Skip to content

Posts from the ‘Lambakjöt’ Category

Lambasalat með chili og myntu

Þá er ég búin að flýja hitabylgjuna miklu í Brooklyn og er komin í öllu þægilegra loftslag hérna heima á Íslandi. Það er eiginlega ekkert grín að vera í 35 stiga hita og glaðasólskini komin sjö mánuði á leið. Ég var farin að halda til að mestu leyti innandyra  þar sem loftkælingin var á fullu. Enda mátti ég eiginlega ekki við öðru eftir að hafa fengið hitaslag eftir einn heitan sólardag utandyra. Ég þakka því bara fyrir köldu goluna og fallega endalausa bláa himininn yfir sumarklæddu landinu. Litla krílið virðist líka una sátt við sitt og treður hælnum reglulega eins langt upp undir rifbein og hún mögulega kemst.

Ég kvarta líka ekki yfir því að vera komin í foreldrahús þar sem ég er í miklu yfirlæti og dekri. Mamma bjó til lambasalat handa okkur um daginn og ég er yfir mig hrifin af því. Það er einstaklega fljótlegt (enda eldað úr bókinni Nigella með hraði), ljúffengt og fallega grænt skreytt með fagurrauðu söxuðu chili. Salatsósan er með asísku ívafi og gefur kjötinu skemmtilegt mótvægi. Það er auðvitað best að hafa lambakjötið eldað að utan en rautt og meyrt að innan, skorið í þunnar sneiðar og dreift yfir salatblöðin.

Passið bara að hundurinn komist ekki í matinn.

SJÁ UPPSKRIFT

Lambalæri með blóðbergi, rjúpnalaufi og berjum

Tengdamóðir mín veit hvað hún syngur þegar kemur að því að matreiða lambalæri. Og þó að ég hafi fengið mörg góð læri yfir ævina þá verð ég að viðurkenna að nálgun hennar er skemmtileg, íslensk og einstaklega bragðgóð. Blóðbergið og rjúpnalaufið tíndum við á leiðinni niður úr fjallgöngu upp á Hestskarðshnjúk fyrir ofan Siglufjörð en berin voru fryst uppskera frá síðasta sumri. Ég fékk góðfúslegt leyfi hennar til að birta uppskrift að lambalærinu sem við grilluðum í bústaðnum Garði í sumar.

Íslenskt lambakjöt er svo ótrúlega bragðgott og meyrt og bragðið verður margfalt betra þegar það er grillað á kolagrilli og marinerað upp úr íslenskum fjallajurtum og berjum. Og þar sem það fer að líða að berjauppskeru þá hvet ég ykkur til þess að tína blóðberg og rjúpnalauf og nostra við gamla góða lambalærið. Auðvitað má svo nota annað sem ykkur dettur í hug í marineringuna, t.d. birkilauf og berjalyng.

Harpa byrjaði á því að fituhreinsa lærið svolítið en það er gott að rjúfa himnuna til að marineringin fari í kjötið sjálft en ekki bara fituna – það er nóg af fitu á lærinu þó eitthvað af henni sé hreinsað frá. Sem dæmi, þá skar hún 200 grömm af fitu af 3,5 kílógramma læri. Við hreinsuðum mold, mosa og rætur frá rjúpnalaufinu og blóðberginu og notuðum heilmikið því það þarf að hylja lærið alveg með berjum og kryddi. Salt og pipar fer á lærið áður en það fer á grillið því annars fer of mikill vökvi úr lærinu meðan það hvílist í marineringunni. Geyma má lærið í kryddhjúpnum í allt að sex daga.

Við vorum með óvenjustórt læri (3,5 kg) og miðast grilltíminn í uppskriftinni við það. Smærri læri þurfa minni tíma á grillinu.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: