Lambasalat með chili og myntu
Þá er ég búin að flýja hitabylgjuna miklu í Brooklyn og er komin í öllu þægilegra loftslag hérna heima á Íslandi. Það er eiginlega ekkert grín að vera í 35 stiga hita og glaðasólskini komin sjö mánuði á leið. Ég var farin að halda til að mestu leyti innandyra þar sem loftkælingin var á fullu. Enda mátti ég eiginlega ekki við öðru eftir að hafa fengið hitaslag eftir einn heitan sólardag utandyra. Ég þakka því bara fyrir köldu goluna og fallega endalausa bláa himininn yfir sumarklæddu landinu. Litla krílið virðist líka una sátt við sitt og treður hælnum reglulega eins langt upp undir rifbein og hún mögulega kemst.
Ég kvarta líka ekki yfir því að vera komin í foreldrahús þar sem ég er í miklu yfirlæti og dekri. Mamma bjó til lambasalat handa okkur um daginn og ég er yfir mig hrifin af því. Það er einstaklega fljótlegt (enda eldað úr bókinni Nigella með hraði), ljúffengt og fallega grænt skreytt með fagurrauðu söxuðu chili. Salatsósan er með asísku ívafi og gefur kjötinu skemmtilegt mótvægi. Það er auðvitað best að hafa lambakjötið eldað að utan en rautt og meyrt að innan, skorið í þunnar sneiðar og dreift yfir salatblöðin.
Passið bara að hundurinn komist ekki í matinn.