Skip to content

Soba með eggaldini og mangó

Ayesha vinkona mín gaf mér bókina Plenty fyrir nokkru og ég tók mér góðan tíma í að fletta í gegnum hana áður en ég ákvað hvaða uppskrift mig langaði til að prófa fyrst. Kannski ætti það ekki að koma mér á óvart að sá réttur sem ég staldraði oftast við var sobanúðluréttur. Þegar ég bjó í Japan borðaði ég ógrynni af núðlum og í sérstöku uppáhaldi hjá mér var yakisoba – pönnusteiktar núðlur með káli, engiferi og kjúklingi í ótrúlega ljúffengri sósu. Ég hef margoft reynt að búa til yakisoba utan Japans en ég næ aldrei að framkalla þetta sérkennilega bragð sem ég varð svo hrifin af.

Þessi réttur er þó ekki mjög japanskur þótt hann noti klassískar japanskar núðlur en það kemur þó ekki að sök. Rétturinn er einstaklega léttur en þó seðjandi, sætan í mangóinum vegur vel upp á móti lauknum og olíusteiktu eggaldinu og heill haugur af ferskum kryddjurtum setur punktinn yfir i-ið. Við höfum búið þennan rétt til tvisvar núna og hann endist okkur tveimur auðveldlega í  þrjár máltíðir. Ottolenghi mælir líka með því að búa hann til og leyfa honum að hvílast í einn til tvo klukkutíma áður en hann er borinn fram. Ég hef ekki gert það ennþá en hugsa að það sé mjög sniðugt að búa þennan rétt til næst þegar við fáum fólk í mat. Þá hef ég kannski tíma til að bursta á mér hárið og þvo mér í framan áður en gestirnir mæta.

Soba með eggaldini og mangó

(Uppskrift frá Yotam Ottolenghi: Plenty)

 • ½ bolli hrísgrjónaedik
 • 3 msk sykur
 • ½ tsk salt
 • 2 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
 • ½ ferskt rautt chili, fínt saxað
 • 1 msk ristuð sesamolía
 • rifinn börkur og safi af 1 límónu
 • 1 bollli sólblómaolía
 • 2 eggaldin, skorin í 2 sm teninga
 • 250 g sobanúðlur
 • 1 stórt mango, skorið í ½ sm þykkar sneiðar
 • rúmur 1 bolli söxuð basilíkulauf
 • rúmir 2 bollar söxuð kóríanderlauf
 • ½ rauðlaukur, skorinn í mjög þunnar sneiðar

Aðferð:

Hitið edikið, sykurinn og saltið í litlum potti yfir lágum hita þar til sykurinn hefur leysts upp. Takið af hitanum og bætið hvítlauk, chili og sesamolíu út í. Leyfið að kólna og bætið síðan límónuberkinum og límónusafanum út í.

Hitið helminginn af sólblómaolíunni í stórri pönnu (ég notaði wok) og steikið eggaldinbitana í 3 eða 4 skömmtum. Bætið við hinum helmingnum af olíunni þegar það er lítið eftir af olíu á pönnunni. Steikið eggaldinið þar til það verður gyllt/brúnt á litinn. Flytjið steiktu eggaldinbitana yfir í sigti (leggið sigtið yfir skál eða vask) og stráið smá salti yfir.

Á meðan eggaldinið steikist skal ná suðu upp í potti af vatni. Sjóðið sobanúðlurnar samkvæmt upplýsingum á pakka, hrærið af og til. Hellið síðan vatninu frá og skolið núðlurnar vel með köldu vatni. Hristið sem mest af vatninu frá og leyfið síðan að þorna aðeins á eldhúspappír.

Takið fram stóra skál og blandið saman núðlunum, dressingunni, mangóinu, eggaldinbitunum, lauknum* og helmingnum af kryddjurtunum.

[*Mér finnst gott að leyfa lauknum að liggja í nokkrar mínútur í edikdressingunni til að taka mesta bitið úr honum.]

Núna má geyma réttinn í 1 – 2 klukkutíma áður en hann er borinn fram (það má líka bera hann fram strax). Sáldrið afganginum af kryddjurtunum yfir réttinn áður en hann er borinn fram.

Fyrir 6

Prenta uppskrift

3 athugasemdir Post a comment
 1. Oh en gaman að hafa búið í Japan! Draumurinn minn að fara þangað! Þessar núðlur líta mjög vel út. Maðurinn minn hefur verið aðeins í S-Kóreu síðastliðin ár og hefur gefið mér kóreskar matreiðslubækur. Ég hef ekki prófað eina einustu uppskrift! Þær eru annaðhvort eitthvað svo rosalega sérstakar eða þá að mig vantar alltaf einhver hráefni sem fást ekki hér. Hann er að fara þangað aftur í næstu viku og ég var að velta fyrir mér að láta hann kaupa mat. Einhverjar núðlur, sósur og kryddpaste. Kannski þekkir þú til og getur mælt með einhverju sérstöku??? :)

  28/02/2013
  • Ég er ekkert sérstaklega kunnug kóreskri matargerð, ég hef borðað kóreskan mat þó nokkrum sinnum en aldrei eldað hann sjálf. Í núðlum myndi ég kaupa sobanúðlur úr bókhveiti (buckwheat) og udon núðlur, einhverja gæða ristaða sesamolíu, hrísgrjónaedik (ef það fæst ekki hjá þér), og Gochujang (kóreskt chilimauk). Þurrkaðar fiskiflögur (bonito) eru mikið notaðar í japanskri matargerð og mér finnast þær eiginlega ómissandi í mörgum réttum því þær eru með svo sérstakt bragð.

   Þetta er svona það sem mér dettur í hug í fljótu bragði. Vonandi hjálpaði þetta eitthvað :)

   01/03/2013
   • Takk kærlega fyrir þetta :) Komið á innkaupalistann! Kveðja frá Frakklandi, Ásdís

    01/03/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: