Skip to content

Carnitas / Mexíkóskt flatbrauð með hægelduðum svínahnakka

Ég held að ég sé búin að bera lof á járnsteypupottinn minn oft og mörgum sinnum á þessu bloggi. Hann er eitt uppáhaldsbúsáhaldið mitt og við höfum eldað margt skemmtilegt saman. Járnsteypupottar eru frábærir því þeir henta á allar hellur, það má setja þá inn í ofn, þeir dreifa hitanum jafnt og botninn á þeim er svo þykkur að það brennur sjaldan við hann. Ég hreinlega veit ekki hvar ég væri án hans. Þannig að ég myndi hiklaust mæla með að fjárfesta í einum slíkum ef þið eigið ekki einn fyrir. Það er hægt að kaupa þá mjög dýra (eins og frá fínu Le Creuset línunni) eða ágætlega ódýra (því IKEA klikkar ekki).

Ég er yfir mig ánægð með þennan rétt. Hann er fyrirhafnarlítill en svo bragðgóður að ég hefði auðveldlega getað blekkt Elmar og sagt að ég hafi staðið sveitt í eldhúsinu allan daginn. En í staðinn fór ég í búðina, keypti svínahnakka og henti honum niðurbútuðum í fallega rauða pottinn minn ásamt sítrussafa og smá kryddi (næst ætla ég að sleppa safanum og nota bjór í staðinn) og gleymdi því þar í svona þrjá tíma. Þegar kjötið var tilbúið var það svo meyrt að það datt í sundur þegar ég lyfti því úr pottinum. Við röðuðum því ásamt öðru meðlæti á mjúkar litlar hveitikökur og hámuðum allt í okkur þar til við stóðum á blístri.

Carnitas / Mexíkóskt flatbrauð með hægelduðum svínahnakka

(Uppskrift frá The Homesick Texan Cookbook)

 • 1,3 kg svínahnakki, skorinn í 5 cm stóra teninga
 • 1/2 bolli appelsínusafi
 • 1/4 bolli límónusafi (ca. 3 límónur)
 • 4 hvítlauksgeirar, afhýddir og marðir
 • 1 tsk kúminduft
 • 1 tsk sjávarsalt

[*Ég prófaði að sleppa appelsínusafanum og notaði 0.5 lítra af bjór – Hoegaarden – í staðinn og það var mjög gott! Ég mæli því sterklega með því að elda svínahnakkann upp úr bjór. 6/5/2012]

Aðferð:

Setjið kjötið í járnsteypupott eða annan stóran pott með góðum botni. Hellið safanum út í ásamt hvítlauksgeirunum, kryddinu og saltinu. Hellið vatni í pottinn þar til vökvinn nær rétt svo yfir kjötið. Náið upp suðu og lækkið hitann svo niður. Hægsjóðið án þess að hylja pottinn með loki í 2 klukkustundir án þess að snerta kjötið.

Hækkið hitann undir pottinum að 2 klst liðnum. Leyfið að sjóða ágætlega hressilega (ekki of hratt þó). Hrærið einstaka sinnum í pottinum og snúið bitunum við nokkrum sinnum. Eldið þannig í 45 mínútur, eða þar til allur vökvinn hefur gufað upp. Þegar það er bara fitan eftir í pottinum skal steikja kjötið í henni þar til það dökknar, snúið kjötinu varlega þar sem það vill detta í sundur.

Flytjið kjötið yfir á bretti eða fat og notið tvo gaffla til að rífa það í sundur. Rífið eða skerið fitubitana frá og hendið.

Berið kjötið fram ásamt hveiti- eða maískökum (tortillur), fersku kóríander, pækluðum rauðlauk, límónusneiðum, lárperusneiðum, jalapeno, osti, svörtum baunum eða hverju því sem þér dettur í hug.

Fyrir  4 – 5

Prenta uppskrift

8 athugasemdir Post a comment
 1. Nammi namm… Komdu núna heim svo þú getur eldað handa mér!

  03/12/2011
 2. Salbjörg #

  Lítur mjög vel út! Ég þrái að eignast svona Le Creuset pott, ætli ég verði ekki bara að splæsa í einn svoleiðis fljótlega? þetta margborgar sig!

  03/12/2011
 3. Auður #

  Ef potturinn væri sjálfþrífandi þá myndi ég hiklaust kaupa svona … má kannski setja hann í uppþvottavél?

  Þvílíkt girnilegt og fallegar myndir hjá þér Nanna mín :*

  04/12/2011
  • Takk! En nei, engin uppþvottavél fyrir þessa potta. En þeir eru postulínshúðaðir þannig að það er ekkert mál að þrífa þá, það rennur allt af með smá sápu. Þannig að það er engin afsökun ;)

   04/12/2011
 4. Inga Þórey #

  Við Raggi dáumst að því í hvert skipti sem við notum fína pottinn okkar hvað það er næs að þrífa hann, skolast alltaf allt af – við notum samt ekki sápu – skolum bara vel og þurrkum og smellum stundum smá olíu í botninn

  21/12/2011
 5. Inga Þórey #

  Ömm nanna, pæklaru sjálf rauðlaukinn?

  16/12/2012
  • Já það geri ég. Sneiði stóran rauðlauk. Hræri saman ca. 3/4 bolla af hvítvínsediki, 3 msk sykur og klípu af sjávarsalti. Set rauðlaukinn í krukku, helli vökvanum yfir, loka krukkunni og hristi vel. Geymi í kæli.

   16/12/2012

Trackbacks & Pingbacks

 1. Jarðarberjafrostpinnar | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: