Skip to content

Espressó-siffonkaka með súkkulaðikremi

Tinna vinkona okkar átti afmæli í gær. Hún vildi ekkert húllumhæ en ég neyddi hana til þess að þiggja heimabakaða afmælisköku af mér. Ekki bara af því að mér þykir rosalega vænt um hana og mér finnst að allir eigi að fá alvöru köku á afmælinu sínu heldur líka af því að mér finnst fátt skemmtilegra en að fá tækifæri til að baka alvöru köku. Stundum fara eiginhagsmunir og gjafmildi vel saman. Sérstaklega þegar útkoman er kaffilegin og súkkulaðihúðuð.

Þessar tegundir af kökum eru á ensku kallaðar ,,chiffon cakes“ og er hægt að íslenska sem ,,siffonköku“ (sbr. heimild frá 1980), ,,og er þar gefið í skyn, að kakan sé létt eins og siffon, sem allir þekkja úr fataframleiðslunni“. Og þar hafið þið það.

Ég ákvað að búa til espressóköku þar sem a) Tinna elskar kaffi og b) í gær var dagur kaffisins í Bandaríkjunum. Útkoman var vægast sagt syndsamlega ljúffeng. Kaffibragðið gefur kökubotninum mun skemmtilegra bragð en hefði hann aðeins verið bragðbættur með vanilludropum, espressósírópið náði að bleyta kökubotnana hæfilega mikið og ég setti líka ,instant’espressóduft í súkkulaðikremið. Kaffi og kaffi og kaffi með súkkulaði. Að hvaða leyti gæti þetta svo sem klikkað?

En það er ekki þar með sagt að ég myndi ekki gera smávægilegar breytingar á uppskriftinni. Ég hefði í raun bara þurft helminginn af kreminu (enda fór drjúgur hluti inn í ísskáp eftir að kakan var smurð) og í raun hefði ég viljað vera með minna krem á kökunni sjálfri þar sem kökubotnarnir voru alls ekki það þurrir að allt þetta krem væri nauðsynlegt. Ég gerði kökuna líka bara tveggja hæða (í staðinn fyrir þriggja eins og uppskriftin kvað á um) þar sem ég á bara eitt hringlaga kökuform og nennti hreinlega ekki að baka botna í þremur hollum. Ég þarf að ráða bót á þessum málum.

Espressó-siffonkaka með súkkulaðikremi

Kökubotnar:

(Uppskrift frá Smitten Kitchen)

 • 1/4 bolli [60 ml] olía, bragðlítil
 • 6 egg, rauðan skilin frá hvítunni
 • 6 msk nýuppáhellt espressó [eða mjög sterkt kaffi], kælt niður í stofuhita
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 1/3 bolli [170 g] hveiti
 • 1 1/2 bolli [330 g] sykur
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk kanilduft
 • 1/2 tsk salt
 • 1/2 tsk cream of tartar [má sleppa]

 Aðferð:

Hitið ofninn í 180 C. Takið fram þrjú (ég notaði tvö) 8″ eða 9″ hringlaga bökunarform og setjið bökunarpappír í botninn á formunum. Ekki smyrja formin. Setjið til hliðar.

Setjið olíu, eggjarauður, espressó og vanillu í meðalstóra skál. Hrærið lítillega með písk til að blanda saman (ekki of mikið því þá mun blandan mynda mikla froðu).

Sigtið hveiti, 1 bolla [225 g] af sykrinum, lyftiduft, kanilduft og salt ofan í stóra skál og blandið saman. Setjið til hliðar.

Takið fram stóra skál og notið handþeytara (eða hrærivél) til að þeyta eggjahvíturnar. Byrjið að þeyta þær á meðal-hægum hraða ásamt cream of tartar (ef það er notað) þangað til þær fara að freyða. Aukið hraðann og bætið sykrinum smám saman saman við. Þeytið þar til hvíturnar mynda mjúka toppa. Ekki þeyta þar til þær mynda stífa toppa því að þá mun kakan falla saman þegar hún kólnar.

Hellið espressó-eggjarauðublöndunni í skálina með þurrefnunum og blandið varlega saman með því að nota sleikju og renna henni eftir botninum á skálinni og draga hveitblönduna ofan á. Haldið þessu áfram þar til allt hefur rétt svo blandast saman. Setjið 1/4 af eggjahvítunum út í og blandið saman við á sama hátt. Setjið restina af eggjahvítunum út og haldið áfram að blanda á þennan hátt þar til deigið verður einlitt en ekki röndótt.

Skiptið deiginu í formin og bakið í 18 mínútur, eða þar til botnarnir hafa bakast í gegn. Leyfið að kólna alveg í formunum og losið botnana svo varlega frá og hendið pappírnum.

Espressósíróp:

 • 1/3 bolli [80 ml] espressó, nýuppáhellt og heitt
 • 1/3 bolli [75 g] sykur
 • 1/3 bolli [80 ml] dökkt romm (eða vatn með 1 tsk af vanilludropum)

Aðferð:

Hrærið sykrinum og kaffinu saman þar til sykurinn hefur leysts upp. Hrærið romminu saman við og kælið þar til sírópið hefur náð stofuhita.

Súkkulaðikrem:

(Uppskrift frá Smitten Kitchen)

 • 425 g dökkt súkkulaði
 • 1 1/4 tsk instant espressóduft (má sleppa)
 • 2 1/4 bolli [530 ml] sýrður rjómi
 • 1/4 bolli [60 ml] til 1/2 bolli [120 ml] ljóst agave síróp
 • 3/4 tsk vanilludropar

Aðferð:

Setjið súkkulaðið og espressóduftið skál og setjið yfir pott af hægsjóðandi vatni (ekki leyfa skálinni að snerta vatnið samt!). Hrærið í skálinni endrum og eins og haldið yfir hitanum þar til súkkulaðið hefur bráðnað alveg. Takið frá hitanum og leyfið kólna þar til súkkulaðið nær stofuhita.

Hrærið sýrðum rjóma, 1/4 bolla [60 ml] af sírópinu og vanilludropum saman með písk. Bætið súkkulaðinu hægt saman við og hrærið þar til blandan er kekkjalaus og einlit. Bragðið og ef að kremið er ekki nógu sætt þá er best að bæta meira sírópi saman við, einni matskeið í einu, þar til réttu sætumagni er náð. Setjið til hliðar og leyfið að kólna í ca 30 mínútur. Það er gott að setja kremið inn í ísskáp áður en því er smurt á kökuna svo það haldi sér betur.

Kakan sett saman:

Setjið einn botn á kökudisk og hellið 1/3 af espressósírópinu yfir, smyrjið með súkkulaðikremi. Leggið annan botn yfir þann fyrsta og endurtakið.* Setjið síðasta botninn á og hellið restinni af sírópinu yfir og smyrjið toppinn og hliðarnar á kökunni með kreminu.

*Ég gerði bara tvær hæðir og skipti því sírópinu í tvennt og penslaði og hellti því yfir botnana á sama hátt og er lýst að ofan. Ég notaði ekki allt kremið og því má minnka uppskriftina eða geyma kremið inni í ísskáp í nokkra daga og nota í krem á formkökur (t.d.).

13 athugasemdir Post a comment
 1. Teitur #

  Ég fékk líka svona afmælisköku. Það er hægt að seðja 100 manns með einni þriggja hæða hnalli.

  30/09/2011
  • Já það er ansi mikið eftir af kökunni en það saxast af henni þegar við (*hóst* ég *hóst*) borðum hana í morgun- og hádegismat ;)

   30/09/2011
 2. Svo fín!! Omm nomm nomm
  :)

  03/10/2011
 3. Vá girnileg kaka. Ég elska kökur og ég elska kaffi. ;)

  ps flott síðan hjá þér.
  kveðja frá Vermont,

  Gyða.

  03/10/2011
 4. Ottó #

  Hrikalega er þetta girnileg kaka. Og mikið er síðan orðin fín.

  03/10/2011
 5. Salbjörg #

  Vá hvað síðan er orðin flott! Ert þú orðin svona klár í tölvunni? Ég þarf að prófa þessa köku, hún virkar MJÖG girnileg :)

  03/10/2011
  • Takk Salsa mín! Ég er nú ekki alveg svo klár, ég hannaði þetta nú ekki sjálf ;) En kökuna bakaði ég og hún er unaður!

   03/10/2011
 6. Auður #

  Lovely kaka! Lítur alveg guðdómlega út. Þú verður svo að prófa Dillonsköku næst þegar þú býður fólki í mat – hún er svo delish, heit með rjóma – mmmm! Fansípants sem síða er orðin hjá þér Nanna mín. Voða voða fínt stöff.

  04/10/2011
 7. Auður #

  Iss – ein að fylgjast ekkert með – þú gerðir svoleiðis um daginn … sticky toffey pudding held ég að hún kallist på engelsk.

  04/10/2011
  • Játs! Ég er búin að gera hana nokkrum sinnum og hún slær alltaf í gegn :)

   04/10/2011

Trackbacks & Pingbacks

 1. Afmæliskaka Elmars | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: