Sítrónurísottó með risarækjum
Við erum farin að sjá fyrir endann á Noregsdvölinni og reynum núna að nýta þá (fáu) daga sem sólin skín og lofar hlýju veðri. Um daginn fórum við í heilsdags fjallagöngu (þau voru víst þrjú) og sáum norskar rollur, fjöll, dali og vötn. Landslagið hérna er svo yfirmáta fagurt og það er svo gaman að labba um í náttúrunni og borða nesti í skjólsælum lyngskálum. Við vorum reyndar ansi lemstruð og sólbrennd þegar við komum aftur heim og það fossblæddi úr hælnum á Elmari þegar hann dró af sér skóna.
Matarúrvalið hérna í Bergen kom mér svolítið í opna skjöldu og ég verð að viðurkenna að ég er orðin gjörspillt af því úrvali af ferskri matvöru sem stendur mér til boða í New York. Að horfa í hillurnar getur verið kómísk reynsla því að úrval af niðursoðnu grænmeti er margfalt meira en það ferska. Toro er framleitt í Bergen og heilu rekkarnir eru tileinkaðir öllu því sem hægt er að setja í duftform og blanda vatni. Það sem vegur þó upp á móti er fiskmarkaðurinn niðri við höfnina sem selur fullt af fallegu nýveiddu sjávarfangi.
En það er hægt að kaupa sítrónur hérna. Og ég get hreinlega ekki staðist rétti sem blanda saman sítrónum og sjávarfangi. Sítrónur eru, að mínu mati, undrabarn ávaxtanna og geta ljáð hinum þyngstu réttum ferskt og létt bragð. Og það er tilfellið með þennan sítrónurísottórétt – sítrónan og rækjurnar poppa upp hrísgrjónin sem eru mjúk og rjómakennd. Rísottóréttir krefjast ákveðinnar fyrirhafnar, það þarf að hræra stanslaust í pottinum á meðan heitu soðinu er bætt smám saman við og getur það tekið allt að hálftíma með tilheyrandi verkjum í upphandleggjum og öxlum. En að sama skapi fer fyrirhöfnin ekki á milli mála þegar rétturinn er borðaður, hann bragðast ríkulega af þeirri umhyggju sem hann krafðist.