Skip to content

Posts from the ‘Skandinavískt’ Category

Brauð með reyktum laxi, avókadómauki og eggjahræru

Sólin skein í Bergen í gær í fyrsta skipti í marga daga. Ég er ekki alveg viss um hvernig þetta rigningarveður á við mig því að ég er ekki með nógu góða skó og ef það er eitthvað sem mér er virkilega verulega einstaklega illa við þá er það að vera blaut í fæturna. Ég er sjaldan eins dauf í dálkinn og þegar ég finn fyrir skvampi í skónum og rennandi blautum sokkum. Þetta endalausa votviðri gerir það samt að verkum að ég verð eins og barn á jólunum þegar sólin gægist fram, jörðin hlýnar og ég get legið í grasinu í pilsi og stuttermabol. Það er engin önnur árstíð sem kemst nálægt því að skipa þann heiðursess sem sumarið hefur í hjarta mínu (þrátt fyrir alla rigninguna).

Við áttum afgang af reyktum laxi frá laxa- og kartöflusalatinu deginum áður. Ég ákvað því að búa til smørrebrød með avókadómauki og eggjum. Þetta var mjög góður hádegismatur og hráefnin þrjú passa mjög vel saman. Svo eru litirnir líka svo fallegir – allt mjög lekkert. Ég átti afgang af crème fraîchesósu frá því deginum áður en það má auðvitað sleppa sósunni og mala ferskan pipar yfir allt saman.

SJÁ UPPSKRIFT

Reyktur lax með léttu kartöflusalati og crème fraîche

Ég er ekki alltaf með á nótunum þegar ég kaupi í matinn. Elmar hefur bent mér á að ég virðist undantekningalaust gleyma einu hráefni þegar ég tíni ofan í kerruna. Og já, ég skrifa innkaupalista en ég virðist líka vera þeim hæfileika gædd að gleyma honum oftast heima. Ekki að það skipti nokkru máli því að ég yfirleitt gleymi að setja eitthvert hráefni á listann og enda því heima bölvandi og ragnandi yfir því að ég þurfi að fara aftur út í búð. Því miður teygir þetta sig líka í eldamennskuna mína. Stundum er það í lagi því hráefnið skipti ekki meginmáli en það kemur líka fyrir að grundvallarhráefni ratar ekki í matinn – eins og þegar mér láðist að salta rísottó (sem ég var búin að nostra við í rúma tvo tíma) sem ég bar svo fram fyrir fimm manns.

Þannig að á þeim dögum sem ég þarf að fara út í búð get ég búist við því að þurfa að fara tvær aukaferðir til að kaupa það sem vantar. Þetta getur verið vandræðalegt þegar sama manneskjan afgreiðir mann þrisvar sinnum á einum klukkutíma.

Við Elmar höfum setið á skrifstofu í Háskólanum í Bergen við sitthvort skrifborðið að vinna að verkefnum. Eða öllu heldur, hann vinnur að þýðingunni sinni og ég þykist vera að undirbúa doktorsverkefnið þegar ég er í raun að skoða matarblogg og ljósmyndir. Þetta þýðir auðvitað að við eyðum dögunum í það að sitja og hreyfa okkur lítið. Ég vildi því búa til léttan kvöldmat í gær og fann þessa uppskrift eftir hetjuna mína Jamie Oliver. Hann mælir reyndar með réttinum í hádegismat en þetta var góður, seðjandi og léttur kvöldmatur fyrir okkur tvö. Kartöflusalatið er örlítið súrt (það er bæði sítróna og edik í dressingunni) og passar afskaplega vel við dillið og rammleika kapersins. Crème fraîche sósan er fersk og vegur upp á móti fitunni í reykta laxinum. Þetta er sumar á diski og ég mæli með þessu með stóru kældu hvítvínsglasi á næsta sólardegi á Skerinu.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: