Skip to content

Posts from the ‘Kjötréttur’ Category

Carnitas / Mexíkóskt flatbrauð með hægelduðum svínahnakka

Ég held að ég sé búin að bera lof á járnsteypupottinn minn oft og mörgum sinnum á þessu bloggi. Hann er eitt uppáhaldsbúsáhaldið mitt og við höfum eldað margt skemmtilegt saman. Járnsteypupottar eru frábærir því þeir henta á allar hellur, það má setja þá inn í ofn, þeir dreifa hitanum jafnt og botninn á þeim er svo þykkur að það brennur sjaldan við hann. Ég hreinlega veit ekki hvar ég væri án hans. Þannig að ég myndi hiklaust mæla með að fjárfesta í einum slíkum ef þið eigið ekki einn fyrir. Það er hægt að kaupa þá mjög dýra (eins og frá fínu Le Creuset línunni) eða ágætlega ódýra (því IKEA klikkar ekki).

Ég er yfir mig ánægð með þennan rétt. Hann er fyrirhafnarlítill en svo bragðgóður að ég hefði auðveldlega getað blekkt Elmar og sagt að ég hafi staðið sveitt í eldhúsinu allan daginn. En í staðinn fór ég í búðina, keypti svínahnakka og henti honum niðurbútuðum í fallega rauða pottinn minn ásamt sítrussafa og smá kryddi (næst ætla ég að sleppa safanum og nota bjór í staðinn) og gleymdi því þar í svona þrjá tíma. Þegar kjötið var tilbúið var það svo meyrt að það datt í sundur þegar ég lyfti því úr pottinum. Við röðuðum því ásamt öðru meðlæti á mjúkar litlar hveitikökur og hámuðum allt í okkur þar til við stóðum á blístri.

SJÁ UPPSKRIFT

Steikarsalat með kirsuberjatómötum og gráðosti

Ég er orðin svo yfir mig ástfangin af Brooklyn og þá sérstaklega fallega hverfinu okkar að það kemur alltaf á mig hik þegar fólk vill hitta mig hinum megin við ána á Manhattan. Ef ég veit að ég þarf að fara í miðbæ Manhattan þá þarf ég að tala mig aðeins til því að litla sveitastelpan sem blundar í mér er ekkert sérstaklega æst í að labba í mannmergðinni með ljósasýninguna fyrir augunum og flautulæti leigubílstjóranna í eyrunum. Og sem betur fer þarf ég ekki að fara oft þangað þar sem ég vinn heima og ég þarf ekki að leita langt til að finna frábæra veitingastaði, skemmtilega pöbba og flotta matarmarkaði. Ef þið eruð að ferðast til New York þá mæli ég eindregið og sterklega með því að þið eyðið (að minnsta kosti!) einum degi í einhverju skemmtilegu hverfi (því ekki eru þau öll fríð og fjörug) í Brooklyn.

Eins og ég hef minnst áður á er kominn nýr slátrari í hverfið okkar. Slátrarinn selur einungis kjöt sem hefur fengið eðlilega meðferð – fengið að labba úti í haga, borða gras en hefur ekki verið sprautað með hálfu tonni af sýklalyfjum og troðið út af korni. Ég trúi því staðfastlega að dýr sem alin eru við ,náttúrulegar’ aðstæður gefa af sér betra kjöt heldur en dýr sem alin eru við dapurlegar aðstæður verksmiðjubúskapar. Að minnsta kosti er kjötborð slátrarans það fallegasta sem ég hef séð og allir starfsmennirnir eru lærðir í iðninni og vita því sínu viti. (Kannski reyni ég að fá leyfi hjá þeim til að taka myndir fyrir ykkur.)

Við rákum augun í nautavöðva sem þeir mæltu sérstaklega með í salat síðasta sunnudag og héldum heim á leið með eldrautt kjötið, appelsínugula kirsuberjatómata af bændamarkaðnum og ost úr búðinni undir hendinni. Úr varð þetta unaðslega (ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það), fallega og einfalda steikarsalat. Við elduðum kjötið þannig að það fékk á sig smá skorpu en var ennþá fagurrautt og meyrt að innan. Sinnepsvínagrettan passaði einstaklega vel við kjötið og litlu tómatarnir spýttu út úr sér sætum og ferskum safa þegar maður beit í þá. Þetta er án alls efa eitt það besta sem hefur komið út úr mínu eldhúsi.

SJÁ UPPSKRIFT

Spagettí carbonara með myntu og garðertum

Eftir miklar bollaleggingar og veðurpælingar þá ákváðum við hjónin að flýja Bergen og héldum til Aurdal í Vestur Noregi. Við leigðum okkur lítinn kofa á rólegu tjaldstæði við Aurlandsána og eyddum þremur dögum í að ganga og skoða eitt fallegasta landsvæði sem ég hef augum litið. Áður en ég fór til Noregs hafði mamma sagt mér að Noregur sé eins og ,,Ísland á sterum“ og hún hefur svo sannarlega rétt fyrir sér. Fjöllin eru stórkostlega há og þverhnípt, dalirnir djúpir og gróðursælir og það er ekki þverfótað fyrir villiblómum og birkitrjám. Fegurðin er yfirgengileg. Það er algjör synd hvað það er dýrt að vera í Noregi og ferðast um því þetta er land sem ég gæti eytt ævinni í að skoða.
Við byrjuðum fyrsta daginn á því að fara í fjallgöngu þar sem fótunum var kippt undan mér þegar ég steig á sleipan stein, ég skall á hliðina í berg og er núna með lófastórt mar á mjöðminni. Það versta við fallið var að ég var með myndavélina óvarða um öxlina og linsan slóst við bergið og er (næstum því) öll. Ég hélt samt áfram að taka myndir á vélina en meirihluti myndanna lenti því miður í ruslinu (restin er á flickr). Ég er svo einstaklega klaufsk að ég lét mér þetta ekki að kenningu verða og rann næstum því fram af bröttum klettastíg daginn eftir. Stundum er það mesta furða að ég hafi aldrei þurft að kalla til björgunarsveitir þegar ég er að hlaupa upp á fjöll.

Eftir svona svaðilför á maður skilið sérlega matarmikið pasta, að mínu mati. Ég er alveg forfallinn aðdáandi carbonara en bý það sjaldan til sökum þess hversu krefjandi það er á meltuna. Þessi carbonararéttur frá Jamie Oliver er sérstaklega skemmtilegur þar sem rétturinn fær smá ferskt bragð frá myntu og garðertum (sem eru víst ranglega kallaðar grænar baunir). Ég nota alltaf frosnar garðertur (peas) því þær eru víst mjög fljótar að missa næringargildi og ferskleika og því er best að kaupa þær beint frá ræktanda eða djúpfrystar í poka.

SJÁ UPPSKRIFT

Steikarsamlokur & franskar kartöflur

Það er ekki oft sem ég elda kjöt. Kjöt úti í Bandaríkjunum er ágætlega dýrt fyrir fátæka námsmenn eins og okkur. Reyndar er hægt að fá ódýrt kjöt þar en mér hefur aldrei fundist það girnilegt – mjög feitt hormónakjöt af nautgripum sem hafa aldrei fengið að smakka gras og lifa við vægast sagt ógeðfelldar og afar mengandi aðstæður. Ekki aðeins finnst mér erfitt siðferðislega að styrkja þann iðnað heldur er kjötið engan veginn eins gott. Og á meðan ég get keypt ódýrt, bragðmikið og fallegt grænmeti fyrir sama verð þá lýtur kjöt í lægra haldi.

Það er því alltaf gaman að koma til Íslands og fá kjöt reglulega í matinn. Enda er grænmetið hérna skammarlega lélegt og oft ógirnilegt. Hvað er eiginlega málið með plöstuðu paprikurnar? Og innpökkuðu kryddjurtirnar frá Ísrael? Einhvern veginn efa ég að þetta sé nauðsynlegt.

Ég átti nautakjötsbita afgangs frá hrísgrjónaréttinum góða og ákvað að búa til steikarsamloku fyrir okkur. Mér fannst samt eiginlega alveg nauðsynlegt að vera með franskar með samlokunni en hryllti við stóru djúpfrystu pokunum í búðinni. Ég ákvað því að búa til mínar eigin. Það var reyndar ágætlega tímafrekt ferli. Ég fann ekki rétta hnífinn á mandólínið hans pabba þannig að við Embla skárum kartöflurnar niður í lengjur, lögðum þær í bleyti, þerruðum og bökuðum inn í ofni. Og franskarnar eru rosalega góðar! Það er líka hægt að leika sér með þær. Það má rífa parmesanost yfir þær áður en þær eru bornar fram, skreyta með fínsaxaðri steinselju, sáldra yfir þær hvítlaukssalti, úða yfir þær smá truffluolíu – möguleikarnir eru endalausir! Við borðuðum franskarnar bara beint úr ofninum með smá auka salti og dýfðum þeim ofan í tómatsósu. Stundum er einfaldleikinn bestur.

Steikarsamlokan var mjög einföld. Ég snöggsteikti kjötið og stakk því svo inn í ofn með frönskunum til að elda það aðeins meira. Ég bjó til sósu úr dijon sinnepi og sýrðum rjóma (ég fann uppskrift að sinnepsmajónesi en vildi ekki nota hana því það er mikil majónesfælni á þessum bæ), steikti sveppi og lauk og notaði klettasalat og súrar gúrkur til að setja á milli brauðsins. Ég keypti baguettebrauð en auðvitað er hægt að nota ciabatta, sveitabrauð eða í raun hvaða brauð sem til er við hendina (þó ég myndi seint mæla með þessu hefðbundna heimilisbrauði).

SJÁ UPPSKRIFTIR

Tælenskir sumarréttir

Ég er nýkomin til Íslands í stutt stopp. Þegar ég lenti á Keflavíkurflugvelli var heiðskírt og fallegt en þriggja stiga hiti. Þriggja! Daginn sem ég fór frá New York var 30 stiga hiti og sól. Það var því úfin, ferðaþreytt og úrill ég sem gekk á móti Suðurnesjavindinum úr Leifsstöð.

Við nýttum samt síðustu dagana í hlýjunni í New York vel. Við eyddum tveimur dögum í Brooklyn þar sem við flökkuðum á milli bjórgarða og skoðuðum ný svæði þar sem næsta húsnæði okkar gæti leynst. Við settumst út á kvöldin, fengum okkur vínglas og nutum þess að eiga nokkra frídaga saman – en það hefur ekki farið mikið fyrir þeim þessa önnina.

En þrátt fyrir veður og vind þá er alltaf gott að koma ,heim’. Ég saknaði brauðostsins í risaumbúðunum, kalda ferska vatnsins úr krananum og fiskréttanna úr Fylgifiskum. En ég saknaði þó sérstaklega þagnarinnar, tístsins í fuglunum og gjallið í Tjaldinum í fjörunni fyrir utan gluggann minn heima hjá mömmu og pabba. Kærkomin breyting frá hinum stanslausa niði og hávaða stórborgarinnar.

Ég vildi auðvitað komast í eldhúsið sem fyrst og búa til einhverja dásemd handa fjölskyldunni minni. Að lokum ákvað ég að búa til tvo rétti sem hafa lengi verið á matardagskránni. Ég bjó til tælenskan hrísgrjónarétt með ananas og nautakjöti en í forrétt hafði ég djúpsteiktar risarækjur í bjórdeigi. Ég var reyndar eins og hauslaus hæna í eldhúsinu þeirra til að byrja með. Skipulagið ruglaði mig í ríminu og ég ætlaði aldrei að finna nauðsynleg hráefni og tól. Pabbi greip loks inn í  og gaf mér ráðleggingar varðandi steikingu á kjötinu (þar sem ég elda næstum því aldrei kjöt úti) og ananashreinsun. Útkoman var mjög ljúffeng. Ég breytti frá uppskriftinni og hafði soja- og chilimarinerað nautakjöt í staðinn fyrir tofu til að gefa réttinum aðeins meiri hita (og auðvitað sem afsökun til að matreiða kjöt). Djúpsteikingin á rækjunum var aðeins ævintýralegri, sem ótalmargir litlir brunablettir bera vott um, en þær voru svo ljúffengar umvafðar stökku djúpsteiktu bjórdeigi.

SJÁ MEIRA

Vesturheimsborgari með kartöflubátum

Ég var búin að ákveða að búa til quiche í gærmorgun. Svo ákveðin var ég að ég gerði lúsarleit að quicheformi í Brooklyn og í efri vesturbæ Manhattan. En ég átti ekki erindi sem erfiði. Það er eins og enginn í þessari borg búi til quiche eða hafi áhuga á slíkum formum. Sem ég á reyndar erfitt með að trúa, kannski eru bara allir að búa til franskan mat þessa dagana. Ég kom heim stúrin og ágætlega foj út í heiminn og fór að fletta nýjum uppskriftum í leit að hentugri innblæstri. Eins og svo oft áður tók ég fram bókina Jamie’s Dinners og rakst á uppskrift sem ég hafði merkt við fyrir löngu síðan – hamborgari með kartöflubátum. Elmar var yfir sig hrifinn (enda er hann svolítið kjötsveltur, grey karlinn) og við skrifuðum innkaupalista og fórum í leiðangur í Whole Foods þar sem hálfur heimurinn virtist saman kominn.

Við vorum svo heppin að finna nautahakk frá bónda sem sprautar ekki hormónum í dýrin sín og leyfir þeim að bíta alvöru gras út í haga, án þess að þurfa að borga morðfjár fyrir pundið. Við fylltum kerruna af alls kyns meðlæti, drykkjum og grænmeti og röltum heim í fallegu vorveðri. Við tók mikil eldamennska þar sem við stóðum sveitt yfir pottum og pönnum meðan ofninn hitaði íbúðina meira en æskilegt var. Og útkoman var himnesk! Hamborgarinn hafði sérstakt kúmenbragð og við hlóðum hann með osti, gráðosti, steiktum sveppum, lauk, tómötum, avókadó og (auðvitað) beikoni. Kartöflubátarnir voru fullkomnir, stökkir að utan en mjúkir að innan og sáraeinfaldir í undirbúningi. Og verandi þau heimsklassahjón sem við erum þá var auðvitað drukkið rauðvín með.

Kannski ég og heimurinn förum að finna réttan takt aftur.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: