Afmæliskaka Elmars
Elmar átti afmæli í gær. Við lögðum skólabækurnar til hliðar og ákváðum að eiga rólegan dag saman. Við fórum á uppáhaldsbarinn okkar, Bierkraft, sátum úti undir sólarhlíf, borðuðum osta og Elmar keypti sér dýrindis belgískan bjór. Um kvöldið borðuðum við á frábærum ástralsk-asískum stað hérna í hverfinu og löbbuðum út hálf rangeygð af seddu og matarhamingju.
Það er mín skoðun að afmælisbörn eiga skilið köku. Og þá meina ég alvöru heimabakaða köku á hæðum og með kremi. Ég hef áður sett inn færslu um afmæliskökuna mína og um afmælisköku vinkonu okkar sem hefur síðan flust frá Brooklyn og ég sakna alveg afskaplega mikið og ekki má gleyma fimmtugskökubombunni hennar mömmu. Afmælisbörn eiga líka skilið vín með kökunni og góðan hóp fólks til að skála fyrir merkisdeginum.
Elmar er mikill kaffimaður. Svo mikill að dagurinn getur hreinlega ekki byrjað fyrr en hann er búinn að fá sér fyrsta kaffibollann. Mér fannst því við hæfi að búa til kaffiköku með kaffikremi og fann loks uppskrift sem heillaði mig í tímaritinu Bon Appétit, kaffibragð fyrir Elmar og súkkulaði fyrir mig. Botnarnir eru unaðslegir og ég hugsa að ég eigi eftir að nota þá oft upp úr þessu. Kremið er létt í sér og mjúkt og hefur lúmskt bragð af café mocha, mér fannst það samt helst til of sætt (þrátt fyrir að hafa minnkað sykurmagnið) og ég mæli með að minnka það jafnvel enn meira en ég gerði. Ég bakaði þrjá 8 tommu botna en það má auðvitað hafa kökuna tveggja hæða í staðinn fyrir þriggja.
Það lýstu allir yfir mikilli ánægju með kökuna og ég hef æði oft læðst í smá sneið af afganginum í dag. Yndislegt!
Espressó-súkkulaðikaka með kaffikremi
(Breytt uppskrift frá Bon Appétit, Apríl 2009)
Kökubotnar:
- 2 bollar [250g] hveiti
- 3/4 bollar [2 dl] kakóduft (án sætuefna)
- 1 1/2 tsk matarsódi
- 3/4 tsk salt
- 170 g smjör, við stofuhita
- 400 g ljós púðursykur
- 3 stór egg
- 1 1/2 tsk vanilludropar
- 1 bolli [235 ml] súrmjólk
- 4 tsk instant espressóduft, leyst upp í 3/4 bolla af heitu vatni
Kaffikrem:
- 1/3 bolli [tæpur 1 dl] kakóduft (án sætuefna)
- 1 msk instant espressóduft
- 1 1/2 bolli [350 ml] rjómi, kældur
- 1 1/3 bolli [260 g] sykur
- 450 g mascarpone, kældur
Aðferð:
Botnarnir:
Hitið ofninn í 160°C/325°F. Takið fram tvö (eða þrjú) bökunarform 8″ eða 9″ að stærð. Smyrjið formin vel og sáldrið smá hveiti í botnana hliðarnar, hvolfið formunum og sláið aðeins í botnana til að hrista laust hveiti úr þeim. Setjið bökunarpappír í botnana.
Sigtið hveitið, kakóduftið, matarsódann og saltið í stóra skál. Hrærið saman og setjið til hliðar.
Setjið smjörið í hrærivél og þeytið þar til smjörið verður kekkjalaust. Bætið púðursykrinum saman við og þeytið þar til allt hefur blandast vel saman og er blandan er orðin létt í sér. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og þeytið vel á milli. Bætið vanillunni saman við.
Bætið 1/3 af hveitiblöndunni saman við og hrærið saman á hægri stillingu. Bætið því næst helmingnum af súrmjólkinni saman við og hrærið saman. Endurtakið. Bætið síðasta þriðjungnum af hveitiblöndunni saman við og hrærið saman. Hellið síðan espressóvatninu út í og hrærið vel saman. Aukið hraðann í meðalhraða og hrærið þar til blandan verður kekkjalaus og létt í sér.
Hellið deiginu jafnt í bökunarformin og bakið í miðjum ofni í ca. 40 mínútur, eða þar til botnarnir hafa bakast í gegn. Takið formin úr ofninum og leyfið að kólna á grind í 15 mínútur. Losið kökurnar frá hliðunum með hníf og hvolfið svo á disk, fjarlægið bökunarpappírinn og hvolfið aftur yfir á grindina og leyfið að kólna alveg.
Það má búa til botnana deginum áður og geyma þá við stofuhita vel vafða inn í plastfilmu.
Kremið:
Sigtið kakóduftið ofan í stóra skál. Bætið espressóduftinu saman við. Hellið 300 ml af rjómanum í lítinn pott og náið upp suðu. Hellið heitum rjómanum hægt yfir kakóblönduna og hrærið með písk þar til duftið hefur leysts upp. Hellið restinni af rjómanum saman við ásamt sykrinum og hrærið þar til sykurinn hefur leysts upp. Kælið í ísskápnum í 2 tíma eða yfir nótt.
Setjið mascarpone í skál og þeytið í smá stund til að losa um hann. Bætið kældri kakóblöndunni saman við og hrærið á hægum hraða þar til allt hefur blandast vel saman. Aukið hraðann og hrærið þar til kremið er orðið þykkt. Fylgist samt vel með og ekki ofþeyta kremið því þá gæti það orðið kekkjótt.
Setjið saman:
Burstið mestu mylsnuna af kökubotnunum. Setjið botn á kökudisk og smyrjið kremi ofan á, leggið næsta botn ofan á og smyrjið kremi ofan á hann (endurtakið ef kakan er þriggja hæða). Smyrjið þvínæst alla kökuna með kreminu (ég notaði reyndar ekki allt kremið).