Skip to content

Reyktur lax með léttu kartöflusalati og crème fraîche

Ég er ekki alltaf með á nótunum þegar ég kaupi í matinn. Elmar hefur bent mér á að ég virðist undantekningalaust gleyma einu hráefni þegar ég tíni ofan í kerruna. Og já, ég skrifa innkaupalista en ég virðist líka vera þeim hæfileika gædd að gleyma honum oftast heima. Ekki að það skipti nokkru máli því að ég yfirleitt gleymi að setja eitthvert hráefni á listann og enda því heima bölvandi og ragnandi yfir því að ég þurfi að fara aftur út í búð. Því miður teygir þetta sig líka í eldamennskuna mína. Stundum er það í lagi því hráefnið skipti ekki meginmáli en það kemur líka fyrir að grundvallarhráefni ratar ekki í matinn – eins og þegar mér láðist að salta rísottó (sem ég var búin að nostra við í rúma tvo tíma) sem ég bar svo fram fyrir fimm manns.

Þannig að á þeim dögum sem ég þarf að fara út í búð get ég búist við því að þurfa að fara tvær aukaferðir til að kaupa það sem vantar. Þetta getur verið vandræðalegt þegar sama manneskjan afgreiðir mann þrisvar sinnum á einum klukkutíma.

Við Elmar höfum setið á skrifstofu í Háskólanum í Bergen við sitthvort skrifborðið að vinna að verkefnum. Eða öllu heldur, hann vinnur að þýðingunni sinni og ég þykist vera að undirbúa doktorsverkefnið þegar ég er í raun að skoða matarblogg og ljósmyndir. Þetta þýðir auðvitað að við eyðum dögunum í það að sitja og hreyfa okkur lítið. Ég vildi því búa til léttan kvöldmat í gær og fann þessa uppskrift eftir hetjuna mína Jamie Oliver. Hann mælir reyndar með réttinum í hádegismat en þetta var góður, seðjandi og léttur kvöldmatur fyrir okkur tvö. Kartöflusalatið er örlítið súrt (það er bæði sítróna og edik í dressingunni) og passar afskaplega vel við dillið og rammleika kapersins. Crème fraîche sósan er fersk og vegur upp á móti fitunni í reykta laxinum. Þetta er sumar á diski og ég mæli með þessu með stóru kældu hvítvínsglasi á næsta sólardegi á Skerinu.

Reyktur lax með léttu kartöflusalati og crème fraîche

(Frá Jamie Oliver: Jamie at Home)

  • 600 g nýjar kartöflur
  • Sjávarsalt og ferskur malaður pipar
  • Sítrónubörkur, rifinn, og safi úr 1 sítrónu
  • 3 msk af rauðvínsediki [ég notaði hvítvínsedik]
  • 9 msk extra virgin ólívuolía
  • 2 msk kapers [hellið vökvanum frá]
  • 1 stykki 3 cm bútur af piparrót, skrældur og rifinn [ég notaði fullt af möluðum pipar í staðinn]
  • 150 ml crème fraîche
  • Lítið handfylli af fersku dilli, saxað
  • 400 g reyktur lax, skorinn í sneiðar

Aðferð:

Setjið kartöflurnar í pott af sjóðandi söltuðu vatni. Ef þær eru ójafnar að stærð skerið þá stærri kartöflurnar í helminga. Sjóðið í 15 til 20 mínútur eða þangað til að þær eldast í gegn. Hellið vatninu frá.

Setjið sítrónubörk, helminginn af sítrónusafanum, edik og ólívuolíu í skál og bætið síðan kapers við. Kryddið löginn með salti og pipar. Blandið öllu vel saman og bætið síðan heitu kartöflunum saman við og veltið þeim vel upp úr leginum. Smakkið til og bætið við kryddi, olíu eða ediki eftir því sem við á. Setjið til hliðar og leyfið kartöflunum að kólna.

Rífið piparrótina niður í skál (eða malið fullt af svörtum pipar í skál) og blandið saman við crème fraîche ásamt restinni af sítrónusafanum. Smakkið og saltið og piprið eftir smekk.

Þegar kartöflurnar náð ca. stofuhita stráið söxuðu dilllaufunum yfir þær og veltið öllu aftur saman.

Leggið sneiðar af reyktum laxi á stóran disk og hlaðið síðan kartöflusalatinu ofan á miðju disksins. Dreifið smá crème fraîcheblöndu yfir laxinn og leyfið restinni af sósunni að fylgja með á borðið. Rífið smá dilllauf yfir réttinn og berið fram með hvítvíni og brauði.

Fyrir 3 – 4 

6 athugasemdir Post a comment
  1. Inga Þórey #

    Þetta er svo gott stöff! Ég gerði svona fyrir afmælisveisluna hennar Unnar Efemíu og þetta kartöflusalat er hreinn unaður með laxinum, svo ferskt og gott!!!

    01/07/2011
  2. Teitur #

    Thetta med ad gleyma einu atridi er sennilega gentiskt thvi thetta skedur lika hja mer. Thannig ad eg skrifa nokkur umfram ateidi og vona ad eg gleymi bara thvi sem skiptir ekki mali.

    02/07/2011
  3. Auður #

    Hvernig heldurðu að það komi út að sleppa kapers? Ég bara get ekki svoleiðis skrýtið.

    26/09/2011
    • Það er örugglega allt í lagi að sleppa þeim alveg og ég ímynda mér að rétturinn verði ekki síðri.

      26/09/2011

Trackbacks & Pingbacks

  1. Brauð með reyktum laxi, avókadómauki og eggjahræru « Eldað í vesturheimi
  2. Árið kvatt | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: