Skip to content

Posts from the ‘Asískt’ Category

Ferskar víetnamskar vorrúllur

Við erum nýkomin úr dásamlegu ferðalagi til vina okkar í Norður-Karólínu. Þau búa í Chapel Hill sem er gróinn og fallegur lítill háskólabær. Ferðalagið var afslappandi og skemmtilegt og Þórdís eignaðist nýja litla vinkonu sem hún lítur afskaplega mikið upp til. Raunveruleikinn tók á móti okkur þegar heim kom enda þurfum við að pakka niður íbúðinni, koma kössunum í flutninga, gefa húsgögnin og skila lyklunum. Það verður því nóg að gera næstu daga. Vinkona okkar ætlar svo að lána okkur íbúðina sína á Manhattan svo við getum eytt síðustu helginni okkar laus við áhyggjur af flutningum og íbúðarskilum.

Áður en við fórum til Chapel Hill bjuggum við Elmar til þessar ljúffengu fersku vorrúllur í bakgarðinum. Þær eru mjög viðeigandi á hlýjum (eða í okkar tilfelli, heitum) sumardögum þar sem mann langar aðallega í eitthvað ferskt og létt í magann. Við bjuggum til vorrúllur með kjúklingakjöti en það má auðvitað búa til rúllur með risarækjum eða steikja portóbellósveppi ef fólk borðar ekki kjöt eða fisk.

Rúllurnar eru bestar strax og þeim er rúllað upp en þó má vefja plastfilmu utan um þær og geyma á köldum stað í einn til tvo tíma. Við vorum með þessar leiðbeiningar til hliðsjónar þegar við vorum að gera fyrstu rúllurnar. Sósan okkar var frekar sterk og það er gott að miða við þolmörk þeirra sem borða réttinn þegar chilipiparnum er bætt út í sósuna. Rosalega ljúffengt og gott og mun einfaldara og fljótlegra en það lítur út fyrir að vera.

SJÁ UPPSKRIFT

Kaldar núðlur með pækluðu grænmeti og kóríander

Það er komið sumar í borginni og ég gæti ekki verið glaðari. Konurnar eru farnar að ganga í fallegu sumarkjólunum sínum, garðurinn er þéttsetinn og bændamarkaðurinn verður meira spennandi með hverri vikunni. Ég ætla njóta hitans og rakans til fullnustu áður en ég flyt aftur heim til Íslands. Eini gallinn á gjöf Njarðar er sá að íbúðin okkar verður mjög heit og það er erfitt að berjast gegn þunga loftinu sem sest þar að. Eigendurnir eru ekki byrjaðir að kæla og því reyni ég að kveikja sem minnst á eldavélinni og ég er í sjálfskipuðu banni frá ofninum þar til veðrið kólnar eða kveikt verður á kælingunni.

Ég var að fletta í gegnum nýjasta tölublað Bon Appétit en þar er að finna mjög sumarlegar uppskriftir. Meðal þeirra er þessi fíni núðlusalatsréttur sem er einfaldur, ferskur, ódýr og maður þarf aðeins að kveikja á eldavélinni til að sjóða núðlurnar. Allt hráefni ætti að fást í hann heima nema kannski daikon*. Daikon er japönsk rófa, hvít að lit, fremur vatnsmikil og mild á bragðið. Það ætti samt ekki að saka að skipta henni út fyrir radísur eða jafnvel venjulega rófu. Við vorum mjög hrifin af þessum rétti og ég hugsa að hann verður vikulega á matseðlinum í sumar.

*Daikon er víst kínahreðka og ætti að fást í Bónus (takk fyrir upplýsingarnar Inga Hlín).

SJÁ UPPSKRIFT

Soba með wakame og sesamfræjum

Elmar fer til Riga í dag þar sem hann mun eyða nokkrum dögum í að hlusta á og tala um heimspeki. Ég væri örugglega svolítið afbrýðissöm ef ég ætti ekki von á systur minni á allra næstu dögum. Ég hlakka ofboðslega mikið til enda eru ferðir hennar til New York með skemmtilegri viðburðum ársins. Við erum ansi samstilltar þegar það kemur að ferðalögum. Einu búðirnar sem farið er í eru vín-, matar- og búsáhaldabúðir og dagarnir snúast um rólega göngutúra, bakstur, mat og drykki.

Þessi réttur er kannski ekki allra. Ég er mjög hrifin af þurrkuðum þara og get auðveldlega borðað heilan pakka ein – sérstaklega með bjór. En sumir eru ekki á sama máli og til að fíla þennan rétt þá þarf manni að finnast þari bragðgóður. Annars má örugglega sleppa þaranum og setja ofnbakað eggaldin í staðinn. Jafnvægið í réttinum er  með besta móti – ferskleikinn frá agúrkunum og kryddjurtunum vegur vel á móti seltunni í þaranum og sesamfræin gefa smá kröns. Sósan er sæt, súr og með smá chilihita. Þetta er stór skammtur og seðjandi. Hann entist okkur Elmari í þrjár máltíðir.

SJÁ UPPSKRIFT

Soba með eggaldini og mangó

Ayesha vinkona mín gaf mér bókina Plenty fyrir nokkru og ég tók mér góðan tíma í að fletta í gegnum hana áður en ég ákvað hvaða uppskrift mig langaði til að prófa fyrst. Kannski ætti það ekki að koma mér á óvart að sá réttur sem ég staldraði oftast við var sobanúðluréttur. Þegar ég bjó í Japan borðaði ég ógrynni af núðlum og í sérstöku uppáhaldi hjá mér var yakisoba – pönnusteiktar núðlur með káli, engiferi og kjúklingi í ótrúlega ljúffengri sósu. Ég hef margoft reynt að búa til yakisoba utan Japans en ég næ aldrei að framkalla þetta sérkennilega bragð sem ég varð svo hrifin af.

Þessi réttur er þó ekki mjög japanskur þótt hann noti klassískar japanskar núðlur en það kemur þó ekki að sök. Rétturinn er einstaklega léttur en þó seðjandi, sætan í mangóinum vegur vel upp á móti lauknum og olíusteiktu eggaldinu og heill haugur af ferskum kryddjurtum setur punktinn yfir i-ið. Við höfum búið þennan rétt til tvisvar núna og hann endist okkur tveimur auðveldlega í  þrjár máltíðir. Ottolenghi mælir líka með því að búa hann til og leyfa honum að hvílast í einn til tvo klukkutíma áður en hann er borinn fram. Ég hef ekki gert það ennþá en hugsa að það sé mjög sniðugt að búa þennan rétt til næst þegar við fáum fólk í mat. Þá hef ég kannski tíma til að bursta á mér hárið og þvo mér í framan áður en gestirnir mæta.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælensk karrísúpa með núðlum og risarækjum

Ég er smám saman að venjast móðurhlutverkinu. Svona í gegnum móðuna sem svefnleysi og brjóstagjöf skapa. Dagarnir líða hratt og mér finnst ég varla farin á fætur þegar það fer að rökkva og ég berst við að halda augunum opnum. Ég var eiginlega búin að gleyma hversu hratt það haustar á Íslandi og hversu ótrúlega stutt þessi árstíð er hérna heima. Mér finnst eins og veturinn sé rétt handan við hornið með tilheyrandi skammdegi og kulda. Satt best að segja sakna ég milda haustsins í New York og ég sé bændamarkaðinn okkar í hillingum þegar ég hugsa um matargerð þessa dagana. En haustfegurðin á Íslandi er mikil og við ákváðum að fara í bíltúr á Þingvelli til að njóta litanna og veðursins í gær. Mér þykir afskaplega vænt um Þingvelli en ég vann þar sem landvörður nokkur sumur og þekki því þjóðgarðinn mjög vel.

Það er orðið alltof langt síðan ég setti inn færslu af einhverju sem ekki er sætt og eftirréttarvænt. Og með lækkandi sól og hitastigi er tilvalið að malla súpu. Þessi súpa er ofboðslega góð, hún er krydduð og með miklu engiferi og sítrusávöxtum. Núðlurnar og kartöflurnar gera hana matarmikla og seðjandi og mér finnst mjög mikilvægt að strá fullt af ferskum kóríanderlaufum yfir súpuskálina. Ég notaði risarækjur en upprunalega uppskriftin notaði kjúklingabringur og því má auðvitað skipta rækjunum út fyrir ódýrara hráefni. Ég notaði alltof mikið af núðlum þegar ég bjó réttinn til þannig að ég hef minnkað magnið töluvert í uppskriftinni hér að neðan.

SJÁ UPPSKRIFT

Lambasalat með chili og myntu

Þá er ég búin að flýja hitabylgjuna miklu í Brooklyn og er komin í öllu þægilegra loftslag hérna heima á Íslandi. Það er eiginlega ekkert grín að vera í 35 stiga hita og glaðasólskini komin sjö mánuði á leið. Ég var farin að halda til að mestu leyti innandyra  þar sem loftkælingin var á fullu. Enda mátti ég eiginlega ekki við öðru eftir að hafa fengið hitaslag eftir einn heitan sólardag utandyra. Ég þakka því bara fyrir köldu goluna og fallega endalausa bláa himininn yfir sumarklæddu landinu. Litla krílið virðist líka una sátt við sitt og treður hælnum reglulega eins langt upp undir rifbein og hún mögulega kemst.

Ég kvarta líka ekki yfir því að vera komin í foreldrahús þar sem ég er í miklu yfirlæti og dekri. Mamma bjó til lambasalat handa okkur um daginn og ég er yfir mig hrifin af því. Það er einstaklega fljótlegt (enda eldað úr bókinni Nigella með hraði), ljúffengt og fallega grænt skreytt með fagurrauðu söxuðu chili. Salatsósan er með asísku ívafi og gefur kjötinu skemmtilegt mótvægi. Það er auðvitað best að hafa lambakjötið eldað að utan en rautt og meyrt að innan, skorið í þunnar sneiðar og dreift yfir salatblöðin.

Passið bara að hundurinn komist ekki í matinn.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: