Carnitas / Mexíkóskt flatbrauð með hægelduðum svínahnakka
Ég held að ég sé búin að bera lof á járnsteypupottinn minn oft og mörgum sinnum á þessu bloggi. Hann er eitt uppáhaldsbúsáhaldið mitt og við höfum eldað margt skemmtilegt saman. Járnsteypupottar eru frábærir því þeir henta á allar hellur, það má setja þá inn í ofn, þeir dreifa hitanum jafnt og botninn á þeim er svo þykkur að það brennur sjaldan við hann. Ég hreinlega veit ekki hvar ég væri án hans. Þannig að ég myndi hiklaust mæla með að fjárfesta í einum slíkum ef þið eigið ekki einn fyrir. Það er hægt að kaupa þá mjög dýra (eins og frá fínu Le Creuset línunni) eða ágætlega ódýra (því IKEA klikkar ekki).
Ég er yfir mig ánægð með þennan rétt. Hann er fyrirhafnarlítill en svo bragðgóður að ég hefði auðveldlega getað blekkt Elmar og sagt að ég hafi staðið sveitt í eldhúsinu allan daginn. En í staðinn fór ég í búðina, keypti svínahnakka og henti honum niðurbútuðum í fallega rauða pottinn minn ásamt sítrussafa og smá kryddi (næst ætla ég að sleppa safanum og nota bjór í staðinn) og gleymdi því þar í svona þrjá tíma. Þegar kjötið var tilbúið var það svo meyrt að það datt í sundur þegar ég lyfti því úr pottinum. Við röðuðum því ásamt öðru meðlæti á mjúkar litlar hveitikökur og hámuðum allt í okkur þar til við stóðum á blístri.