég ætlaði aldrei að finna nauðsynleg hráefni og tól. Pabbi greip loks inn í  og gaf mér ráðleggingar varðandi steikingu á kjötinu (þar sem ég elda næstum því aldrei kjöt úti) og ananashreinsun. Útkoman var mjög ljúffeng. Ég breytti frá uppskriftinni og hafði soja- og chilimarinerað nautakjöt í staðinn fyrir tofu til að gefa réttinum aðeins meiri hita (og auðvitað sem afsökun til að matreiða kjöt). Djúpsteikingin á rækjunum var aðeins ævintýralegri, sem ótalmargir litlir brunablettir bera vott um, en þær voru svo ljúffengar umvafðar stökku djúpsteiktu bjórdeigi.

SJÁ MEIRA

%d bloggurum líkar þetta: