Skip to content

Posts from the ‘Ís’ Category

Kaffi- og súkkulaðihristingur

Ég hef það eiginlega syndsamlega gott þessa dagana – þrátt fyrir útstæða bumbu sem hýsir lítið diskókríli sem skiptist á því að hiksta, sprikla og hnoðast. Ég byrja daginn á því að setjast út á pall með morgunmat, te og blað áður en ég tek lærdómstörn í gamla bjarta herberginu mínu og eyði svo eftirmiðdeginum í skemmtilegheit á kaffihúsum miðborgarinnar. Það er mjög gott að vera komin út úr þéttpakkaðri borg í víðáttuna og ég fæ ekki nóg af því að dást að himninum sem fær að teygja endalaust úr sér.

Þessi mjólkurhristingur er ofureinfaldur, mjög bragðgóður og á einstaklega vel við í þessu fallega sumarveðri. Það þarf samt að passa að kaupa ís með miklu súkkulaðibragði eða bæta við súkkulaðispæni (eða jafnvel kakódufti) til að hristingurinn verði ekki of bragðdaufur. Passið líka að hella upp á rótsterkt kaffi fyrir ísmolana svo að kaffibragðið spili ekki bara útvatnað aukahlutverk.

SJÁ UPPSKRIFT

Jarðarberjafrostpinnar

Við erum vel undirbúin fyrir hitann hérna úti. Við eigum ísvél, risastóra viftu sem er á fullu þegar loftkælingin er ekki í gangi og bara um daginn splæsti systir mín í frostpinnamót handa mér. Og ég gæti varla verið ánægðari með það. Það er svo ótrúlega auðvelt að búa til frostpinna og það er svo einstaklega skemmtilegt að búa þá til sjálf úr ferskum ávöxtum og vita að þeir eru ekki pakkaðir óþarfa aukaefnum.

Mér sýnist nú á öllu að veðrið sé álíka sólríkt og yndislegt á Íslandi og ég vona að það sé bara forsmekkurinn að góðu sumri. Enda kem ég heim eftir mánuð og mig langar sko ekki til að lenda í því aftur að upplifa 30 stiga hitabreytingu. Fyrst að veðrið leikur svo við okkur öll þá langar mig til að benda ykkur á nokkrar frískandi og sumarlegar uppskriftir sem við Elmar höldum mikið upp á.

Engiferöl, ískaffi, læmónaðiSorbetar (t.d. mangó, jarðarberja, rabarbara).

Má ég líka stinga upp á sumarpartýi undir berum himni með mexíkósku þema: Guacamole, carnitas og quesadillur. Með bjórgarítum? Ég er viss um að það geti ekki klikkað.

SJÁ UPPSKRIFT

Rabarbarasorbet

Þá er ég búin að kveðja systur mína eftir yndislega viku sem leið alltof hratt. Litla kotið virðist ansi tómlegt og það verður skrítið að detta aftur í daglega rútínu af lærdómi og skriftum. Við vorum mjög dugleg að labba um hin ýmsu hverfi Brooklyn, skoðuðum hinn fræga og víðáttumikla Greenwood grafreit, flatmöguðum í sólinni í Prospect Park og átum á okkur gat við hvert tækifæri. Þetta er fimmta ferð Emblu til New York en í fyrsta skiptið sem hún eyðir tíma utan Manhattan og hún var fljót að lýsa því yfir að þrátt fyrir mikla hrifningu á Manhattan þá væri Brooklyn mun skemmtilegri. Sem ég get tekið heilshugar undir.

Við vöknuðum snemma á laugardagsmorgninum, hengdum myndavélarnar um hálsinn og töltum út á bændamarkaðinn. Jarðarberjatíðin er greinilega að ná hámarki – ljúfur og sætur ilmur lá í loftinu og við vorum ekki lengi að því að grípa nokkra bakka af jarðarberjum, eitt knippi af rabarbara og annað af aspas og ýmislegt góðgæti beint frá býli.

Við fórum á frábæran veitingastað í Fort Greene í einum göngutúrnum okkar og deildum tveimur ískúlum. Annar ísinn var rabarbarasorbet með engiferi sem var svo ferskur og bragðgóður að ég mátti til með að nýta rabarbarann í að búa til minn eigin. Ég lagðist í smá rannsóknir og fann uppskrift á netinu sem notar ekki of mikinn sykur á móti rabarbara og útkoman er þessi fallega bleiki sorbet með ljúfu rabarbarabragði og smá vísi að engiferi. Upprunlega uppskriftin notar smá sterkt áfengi til að koma í veg fyrir að sorbetinn frjósi um of en það má auðvitað sleppa áfenginu og leyfa ísnum bara að standa við stofuhita í nokkrar mínútur eftir að hann er tekinn úr frysti til að mýkja hann aðeins.

SJÁ UPPSKRIFT

Jarðarberjasorbet

Á meðan lóan og spóinn eru óumdeilanlegir vorboðar heima á Íslandi þá er fátt sem gefur eins sterklega til kynna að vorið sé loksins komið hérna úti eins og rabarbarinn, aspasinn og jarðarberin á bændamarkaðnum. Í byrjun birtast þau á markaðnum í takmörkuðu upplagi og einungis þeir árrisulustu fara heim með poka af þessu góðgæti. Ég hef ekki verið ein af þessum heppnu undanfarnar helgar enda er ég vakandi hálfu og heilu næturnar sökum lítilla kröftugra fóta sem sparka í mig innan frá og áður en ég veit af er klukkan orðin alltof margt og ég er ennþá dottandi undir sæng.

Ég get því ekki sagt að þessi ótrúlega ljúffengi sorbet hafi verið búinn til úr lífrænt ræktuðum, nýuppteknum jarðarberjagersemum. Við fórum í búðina um daginn og ég fyllti heilan poka af ávöxtum í tilraun til að sefa sætuáráttu mína. Ég greip tvo bakka af jarðarberjum á útsölu en þegar heim var komið sá ég að þau myndu varla endast mjög lengi, svo þroskuð voru þau.

Ég starði á þau í svolitla stund og velti fyrir mér möguleikunum. Ætti ég að baka? Búa til eitthvert svakalegt jarðarberjasalat? Sjóða síróp? En þá minntist ég uppskriftar fyrir sorbet sem ég hafði séð hjá Smitten Kitchen (er nokkuð orðið of augljóst að ég er farin að eyða heilu og hálfu dögunum í að lesa gamlar færslur frá henni?). Ég hafði merkt við uppskriftina en ákveðið að salta hana þar sem ég sá ekki fram á að eiga heilt kíló af ódýrum jarðarberjum í bráð. Og krakkar, þessi sorbet er unaður. Hann minnir mig svolítið á óáfenga margarítu nema í ísformi og ég hef lúmskan grun um að ef þið setjið nokkrar skeiðar af þessum sorbet, nokkra klaka, slurk af tekíla og smá ferskan límónusafa í blandara að þið fáið hreint magnaða jarðarberjamargarítu. Ég væri allaveganna að brasa við það akkúrat núna ef ég væri ekki svona ábyrgðarfull og samviskusöm ófrísk kona.

SJÁ UPPSKRIFT

Epla- og engifersorbet

Gleðileg jól!

Hátíðin var stórkostlega notaleg hjá okkur hjónunum og við gerðum vel við okkur með fínum kjötrétti (uppskrift síðar), ostum, rauðvíni og þessum heimalagaða ís. Mér fannst eitthvað svo tilvalið að búa til ís úr hráefni sem ég tengi við jólin – engifer og rauð epli. Ég var búin að einsetja mér að nota ísvélina svo mikið í ár að Elmari gæfist ekki færi á að benda mér á hversu mikil sóun á eldhúsplássi hún væri. Því miður hef ég ekki verið eins iðin við kolann og ég ætlaði mér en því ætla ég að ráða bót á á nýju ári, enda er heimalagaður ís alveg frábært matarfyrirbæri.

Ég dró fram ísbiblíuna mína og fletti þar til ég fann uppskrift sem mér fannst tilvalin. Reyndar blandaði ég saman tveimur uppskriftum þar sem ég átti eina flösku af áfengislausum eplasíder inni í ísskáp og hreinlega tímdi ekki að kaupa hvítvínsflösku til að sulla út í blönduna. Ég tók tvo mild pirringsköst út í Lebovitz og fann mig knúna til að breyta örlítið frá uppskrift. Eitt skref uppskriftarinnar er að þrýsta öllu gumsinu í gegnum síu. Sem væri gott og blessað ef ég ætti heilan lager af alls kyns síum en þar sem ég á bara mjög fína síu þá reyndist þetta verkefni einstaklega seinlegt og erfitt. Ég brá því á það ráð að skella öllu í matvinnsluvélina og blanda síðan saman við sídersírópið. Og það kom sko alls ekki að sök og herðar og hendur voru afar þakklátar fyrir vikið.

Sorbetinn er mjög ljós á litinn, silkimjúkur með mildu epla- og engiferbragði. Við hituðum brownies í örbylgjuofninum og bárum ísinn fram með þeim. Ég er mjög hrifin af því að bera fram svona ferskan og léttan eftirmat eftir mikið af þungum og krefjandi mat. Það hreinsar bragðlaukana og þegar eftirrétturinn er svona léttur þá er alltaf aukapláss fyrir meira. Það er gott að hafa í huga að velja alltaf vel þroskaða, vel ilmandi og fallega ávexti í sorbet. Sorbet gerir lítið annað en að magna bragð ávaxtarins og því er best að passa að ávöxturinn bragðist vel áður en hann er nýttur.

SJÁ UPPSKRIFT

Rósavíns- og hindberjasorbet

Tölum aðeins um rósavín. Rósavín hefur fengið svolítið slæmt orð á sig fyrir að vera of sætt, of stelpulegt, of bleikt og margir snúa upp á nef sér og fúlsa við drykknum. Það er svo sem allt í lagi. En rósavín er alveg jafn margbreytilegt og allar aðrar víntegundir. Það er til gott rósavín og svo er til rosalega (rosalega) vont rósavín. Ég játa fúslega að ég drekk rósavín endrum og eins og finnst þau stundum m.a.s. mjög góð. Því þurrara sem vínið er því meira slær á sætuna án þess þó að drepa ávaxtakeiminn.

Það má líka búa til sorbet úr rósavíni og hindberjum. Sorbet sem mér finnst mjög frískandi og skemmtilega öðruvísi á bragðið (ásamt því að vera svona líka fallegur á litinn!). Ég á því láni að fagna að sitja ein að fengnum þar sem eiginmaðurinn grettir sig ógurlega í hvert skipti sem ég býð honum upp á kúlu og muldrar eitthvað um að hann hafi lítinn sem engan áhuga á einhverjum rósavínsóskapnaði.

Verið hugrökk, búið til rósavínssorbet!

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: