Skip to content

Rabarbarasorbet

Þá er ég búin að kveðja systur mína eftir yndislega viku sem leið alltof hratt. Litla kotið virðist ansi tómlegt og það verður skrítið að detta aftur í daglega rútínu af lærdómi og skriftum. Við vorum mjög dugleg að labba um hin ýmsu hverfi Brooklyn, skoðuðum hinn fræga og víðáttumikla Greenwood grafreit, flatmöguðum í sólinni í Prospect Park og átum á okkur gat við hvert tækifæri. Þetta er fimmta ferð Emblu til New York en í fyrsta skiptið sem hún eyðir tíma utan Manhattan og hún var fljót að lýsa því yfir að þrátt fyrir mikla hrifningu á Manhattan þá væri Brooklyn mun skemmtilegri. Sem ég get tekið heilshugar undir.

Við vöknuðum snemma á laugardagsmorgninum, hengdum myndavélarnar um hálsinn og töltum út á bændamarkaðinn. Jarðarberjatíðin er greinilega að ná hámarki – ljúfur og sætur ilmur lá í loftinu og við vorum ekki lengi að því að grípa nokkra bakka af jarðarberjum, eitt knippi af rabarbara og annað af aspas og ýmislegt góðgæti beint frá býli.

Við fórum á frábæran veitingastað í Fort Greene í einum göngutúrnum okkar og deildum tveimur ískúlum. Annar ísinn var rabarbarasorbet með engiferi sem var svo ferskur og bragðgóður að ég mátti til með að nýta rabarbarann í að búa til minn eigin. Ég lagðist í smá rannsóknir og fann uppskrift á netinu sem notar ekki of mikinn sykur á móti rabarbara og útkoman er þessi fallega bleiki sorbet með ljúfu rabarbarabragði og smá vísi að engiferi. Upprunlega uppskriftin notar smá sterkt áfengi til að koma í veg fyrir að sorbetinn frjósi um of en það má auðvitað sleppa áfenginu og leyfa ísnum bara að standa við stofuhita í nokkrar mínútur eftir að hann er tekinn úr frysti til að mýkja hann aðeins.

Rabarbarasorbet

(Uppskrift frá The Year in Food)

  • 360 g rabarbari, skorinn í sneiðar
  • 1 bolli vatn
  • 1/2 bolli sykur
  • 1 – 2 tsk ferskt engifer, rifið
  • 2 msk ferskur sítrónusafi
  • 2 msk gin eða vodka (má sleppa)
  • 1/4 tsk salt

Aðferð:

Sjóðið saman rabarbara, vatn, sykur, engifer og sítrónusafa þar til rabarbarinn verður mjúkur og fer að liðast í sundur. Takið af hitanum og maukið með töfrasprota, matvinnsluvél eða blandara þar til blandan verður kekkjalaus. Hrærið gini og salti saman við. Kælið blönduna alveg annaðhvort inni í frysti í ca. 1 klukkustund eða inni í ísskáp í nokkra klukkutíma eða yfir nótt.

Frystið í ísvél samkvæmt leiðbeiningum frá framleiðanda.

Prenta uppskrift

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: