Skip to content

Posts from the ‘Vegan’ Category

Soba með wakame og sesamfræjum

Elmar fer til Riga í dag þar sem hann mun eyða nokkrum dögum í að hlusta á og tala um heimspeki. Ég væri örugglega svolítið afbrýðissöm ef ég ætti ekki von á systur minni á allra næstu dögum. Ég hlakka ofboðslega mikið til enda eru ferðir hennar til New York með skemmtilegri viðburðum ársins. Við erum ansi samstilltar þegar það kemur að ferðalögum. Einu búðirnar sem farið er í eru vín-, matar- og búsáhaldabúðir og dagarnir snúast um rólega göngutúra, bakstur, mat og drykki.

Þessi réttur er kannski ekki allra. Ég er mjög hrifin af þurrkuðum þara og get auðveldlega borðað heilan pakka ein – sérstaklega með bjór. En sumir eru ekki á sama máli og til að fíla þennan rétt þá þarf manni að finnast þari bragðgóður. Annars má örugglega sleppa þaranum og setja ofnbakað eggaldin í staðinn. Jafnvægið í réttinum er  með besta móti – ferskleikinn frá agúrkunum og kryddjurtunum vegur vel á móti seltunni í þaranum og sesamfræin gefa smá kröns. Sósan er sæt, súr og með smá chilihita. Þetta er stór skammtur og seðjandi. Hann entist okkur Elmari í þrjár máltíðir.

SJÁ UPPSKRIFT

Soba með eggaldini og mangó

Ayesha vinkona mín gaf mér bókina Plenty fyrir nokkru og ég tók mér góðan tíma í að fletta í gegnum hana áður en ég ákvað hvaða uppskrift mig langaði til að prófa fyrst. Kannski ætti það ekki að koma mér á óvart að sá réttur sem ég staldraði oftast við var sobanúðluréttur. Þegar ég bjó í Japan borðaði ég ógrynni af núðlum og í sérstöku uppáhaldi hjá mér var yakisoba – pönnusteiktar núðlur með káli, engiferi og kjúklingi í ótrúlega ljúffengri sósu. Ég hef margoft reynt að búa til yakisoba utan Japans en ég næ aldrei að framkalla þetta sérkennilega bragð sem ég varð svo hrifin af.

Þessi réttur er þó ekki mjög japanskur þótt hann noti klassískar japanskar núðlur en það kemur þó ekki að sök. Rétturinn er einstaklega léttur en þó seðjandi, sætan í mangóinum vegur vel upp á móti lauknum og olíusteiktu eggaldinu og heill haugur af ferskum kryddjurtum setur punktinn yfir i-ið. Við höfum búið þennan rétt til tvisvar núna og hann endist okkur tveimur auðveldlega í  þrjár máltíðir. Ottolenghi mælir líka með því að búa hann til og leyfa honum að hvílast í einn til tvo klukkutíma áður en hann er borinn fram. Ég hef ekki gert það ennþá en hugsa að það sé mjög sniðugt að búa þennan rétt til næst þegar við fáum fólk í mat. Þá hef ég kannski tíma til að bursta á mér hárið og þvo mér í framan áður en gestirnir mæta.

SJÁ UPPSKRIFT

Pönnusteikt flatbrauð

Elmar kennir í Brooklyn College á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum. Vinnu- og skólavikunni hans lýkur reyndar á fimmtudögum eftir kennslu og því hef ég komið mér upp þeim sið að búa til eitthvað handa okkur í hádeginu þegar hann kemur heim. Þannig hef ég eitthvað gott til að deila með ykkur áður en helgin gengur í garð og við Elmar  getum átt góða og afslappandi stund saman (ef Þórdís leyfir). Tvær flugur í einu höggi.

Í gær bjó ég til þessi einföldu og hollu flatbrauð og bar þau fram með (óhefðbundnu) tzatziki og reyktum laxi. Það tekur enga stund að henda þessu deigi saman, svo er það látið hefast í klukkutíma, skipt niður í parta og steikt á pönnu í örfáar mínútur. Ég þori næstum því að veðja að þið eigið öll hráefnin í það uppi í skáp. Það má bera brauðin fram með ýmsum mat, ídýfum og jafnvel eggja- eða rækjusalati.

SJÁ UPPSKRIFT

Ofnbakað blómkál með heslihnetum og granateplafræjum

Ég sá fyrst matreiðslubók eftir Yotam Ottolenghi heima hjá Cressidu vinkonu minni. Bókin, Plenty, var fallega mynduð með einstaklega girnilegum grænmetisréttum og ég einsetti mér að eignast hana. En svo gleymdi ég henni og það var ekki fyrr en nýlega þegar ótalmargir matarbloggarar misstu sig yfir nýjustu bókinni hans að ég stökk á Amazon og pantaði mér þessa nýju bók. Bókin heitir Jerusalem og ég er yfir mig hrifin. Ég er oft mjög spennt fyrir þeim matreiðslubókum sem ég fæ í hendurnar en þessa hef ég ekki getað lagt frá mér.

Jerusalem er eftir þá Ottolenghi og Sami Tamimi en þeir ólust báðir upp í Jerúsalem áður en þeir fluttu til London. Þeir þekktust ekki þá enda ólst Ottolenghi upp í Gyðingahluta borgarinnar en Tamimi í austurhluta hennar, í Arabahverfinu. Núna reka þeir nokkra mjög vinsæla veitingastaði í Bretlandi og eru þekktir fyrir einfaldan en bragðmikinn mat.

Jerusalem er því bók sem einblínir ekki einungis á matarmenningu Gyðinga eða Araba heldur skírskota uppskriftirnar til flestra þeirra mýmörgu menningarhópa í borginni. Ég á eftir að reyna að nálgast sum hráefni sem eru ekki seld í almennum matarmörkuðum hér en ég hlakka mikið til að kíkja í Arabahverfið í Brooklyn til að finna za’atar, harissa og granateplasýróp.

Fyrsti rétturinn sem ég prófaði að elda upp úr bókinni er einfaldur blómkálsréttur (við erum sjúk í blómkál á þessu heimili) með ristuðum heslihnetum og granateplafræjum. Bragðið er ótrúlega margslungið þrátt fyrir fá hráefni og granateplafræin gefa því mikinn ferskleika. Við vorum svo hrifin af honum í gærkvöldi að ég stóðst ekki mátið og stökk út í búð og keypti annan blómkálshaus til að hafa réttinn aftur í hádegismat. Þetta er hugsað sem forréttur eða meðlæti en var alveg nógu saðsamt fyrir þrjá í kvöldmat með smá brauði og hummus.

SJÁ UPPSKRIFT

Rósakálssalat með eplum og heslihnetum

Hérna vetrar aðeins seinna en á Íslandi og það er greinilegt að árstíðaskiptin nálgast. Prospect Park skartaði þó ennþá haustlegri fegurð þegar við litla fjölskyldan fórum í gönguferð á Þakkargjörðardag. Þórdís Yrja vex og dafnar hratt og er farin að sýna mjög sterkan vilja. Þetta gerir það að verkum að ég er ekki búin að skrifa mikið, ekki byrjuð að baka jólasmákökur og þegar ég ætlaði að skreyta íbúðina um daginn náði ég einungis að setja upp eina og hálfa ljósaseríu. En hún gerir dagana svo skemmtilega að ég sýti það ekki hvað tíminn flýgur frá mér.

Í öllum þessum hasar reyni ég að gleyma því ekki að borða. Ég átti afgang af rósakáli frá Þakkargjörðinni sem ég notaði í þetta frískandi salat. Ég er mjög hrifin af því að nota hnetur í salöt og var mjög hrifin af því að nota heslihnetur í þetta skiptið.

SJÁ UPPSKRIFT

Rósakálssalat með hlynsírópsgljáðum pekanhnetum

Ég er ennþá að jafna mig á hversu litla afganga við áttum frá Þakkargjörðarboðinu okkar og hversu fljótt þeir kláruðust. Mig langar alveg sjúklega mikið í meiri kalkún, sósu og stöppu. Ætli ég verði ekki að grenja okkur inn í eitthvert matarboð þegar að því kemur en við verðum komin aftur út til Brooklyn þegar hátíðin gengur í garð. Mig kitlar í magann við tilhugsunina um að komast aftur í litlu íbúðina okkar, rölta um fallega hverfið og koma lífinu í fastar skorður. Því þó að það sé alltaf gott að vera heima á Íslandi þá finn ég sterklega að líf okkar og heimili er í Bandaríkjunum.

Ég keypti rósakál í Kosti fyrir þessa uppskrift og það var fallegt og ferskt (svona miðað við að hafa verið flutt in frá Bandaríkjunum). Ég gat líka keypt risapoka af pekanhnetum sem var nóg fyrir bæði þennan rétt og pekanbitana.  Sinnepsdressingin passar vel við þetta allt saman, hún er létt og er ekki eins yfirþyrmandi og margar aðrar sem hafa meira fituinnihald. Ef þið eruð að leita að góðu salati með rósakáli og þetta er ekki alveg að falla í kramið þá bjó ég til salat úr grænkáli og rósakáli í fyrra sem var afskaplega gott og var étið upp til agna í Þakkargjörðarpartýinu.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: