Skip to content

Haustsúpa með glóðuðu eggaldini og tómötum

Það er orðið haustlegt hjá okkur. Suma daga gustar köldu en aðra daga nær maður ekki andanum fyrir rakanum í loftinu. Miklar hitabreytingar gera það alltaf að verkum að ég finn fyrir kvefi og smá slappelsi og til að afstýra mögulegum veikindum ákvað ég að búa til súpu.

Kannski ég ætti að vera hreinskilin og viðurkenna að það tók mig nokkur ár að finnast súpur góðar. Ég var auðvitað alltaf hrifin af íslensku kjötsúpunni og þegar ég var barn var ég óð í aspassúpu úr dós (bjakk!). En súpur voru ekki eitthvað sem mig langaði til að búa til, panta á veitingastað eða almennt sóa magaplássi í að borða. Svo eignaðist ég töfrasprota. Allt í einu þurfti ég ekki að borða súpur sem voru í raun bara soð með allskyns niðursneiddu grænmeti heldur voru þykkar, bragðmiklar og kekkjalausar.

Ég fann þessa uppskrift á einu uppáhaldsmatarbloggi mínu, smitten kitchen. Eggaldin og tómatar hafa hertekið bændamarkaðina hérna og eru skýrt merki um að við nálgumst lok sumaruppskerunnar. Þessi súpa leynir á sér, hún vinnur enginn fegurðarverðlaun enda svolítið skrítin á litinn en glóðaða grænmetið kemur vel í gegn og gefur bragðinu meiri dýpt en hefði því verið hent beint í pottinn. Þetta er fullkomin haustsúpa.

Haustsúpa með glóðuðu eggaldini og tómötum

(Breytt uppskrift frá smitten kitchen)

 • 3 meðalstórir tómatar, skornir í helminga
 • 1 stórt eggaldin, skorið í helminga á lengdina
 • 1 meðalstór laukur, skorinn í helminga
 • 6 hvítlauksgeirar, afhýddir
 • 2 msk ólívuolía
 • 1 msk ferskt timían eða 1 tsk þurrkað timían
 • 1 tsk kúminduft
 • 1 tsk kóríanderduft
 • 1 klípa þurrkaðar chiliflögur [má sleppa]
 • 4 bollar [tæpur 1 lítri] kjúklinga- eða grænmetissoð
 • 1/4 bolli [60 ml] rjómi [má sleppa]
 • 100 g fetaostur eða geitaostur
 • Safi úr hálfri sítrónu

Aðferð:

Hitið ofninn í 200°C. Setjið eggaldinið, tómatana, laukinn og hvítlaukinn á stóra ofnplötu (eða tvær litlar ef ofninn ykkar er lítill). Burstið grænmetið með ólívuolíu og bakið í ofninum í 20 mínútur. Takið plötuna úr ofninum og fjarlægið hvítlauksgeirana. Setjið plötuna aftur inn í ofn og bakið í aðrar 25 mínútur, eða þar til grænmetið hefur mýkst og fengið á sig dökka bletti.

Takið ofnplötuna úr ofninum. Skafið eggaldinkjötið úr hýðinu og setjið í stóran pott. Setjið afganginn af grænmetinu, kryddið og soðið í pottinn og náið upp suðu. Lækkið niður í hægsuðu og eldið þar til laukurinn hefur mýkst, ca 45 til 60 mínútur.

Takið súpuna af hitanum og maukið með töfrasprota eða setjið hana í hlutum í blandara og vinnið þar til hún er eins kekkjalaus og þið viljið hafa hana. Setjið súpuna aftur yfir hita og blandið rjómanum saman við. Náið upp hægsuðu. Bætið við salti og pipar eftir smekk.

Ausið súpunni í skálar og kreistið smá sítrónusafa yfir hvern disk. Stráið fetaosti yfir.

Fyrir 4

7 athugasemdir Post a comment
 1. Tóta #

  Oh ég elska súpur og ég dýrka þetta blogg…..

  25/09/2011
  • Takk fyrir það Tóta! Ég býst líka við að setja inn alveg heilan helling af súpuuppskriftum í vetur :)

   25/09/2011
 2. Prófaði súpuna með mjög góðum árangri. Hún er lostæti. Takk fyrir uppskriftina.

  25/09/2011
  • Það finnst mér mjög skemmtilegt að heyra!

   25/09/2011
 3. Þessi súpa er alveg himnesk, krakkarnir elskuðu hana líka með fullt af sítrónu og fetaosti. Takk kærlega fyrir okkur – þetta er uppáhalds bloggið mitt þessa dagana!

  17/10/2011
  • Æðislegt! Takk kærlega fyrir mig sömuleiðis :)

   17/10/2011

Trackbacks & Pingbacks

 1. Frönsk lauksúpa | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: