Skip to content

Gulróta- og lárperusalat


Ég er búin að setja mér markmið. Ég ætla að halda þessum kryddjurtum á lífi í a.m.k. tvo mánuði. Ég er undirbúin. Jurtirnar eru komnar í leirpotta, í nýja mold og hafa fengið vænan skammt af áburði. Ég keypti harðgerar jurtir sem þurfa ekki vatn á hverjum degi og þurfa ekki 16 klukkustundir af birtu á dag. Ef þær deyja, þá gæti ég endað snöktandi úti í horni. Þetta verða gæludýrin mín næstu vikurnar og lifandi skulu þær vera fyrir jól! En ef þið lumið á einhverjum sniðugum ráðum varðandi svona ræktun þá megið þið endilega deila þeim með mér í athugasemdakerfinu. Ég er nefnilega lítið gefin fyrir að bugast og snökta. Dagsljósið er farið að hverfa úr íbúðinni ansi snemma þessa dagana og ég á eftir að sakna þess að taka myndir í náttúrulegri birtu í gluggakistunni okkar. Ég tók fyrst eftir þessu í dag þegar ég ætlaði að labba með afrakstur kvöldeldamennskunnar út í glugga og uppgötvaði að niðadimmt var orðið úti. Ég hafði búið til þennan stórgóða, einfalda, holla og ódýra rétt í kvöldmatinn. Gulræturnar keypti ég á grænmetismarkaðinum um helgina beint frá uppáhaldsbóndanum mínum og ég er svo ánægð með hversu vel þær fengu að njóta sín í þessu salati. Lárperurnar og sítrónusafinn voru ferskt mótvægi við sætuna sem ofnbaksturinn dró fram í gulrótunum og rétturinn var ótrúlega saðsamur. Það er gott að bera réttinn fram með smá sjávarsalti svo að hver og einn geti kryddað eftir sínum eigin smekk, ég vildi hafa frekar mikð salt á gulrótunum mínum.

Gulróta- og lárperusalat

(Breytt uppskrift frá Smitten Kitchen)

 • 500 g gulrætur, skornar í 3 sm stóra bita
 • 3 msk ólívuolía
 • 1 msk hvítvínsedik eða sjerríedik [má sleppa]
 • 1/2 tsk kúmin
 • Sjávarsalt og ferskur malaður pipar
 • 1 lítil lárpera, afhýdd og skorin í sneiðar
 • Safi úr hálfri sítrónu

Aðferð:

Hitið ofninn í 200 C.

Setjið gulrótarbitana í ofnskúffu og hellið yfir 2 msk ólívuolíu og edikinu, sáldrið kúmini yfir og saltið og piprið hressilega (það er gott að vega upp á móti sætunni í ofnbökuðu gulrótunum). Veltið ölu vel saman. Setjið inn í ofn og bakið í 20 til 30 mínútur eða þar til gulræturnar eru mjúkar.

Skiptið á tvo diska. Leggið lárperuna yfir, hellið sítrónusafa og 1 msk af ólívuolíu yfir (1/2 msk yfir hvorn disk). Berið strax fram með salti og pipar.

Fyrir 2

4 athugasemdir Post a comment
 1. Takk fyrir mig. Mér líður einsog ég hafi verið að borða alvöru gulrætur í fyrsta skipti á ævinni.

  16/10/2011
 2. Hafdís Miller #

  Mér sýnist önnur jurtin vera Rosemary, hún er nú ansi harðgerð. Eins lengi og hún frýs ekki þá ætti hún að vera í lagi. Ég bý á Florida sem er nú töluvert heitara en ég er með Rosmary í bakgarðinum og hún er nánast að sjá um sig sjálf.. þurfti bara nokkru sinnum að vökva hana í sumar út af hita en annnars hefur hún þrefaldast í stærð frá því ég stakk henni niður í Mars. Gangi þér vel! Mjög gaman að fylgjast með eldamenskunni þinni.

  18/10/2011
  • Takk fyrir það! Ég einmitt keypti rósmarín og timjan til að byrja með þar sem þær eiga að vera ágætlega sjálfstæðar. Ég færi mig svo upp á skaftið ef allt gengur vel :) Takk kærlega fyrir ráðið og hrósið!

   18/10/2011

Trackbacks & Pingbacks

 1. Gulrótarsalat með lárperum, klettasalati og sýrðum rjóma | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: