Jólagjafahugmynd #4: Kókoskaramellur
Ég á erfitt með að trúa hversu hratt tíminn líður og að dagatalið sé farið að sýna desember. Kannski er sérstaklega erfitt að trúa því þegar veðrið hérna er óvenju milt, trén hafa ennþá einhver lauf, sólin skín og hitinn rýkur stundum upp í 20 gráður. Fólk er samt farið að skreyta í hverfinu okkar, jólatré eru seld úti á götu og kaupmennirnir eru byrjaðir að taka upp jólavörurnar. Þetta verða önnur jólin okkar saman í New York og við hlökkum til að taka því rólega og ættleiða vini sem komast ekki til Íslands um jólin. Ég er löngu byrjuð að skipuleggja matseðilinn og mun auðvitað deila uppskriftum með ykkur þegar að því kemur.
Ég bjó til karamellur (aftur) fyrir jólagjafafærslu vikunnar. Þessar karamellur eru mun auðveldari heldur en hinar og það þarf ekki mjög mikla nákvæmni eða sykurhitamæli til að uppskriftin heppnist. Þetta góðgæti er brasilískt að uppruna og er kallað þar brigadeiros. Uppistaðan er aðallega mjólk og smá síróp. Ég gat ekki fylgt uppskriftinni nákvæmlega eftir þar sem niðursoðna mjólkin í Bandaríkjunum er mun þynnri en sú brasilíska og því var eldunartíminn minn aðeins lengri (ég geri athugasemd við þetta í uppskriftinni). Útkoman er afar mjúk mjólkurkaramella með kókoskeim – ef þið viljið hafa mikið kókosbragð þá er gott að skella smá kókosmjöli með í pottinn þegar karamellan er elduð. Konfektið geymist best í kæli og það á að bera það fram við stofuhita (en mér finnst reyndar best að borða það beint úr kælinum).
Kókoskaramellur
(Uppskrift frá Smitten Kitchen)
- 1 bolli sæt niðursoðin mjólk
- 1/2 bolli kókosmjólk, án sætuefna
- 30 g smjör
- 2 tsk ljóst maíssíróp
- 1/3 bolli kókosmjöl, ristað á pönnu
- 1/3 pístasíuhnetur, muldar
- 1/3 bolli súkkulaðiskraut
Aðferð:
Takið fram meðalstóran pott og setjið niðursoðna mjólk, kókosmjólk, smjör og maíssíróp í hann. Setjið pottinn yfir meðal-lágan hita þar til það kemur upp smá suðu. Lækkið þá hitann alveg niður og hrærið stanslaust með písk þar til karamellan þykknar, ca. 15-20 mín (þetta fer samt eftir því hversu þykk mjólkin er til að byrja með). Blandan er tilbúin þegar hún er orðin það þykk að hún dregst með písknum við hræringu og losnar frá botninum.
Hellið karamellunni í skál en ekki skrapa botninn á pottinum. Leyfið karamellunni að kólna niður í stofuhita. Hyljið skálina með plastfilmu og setjið inn í ísskáp. Kælið í 4 klukkutíma.
Notið eina teskeið af karamellunni í einu og rúllið karamellunni í litla kúlu (það er gott að bleyta örlítið hendurnar fyrst). Veltið síðan kúlunni upp úr hnetunum eða súkkulaðinu eða kókosmjölinu. Setjið til hliðar og haldið áfram þar til öll karamellan er mótuð.
Geymið í loftþéttum umbúðum í 2 daga við sofuhita eða 1 mánuð í kæli.
Berið karamelluna fram við stofuhita.
Gerir 24 – 30 kúlur
Þú ert nú meiri snillingurinn ! xxx
Mig er búið að langa til að búa þessar til lengi! Kannski slæ ég til nú um jólin, svona niðursoðin mjólk fæst amk í Kosti :-)
Ég ætlaði einmitt að spyrja hvar kona fær niðursoðna mjólk á Íslandi í dag. Bestu þakkir, Inga Þó :)
Mmmm. Þú ert æði.
Er ekki bara hægt að nota G-mjólk eða hvað?
Nei, reyndar ekki. G-mjólkin er of þunn. Niðursoðin mjólk er mjög þykk og mun sætari heldur en G-mjólkin.