Tælenskir sumarréttir
Ég er nýkomin til Íslands í stutt stopp. Þegar ég lenti á Keflavíkurflugvelli var heiðskírt og fallegt en þriggja stiga hiti. Þriggja! Daginn sem ég fór frá New York var 30 stiga hiti og sól. Það var því úfin, ferðaþreytt og úrill ég sem gekk á móti Suðurnesjavindinum úr Leifsstöð.
Við nýttum samt síðustu dagana í hlýjunni í New York vel. Við eyddum tveimur dögum í Brooklyn þar sem við flökkuðum á milli bjórgarða og skoðuðum ný svæði þar sem næsta húsnæði okkar gæti leynst. Við settumst út á kvöldin, fengum okkur vínglas og nutum þess að eiga nokkra frídaga saman – en það hefur ekki farið mikið fyrir þeim þessa önnina.
En þrátt fyrir veður og vind þá er alltaf gott að koma ,heim’. Ég saknaði brauðostsins í risaumbúðunum, kalda ferska vatnsins úr krananum og fiskréttanna úr Fylgifiskum. En ég saknaði þó sérstaklega þagnarinnar, tístsins í fuglunum og gjallið í Tjaldinum í fjörunni fyrir utan gluggann minn heima hjá mömmu og pabba. Kærkomin breyting frá hinum stanslausa niði og hávaða stórborgarinnar.
Ég vildi auðvitað komast í eldhúsið sem fyrst og búa til einhverja dásemd handa fjölskyldunni minni. Að lokum ákvað ég að búa til tvo rétti sem hafa lengi verið á matardagskránni. Ég bjó til tælenskan hrísgrjónarétt með ananas og nautakjöti en í forrétt hafði ég djúpsteiktar risarækjur í bjórdeigi. Ég var reyndar eins og hauslaus hæna í eldhúsinu þeirra til að byrja með. Skipulagið ruglaði mig í ríminu og ég ætlaði aldrei að finna nauðsynleg hráefni og tól. Pabbi greip loks inn í og gaf mér ráðleggingar varðandi steikingu á kjötinu (þar sem ég elda næstum því aldrei kjöt úti) og ananashreinsun. Útkoman var mjög ljúffeng. Ég breytti frá uppskriftinni og hafði soja- og chilimarinerað nautakjöt í staðinn fyrir tofu til að gefa réttinum aðeins meiri hita (og auðvitað sem afsökun til að matreiða kjöt). Djúpsteikingin á rækjunum var aðeins ævintýralegri, sem ótalmargir litlir brunablettir bera vott um, en þær voru svo ljúffengar umvafðar stökku djúpsteiktu bjórdeigi.
Djúpsteiktar risarækjur í bjórdeigi
(Uppskrift frá Aaplemint)
- 20 risarækjur, takið skelina af en skiljið sporðinn eftir og skerið frá æðina (ég keypti frosnar rækjur og sporðurinn var þegar tekinn af)
- Sjávarsalt
- 200 g hveiti
- 300 ml bjór (ég notaði Egils Gull)
Aðferð:
Það er best að kæla allt hráefni áður en það er eldað. Því kaldari sem rækjurnar og deigið er því stökkari verður rétturinn. Gott er að frysta bjórinn í hálftíma áður en hann er notaður og kæla hveitið í ísskáp í svipaðan tíma.
Snyrtið risarækjurnar og stráið smá salti yfir þær. Setjið í kæli.
Blandið bjórnum og hveitinu saman. Deigið á að vera þykkt og hylja rækjurnar auðveldlega. Setjið meira hveiti eða meiri bjór ef deigið er of þunnt eða of þykkt.
Takið fram djúpan pott og hitið olíu í pottinum. Þegar þið haldið að olían sé orðin nægilega heit prófið að setja dropa af deiginu ofan í olíuna, ef það skreppur strax saman og steikist þá er olían tilbúin. Setjið risarækjurnar ofan í pottinn, eina í einu, og steikið í ca. 2 mínútur eða þar til deigið er orðið stökkt og hefur tekið á sig gylltan lit. (Ég þurfti að snúa rækjunum eftir eina mínútu til að deigið steiktist jafnt.)
Leggið á eldhúspappír og þerrið. Berið strax fram með sítrónu, salti og súrsætri sósu.
Tælenskur hrísgrjónaréttur með ananas og nautakjöti
(Breytt uppskrift frá The Asian Vegan Kitchen eftir Hemu Parekh)
- 400 g nautakjöt, skorið í þunna bita
- 150 ml sojasósa
- 1 rautt chilialdin, fræhreinsað (en skiljið fræin eftir ef þið viljið sterkari rétt) og skorið í litla bita
- 1 ananas, stór
- 2 msk olía
- 20 – 25 kasjúhnetur
- 2 hvítlauksgeirar, skornir í þunnar sneiðar
- 1 cm ferskt engifer, rifið
- 1 laukur, saxaður
- 1 tómatur, saxaður
- 1 lítil rauð eða græn paprika, söxuð
- 100 g ferskur anans, saxaður
- 3 bollar (470 g) soðin jasmín hrísgrjón
- 3 msk sojasósa
- 1/2 tsk hvítur pipar
- 1/2 tsk púðursykur
- 1 skallotlaukur, skorinn í sneiðar og þurrsteiktur á pönnu
- Kóríanderlauf
Aðferð:
Skerið ananasinn í tvennt, langsum, og skerið aldinkjötið úr. Saxið aldinkjötið og setjið til hliðar.
Hitið olíuna á stórri pönnu (gott ef það er wok) og steikið kasjúhneturnar þar til þær hafa tekið á sig gylltan lit. Veiðið þær uppúr með gataðri skeið og haldið olíunni á pönnunni.
Steikið þvínæst hvítlaukinn og engiferið þar til það fer að ilma, ca. 30 sekúndur. Hrærið lauknum og tómatnum saman við. Eldið yfir háum hiti í eina mínútu, hrærið allan tímann.
Bætið paprikunni, nautakjötinu, ananasnum, elduðu hrísgrjónunum, sojasósunni, hvíta piparnum og sykurnum saman við. Blandið vel saman. Flytjið yfir í tómu ananasskeljarnar og skreytið með kasjúhnetunum, skallotlauknum og kóríanderlaufunum. (Ég átti afgangshrísgrjón og bar þau fram í fati með skeljunum).
Fyrir 4-5
Þetta var alveg sérstaklega ljúffengt.
MMM hvað þetta hljómar girnilegt- og lítur æðislega út. Held maður verði bara að prófa þetta. Flott blogg hjá þér, hef mjög gaman af að sjá myndirnar frá ykkur og lesa um lífið í útlöndum og uppskriftirnar eru mjög skemmtilegar:)
Takk kærlega fyrir það Steinunn!
Ég þrái svona bjór rækjur!!!
Mig langar til að tjilla með þér í Bergen í sumar og borða svona bjórrækjur sem við kaupum á fiskmarkaðinum og sötra kaldan bjór undir regnhlíf (því það rignir í Bergen!)
Ég fæ nú bara spenningssting í magann við tilhugsunina! Við verðum bara að taka það á Skype-inu!