Skip to content

Lambasalat með chili og myntu

Þá er ég búin að flýja hitabylgjuna miklu í Brooklyn og er komin í öllu þægilegra loftslag hérna heima á Íslandi. Það er eiginlega ekkert grín að vera í 35 stiga hita og glaðasólskini komin sjö mánuði á leið. Ég var farin að halda til að mestu leyti innandyra  þar sem loftkælingin var á fullu. Enda mátti ég eiginlega ekki við öðru eftir að hafa fengið hitaslag eftir einn heitan sólardag utandyra. Ég þakka því bara fyrir köldu goluna og fallega endalausa bláa himininn yfir sumarklæddu landinu. Litla krílið virðist líka una sátt við sitt og treður hælnum reglulega eins langt upp undir rifbein og hún mögulega kemst.

Ég kvarta líka ekki yfir því að vera komin í foreldrahús þar sem ég er í miklu yfirlæti og dekri. Mamma bjó til lambasalat handa okkur um daginn og ég er yfir mig hrifin af því. Það er einstaklega fljótlegt (enda eldað úr bókinni Nigella með hraði), ljúffengt og fallega grænt skreytt með fagurrauðu söxuðu chili. Salatsósan er með asísku ívafi og gefur kjötinu skemmtilegt mótvægi. Það er auðvitað best að hafa lambakjötið eldað að utan en rautt og meyrt að innan, skorið í þunnar sneiðar og dreift yfir salatblöðin.

Passið bara að hundurinn komist ekki í matinn.

Lambasalat með chili og myntu

(Breytt uppskrift frá Nigellu Lawson: Nigella með hraði)

  • 2 tsk ólívuolía
  • 1 lambalund, um 250 gr
  • 1 pakki (um 180 g) salatblöð [við notuðum asíska salatblöndu frá Kosti]
  • 3 msk fersk mynta, söxuð

Salatsósa:

  • 1 msk fiskisósa
  • 1 msk rifsberjahalaup
  • 2 msk hrísgrjónaedik
  • 1 tsk sojasósa
  • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður og fínsaxaður
  • 1 handfylli snjóbaunir, skornar í þrennt
  • 1 vorlaukur, saxaður

Aðferð:

Hitið olíu í þykkbotna pönnu og steikið kjötið í 5 mínútur öðrum megin, snúið því svo við og steikið í 2 1/2 mínútu hinum megin. Kjötið á að vera ágætlega rautt að innan.

Vefjið kjötið inn í álpappír, í bústinn en þéttan pakka, og látið standa í 5 mínútur.

Blandið salatsósuna í meðalstórri skál.

Opnið álpappírinn og hellið kjötsafanum í salatsósuna og hrærið.

Skerið lambakjötið í þunnar sneiðar.

Sáldrið salatblöðunum yfir fat (eða skiptið þeim á tvo diska) og leggið síðan kjötið ofan á blöðin. Hellið salatsósunni yfir allt, skreytið með myntu og berið fram.

Fyrir 2 (í aðalrétt) eða 4 (í forrétt)

Prenta uppskrift

No comments yet

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: