Skip to content

Tælensk karrísúpa með núðlum og risarækjum

Ég er smám saman að venjast móðurhlutverkinu. Svona í gegnum móðuna sem svefnleysi og brjóstagjöf skapa. Dagarnir líða hratt og mér finnst ég varla farin á fætur þegar það fer að rökkva og ég berst við að halda augunum opnum. Ég var eiginlega búin að gleyma hversu hratt það haustar á Íslandi og hversu ótrúlega stutt þessi árstíð er hérna heima. Mér finnst eins og veturinn sé rétt handan við hornið með tilheyrandi skammdegi og kulda. Satt best að segja sakna ég milda haustsins í New York og ég sé bændamarkaðinn okkar í hillingum þegar ég hugsa um matargerð þessa dagana. En haustfegurðin á Íslandi er mikil og við ákváðum að fara í bíltúr á Þingvelli til að njóta litanna og veðursins í gær. Mér þykir afskaplega vænt um Þingvelli en ég vann þar sem landvörður nokkur sumur og þekki því þjóðgarðinn mjög vel.

Það er orðið alltof langt síðan ég setti inn færslu af einhverju sem ekki er sætt og eftirréttarvænt. Og með lækkandi sól og hitastigi er tilvalið að malla súpu. Þessi súpa er ofboðslega góð, hún er krydduð og með miklu engiferi og sítrusávöxtum. Núðlurnar og kartöflurnar gera hana matarmikla og seðjandi og mér finnst mjög mikilvægt að strá fullt af ferskum kóríanderlaufum yfir súpuskálina. Ég notaði risarækjur en upprunalega uppskriftin notaði kjúklingabringur og því má auðvitað skipta rækjunum út fyrir ódýrara hráefni. Ég notaði alltof mikið af núðlum þegar ég bjó réttinn til þannig að ég hef minnkað magnið töluvert í uppskriftinni hér að neðan.

Tælensk karrísúpa með núðlum og risarækjum

(Stuðst var við uppskrift frá Michael Smith)

 • 1 dós létt kókosmjólk
 • 1 dós venjuleg kókosmjólk
 • 2 msk tælenskt rautt karrímauk
 • 3 bollar grænmetissoð
 • 1 knippi kóríander, skerið neðstu stilkana frá laufunum og saxið, setjið laufin til hliðar
 • 2 – 3 stórar kartöflur, skornar í stilka
 • 1 stór gulrót, skorin í stilka
 • 3 límónur, börkurinn rifinn fínt
 • 1 sítróna, börkurinn rifinn fínt
 • 2.5 msk fiskisósa
 • 1 stór engiferrót, skorin í fína stilka
 • 1 handfylli baunaspírur
 • 250 g tælenskar hrísgrjónanúðlur
 • 300 g risarækjur (ég notaði forsoðnar)
 • graslaukur (til skrauts), saxaður
 • sjávarsalt

Aðferð:

Takið fram stóran pott og setjið yfir meðalháan hita. Opnið feitari kókosmjólkina, skafið rjómann af toppnum og setjið í pottinn ásamt karrímaukinu. Hrærið vel og leyfið að malla í 1 til 2 mínútur.

Bætið kóríanderstilkunum saman við ásamt soðinu, kartöflunum, gulrótinni, límónuberkinum,  límónusafanum, sítrónuberkinum, fiskisósunni og engiferinu saman við. Hellið allri kókosmjólkinni út í. Leyfið að hægsjóða í ca. 20 mínútur.

Smakkið súpuna til og bætið við salti ef þarf.

Setjið baunaspírurnar út í súpuna. Bætið forsoðnu rækjunum út í. Takið súpuna af hitanum og setjið núðlurnar strax út í og ýtið þeim undir yfirborð vökvans. Leyfið þeim að draga í sig vökvann í ca. 5 mínútur eða þar til þær eru orðnar mjúkar.

Stráið kóríanderlaufum og graslauk yfir súpuna og berið strax fram.

Fyrir 4 – 5

Prenta uppskrift

4 athugasemdir Post a comment
 1. Tinna #

  Hæhæ, takk fyrir frábært blogg sem er alltaf spennandi og veitir innblástur.
  Mig langar, í mestu vinsemd, að benda á að eldi risarækja er mikill umhverfisbófi og leggur heil vistkerfi í rúst. Fyrir utan að það er ekki hægt að ala þær án þess að dæla í þær sýklalyfjum. Því miður er varla hægt að fá risarækjur sem ekki eru aldar með þessum hætti. Sjá til dæmis hér:
  http://www.guardian.co.uk/news/2003/jun/19/food.fishing
  Ég er alls ekki að reyna að vera leiðinleg, sjálf vissi ég ekki af þessu fyrr en nýlega og hef reynt að forðast risarækjur eftir fremsta megni síðan.

  06/10/2012
  • Takk kærlega fyrir ábendinguna! Ég var ekki búin að kynna mér þetta áður og tek undir með þér að maður eigi að forðast að kaupa afurðir sem taka svona stóran toll á umhverfinu.

   06/10/2012
 2. Þuríður Ólafsdóttir #

  Til hamingju með litla barnið þitt og gangi þér vel að aðlagast þessu frábæra lífi sem felst í móðurhlutverkinu vinan. Já sumarið okkar er stutt, en haustið er oft yndislegt og oft á tíðum mjög fallegt fram eftir öllu , jafnvel fram að Jólum . Það er gaman að sjá að þú ert komin í gang og ég hlakka til að prófa karrisúpuna  og vonandi fylgja margar uppskriftir í kjölfarið J Eins og þú sérð er ég einlægur aðdáandi og bíð spennt eftir því sem þér dettur í hug. Kveðjur Dússý. PS:Sú sem bakaði Kanillengjuna góðu í tilefni brúðkaupsafmælis okkar gömlu hjónanna JJJ

  06/10/2012
 3. Helga #

  Eldaði þessa í gær og hún var himnesk :)
  Takk fyrir að deila henni!

  07/10/2012

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: